fimmtudagur, 25. október 2012

Afmælisstelpa

AfmælisSól
 
Elskuleg dóttir mín vaknaði 9 ára í morgun. Eins og sjá má var hún eiturhress og vel tilhöfð eins og venjulega klukkan sjö á morgnana, alltaf gaman að þessum afmælismyndum :)

Hún á líka eftir að elska mömmu sína þegar hún finnur þessa síðu á unglingsárum sínum og sér þessa mynd, múhahahaha!
 
Hér var fullt hús af stelpum í dag, 14 stykki mættu í svaka partý, tertuát, popp og bíó á stóra veggnum í stofunni. Ekkert slor. Daman var svo uppgefin eftir daginn að hún dreif sig upp í rúm kl. átta að kúra sig með bók, þessi elska!

mánudagur, 22. október 2012

Af hlaupum

Langt síðan ég hef skrifað um hlaup, best að skrifa aðeins um hlaup núna. Það misfórst nefnilega alveg að skrifa það hérna að ég hljóp hálft Reykjavíkurmaraþon í ágúst. Meira að segja á rétt undir tveimur tímum og er rosalega ánægð með það. Þetta var mikil upplifun, það er bara eitthvað við það að vera hluti af þessum svakalega fjölda hlaupara, ég hefði aldrei getað ímyndað mér hljóðið sem mörg þúsund strigaskór gefa frá sér við rásmarkið, notalegt más og fnæs alltumlykjandi alla leiðina. Hor og sviti hvert sem litið er. Að vera ítrekað alveg að gefast upp en halda samt áfram og ná settu markmiði. Gottúlovit! Ég stefni sko að því að fara aftur.


Ef það er eitthvað sem er ótrúlega leiðinlegt við hlaup þá er það að hlaupa alltaf sömu leiðina. Drepið mig ekki á Vesturgötunni eina ferðina enn, eða Garðabrautinni, úff. Þegar við förum út fyrir bæjarmörkin reyni ég því alltaf að taka hlaupaskóna með og mæti víðtækum skilningi fjölskyldumeðlima. T.d. lét ég þau henda mér út í Ólafsvík um Verslunarmannahelgina og ég hljóp á eftir bílnum alla leið á Hellissand. Börnunum mínum finnst þetta ekkert skrýtið núorðið: "Ég fer út hérna, sjáumst seinna!!".
Þegar við fórum til Danmerkur um páskana hljóp ég með elsku Kristínu í Århus og tók líka smá skrens í miðborg Kaupmannahafnar. Við erum búin að vera dugleg í sumarbústaðaferðum undanfarið og þá er fátt betra en að kanna nágrennið í smá hlaupi og skella sér síðan í pottinn. Við vorum einmitt að koma úr 5 daga bústaðaferð í vetrarfríinu og ég fór 4x út að hlaupa á meðan á henni stóð, dásamlegt!

Áramótaheiti mitt um maraþon á mánuði hefur elst nokkuð vel. Fyrir utan mars (þegar ég rifbeinsbrotnaði) og september (þegar ég var últra kvefuð) hef ég alltaf náð að hlaupa maraþon á mánuði og reyndar vel það. Svo ég held ótrauð áfram, bara gaman að því. Framundan eru suddalegir, kaldir og blautir mánuðir, en ég ætla samt að að halda þessu til streitu.

Písátlaugardagur, 20. október 2012

Hlaupamyndir?

Hlaupandi um landið þvert og endilangt, eins og ég hef verið að gera þetta árið (ehemm) hef ég séð marga ósköp fallega staði. Staði sem ég hef jafnvel áður keyrt framhjá án þess að stoppa og gefa nokkurn gaum.

Nú er ég í bústað á Suðurlandinu og þar sem ég var á harðahlaupum hér í grenndinni sá ég hvar vegurinn hafði verið lagður í sveig í kringum stóran hraundrjóla. Þarna var s.s. álfasteinn sem ekki hafði verið sprengdur í loft upp við vegagerðina heldur vegstæðinu breytt og vegurinn lagaður að umhverfinu. Mjög fallegt.

Ég get ekki stoppað í miðju hlaupi svo ég var á ferðinni þegar ég smellti mynd af dýrðinni með símanum mínum. Sólin skein svo fallega, haustlitirnir í algleymingi, fuglasöngur og Álfasteinn. Kemst þetta til skila? Myndir teknar á hlaupum eru skrýtnar, óskýrar, skakkar og sérstakar. Kannski þetta sé upphafið að nýrri myndaseríu?

Published with Blogger-droid v2.0.9

sunnudagur, 14. október 2012

Þetta er einfalt, ekki flókið

Stundum finnst mér lífið vera flókið og fullt af útúrdúrum. Get alveg sokkið ofan í minnstu smáatriði og sé ekki fram úr smávægilegustu vandamálum. Dagurinn minn getur verið helmingi erfiðari en hann þarf að vera, af því ég gef mér ákveðnar forsendur sem reynast svo rangar, legg of mikið á mig við það sem er ósköp einfalt og hryn ofan í djúpa forarpytti þegar auðvelda leiðin var fyrir framan mig allan tímann.

Þetta er einfalt, ekki flókið.
Þetta er einfalt, ekki flókið.
Þetta er einfalt, ekki flókið.

...Ahhhhh...

laugardagur, 13. október 2012

NaNoWriMo

Já, nóvember er á næsta leiti og það þýðir bara eitt: http://www.nanowrimo.org/en/dashboard
Og ég er búin að skrá mig! NEI, nú segi ég ekki meir...

mánudagur, 8. október 2012

Pyntingastofa Boggu

Frumburðurinn er aftur kominn með gat í eyrað, þökk sé frábærri þjónustu á Pyntingastofu Boggu. Ég veit ekki hvað hann er að kvarta, ég sem sprittaði allt í rot og deyfði með ís og alles...

Published with Blogger-droid v2.0.9