sunnudagur, 20. júní 2010

Básar


Við fórum að Básum í Goðalandi á föstudaginn og tjölduðum í tvær nætur ásamt Snorra, Ínu og stóðinu þeirra. Okkur leist nú ekkert sérstaklega á blikuna á leiðinni þangað, því mikið er af ösku þarna á svæðinu og vegurinn erfiður yfirferðar. Greinilegt var hvar hlaupið hafði í árnar við eldgosið og sérstaklega undir Gígjökli þar sem þvílíkir jökulruðningar sýndu hvar hlaupið rutt sér leið niður í Markarfljót.

Við komumst þetta samt klakklaust, fórum bara varlega yfir vöðin og tjaldvagninn var skraufaþurr þegar á leiðarenda var komið.

Þetta var frábær ferð, við fórum í stutta göngu á laugardeginum, svokallaðan Básahring. Síðan skelltum við okkur í Stakkholtsgjá, sem er 2km djúp og einstaklega falleg. Yfirþyrmandi hamraveggirnir beggja vegna iðagrænir upp á brúnir og bullandi jökulá hlykkjast eftir gjánni miðri. Við þurftum m.a.s. að taka af okkur skóna á einum stað og vaða yfir ána, sem var í fínu lagi. Gaman að fá ösku á milli tánna, aldrei gert það áður!

Síðan var náttúrulega bara grillað og borðað út í eitt og virkileg notalegheit í hávegum höfð allan tímann. Krökkunum fannst þetta æði, þvílík ævintýri alls staðar. Ekki spillti fyrir að við skoðuðum Seljalandsfoss á heimleiðinni í bak og fyrir. Það var síðan voða gott að komast í sund Hellu og skola öskurykið af hópnum.

Dásamleg ferð, hvað ætli verði næst?

mánudagur, 14. júní 2010

Fyrsta útilega sumarsins

Fyrsta útilega sumarsins var farin núna um helgina þegar við tjölduðum á Þingvöllum í tvær nætur ásamt Herði og Árnýju og strákunum þeirra. Þetta var nú frekar í blautari kantinum en samt þrælskemmtilegt og allir skemmtu sér konunglega. Við flýðum rigninguna á Þingvöllum á laugardeginum og keyrðum austur í Laugarás þar sem við heimsóttum dýrin í Slakka.
Sólin og svangi kálfurinn
Pabbinn og Vinurinn

Svo er bara spurning hvert farið verður um næstu helgi :)