laugardagur, 26. janúar 2008

Marengspælingar

Ég er á fullu í bakstri í dag. Fjölskylduafmæli á morgun.
Þar sem ég er að þeyta saman egg og sykur í marengs þá rifjaðist upp fyrir mér minnisbrot úr matreiðslunni í Holti.

Þegar hægt er að snúa marengsnum á hvolf án þess að hann detti úr skálinni, þá er hann tilbúinn.

Ég hef aldrei spáð í þessu áður, en liggur ekki beinast við að það er einungis hægt að gera þetta próf í eitt skipti á hverja hræru? Hvað ef hann er barasta ekki tilbúinn?

Vegna þessara vangaveltna er ég nú búin að betrumbæta þetta húsráð:

-Þegar hægt er að snúa marengsnum á hvolf án þess að hann detti úr skálinni, þá er hann annað hvort tilbúinn, eða þú þarft að byrja upp á nýtt!!

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Operation desert storm pt. 2

Nýtt blogg?

Onei, bara nýtt skemmtiefni vegna gríðarlegrar eftirspurnar :)
Munið þið eftir því þegar þessi gaur kom í fréttunum í haust?

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Operation desert storm pt. 1

Vegna þess hversu frábæran húmor hann Elli hefur.....
...þá bara varð ég að smella þessu hingað inn!!!

Þetta er tóm snilld, ég varð að horfa á þetta tvisvar :)Svo fer örugglega að styttast í blogg hérna, bíðið bara :-*

miðvikudagur, 16. janúar 2008


Yndislegi, góði og fallegi prinsinn minn er 7 ára í dag!
Takk fyrir allar kveðjurnar og símtölin!

Hér var haldið heljarinnar partý í dag. 13 drengir á sykurflippi :)
Annars voru það helst foreldrar afmælisbarnsins sem voru með læti. Við áttum inniblys frá því á áramótum og af því að utan á pakkanum var mynd af þessum sömu blysum ofan á girnilegri tertu, þá var blysunum náttúrulega smellt á afmæliskökuna. Sjö stykkjum takk fyrir takk.

Þegar kveikt var á blysunum brutust út mikil fagnaðarlæti því þetta var mjög flott, því er ekki að neita. En kannski var ekki gert ráð fyrir því að kveikt væri á sjö stykkjum í einu í lokuðu rými!

Á meðan logarnir af blysunum lýstu upp loftið í stofunni og afmælisgestirnir sungu afmælissönginn fór nefnilega reykskynjarinn í gang!?! "Syngið hærra, syngið hærra" æpti ég til að yfirgnæfa vælið. Og þeir sungu, þessar elskur. Héldu fyrir eyrun og sungu hástöfum þar til þeir urðu rauðir í framan. Þá var Tóti búinn að redda stiga og kippa batteríunum úr. Nema hvað þá fór næsti reykskynjari í gang! Þetta var bara fyndið :) Við vitum þá allavega að þessi tæki virka. Veit bara ekki hvað foreldrar strákanna halda þegar þeir segja frá þessu heima hjá sér.
Ég vil taka fram, okkur til málsbóta, að einu leiðbeiningarnar sem fylgdu blysunum voru á pólsku svo við urðum að fara eftir myndinni!

7 ára strákar eru fyndnir.
Einn galaði á mig "Hvað er þetta?!?" og benti á hálfétna jógúrtköku.
"Súkkulaði" segi ég.
"Ojj", svaraði drengsi og skilaði kökunni.
"Hann er í megrun", útskýrði drengurinn við hliðina á honum
"Nöjts! Mér finnst þetta bara vont!"
Svo upphófust miklar umræður við borðið um megranir.
"Mamma mín, hún hefur sko farið í svoleiðis"
!!!laugardagur, 12. janúar 2008

örblogg

Fjúff, hér er allt búið að vera ferlega öfugsnúið undanfarna daga og ekki víst að af réttist fyrr en í vor.

Takmarkið eru 15 einingar þessa önnina, og síðasta vika hefur farið í staðlotu og allsherjar námsskipulagningu auk tæknilegra örðugleika. Það er nú bara gaman að svoleiðis.

Ætla nú ekkert að hafa þetta lengra, langaði bara að henda inn línu svona til að sýna fram á lífsmark :)

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Nýtt ár, ný tækifæri ekki satt?

...
Vonum það alla vega.

Gamla árið var kvatt með pompi og prakt hér á Esjubrautinni. Hingað mætti einvala lið fjölskyldumeðlima með Jonna sprengjusérfræðing í fararbroddi. Eldaður var svínahamborgarahryggur og lambahryggur með tilheyrandi, dýrindis humarsúpa tengdamömmu í forrétt og svo tróðum við í okkur salötum og reyktum og gröfnum silungi fram eftir nóttu.

Alveg eðal. Auðvitað var sprengt af öllum kröftum þrátt fyrir leiðinlegt veður. Vindurinn stóð reyndar þannig að yfir okkur rigndi rakettuprikum og púðurögnum frá öðrum bæjarhlutum...

Skaupið var mjög gott. Allir sammála því?
Við hlógum alla vega að því öllu saman eins og það lagði sig.


Þessir herramenn hér, Neró og Sesar stóðu sig með prýði. Var einhver að tala um að Neró væri stór? Sko, hann er s.s. ekkert stór.


Hér má sjá Sólina og Maron Reyni gæða sér á snakki af innlifun í barnahorninu! Annars var Maron aðallega í sprengjunum.
Sólin var rólegri í þeim efnunum og fylgdist spök með þeim
út um gluggann... í hæfilegri fjarlægð
Björgvin kveikir í blysi. Hann var á yfirsnúningi allt kvöldið og sprengdi af miklum móð.

Krakkarnir skála fyrir nýju ári við ömmu Siggu


Sólin og mamman í banastuðiEn alla vega, nóg komið af gömlum myndum. Þetta var í fyrra, nú er komið nýtt ár ;)
Ekkert áramótaheit frekar en venjulega, bara von um að þetta ár slái því síðasta út.

Ég á nú ekki von á öðru enda margt að gerast á árinu:
kjellingin er að komast á fertugsaldurinn (ehemm)
hún stefnir að útskrift á árinu (?aftur?)
og svo er maður náttúrulega alltaf að æfa fyrir Miss fittness 2012 (án gríns, ég held ég hafi fundið vöðva um daginn sem ég hef aldrei séð áður, þetta er allt að ske!)

Hér á bæ er unnið hörðum höndum að því að snúa sólarhringnum aftur við og mér reiknast til að ef mér á að takast að vakna 7 á morgun og vera búin að koma öllum á sinn stað fyrir 8 þá þurfi ég að fara að sofa.....núna.

Því bið ég ykkur vel að lifa,
verið góð við hvert annað og ykkur sjálf.
B