sunnudagur, 29. maí 2011

Dagurinn í dag

Það sem garðurinn á E9 verður flottur í sumar. Búið að klippa allt og sjæna beð og svona. Dundaði mér í rósarunnanum í dag og ætla að veðja á að hann blómstri í ár (það yrði þá í fyrsta sinn á þeim 10 árum sem við höfum búið hérna...)

Við Björgvin tókum á því í dag, hann sló og ég mokaði. Smá mosaeyðir fékk líka að fljóta með. Mikið sem við erum sátt við afraksturinn. Keyptum okkur síðan laugardagsnammi og höfðum það kósí. Yndislegt alveg hreint.

Á meðan dunduðu feðginin sér við veiðar í Eyrarvatni. Einn silungur kominn í grafning og allt. Mótorinn varð bensínlaus úti á miðju vatni og þegar reynt var að róa í land brotnaði önnur þóftan. Hvurslags eiginlega!

Ég held að við Björgvin höfum vinninginn í notalegheitum í dag :o)

Þessi þarf hvorki bensín né árar...


miðvikudagur, 25. maí 2011

Einu sinni var...

Allar bestu sögurnar byrja á Einu sinni var...

Einu sinni var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og heldur ekki í júlí því þá áttu starfsmenn Ríkisstöðvarinnar frí.

Mig rámar alveg í 1. október 1987 þegar allt í einu var sjónvarp alla daga vikunnar. Þess ber að geta að fyrir utan Stundina okkar á sunnudögum, voru hinir tékknesku Klaufabárðar og Tommi og Jenni eina barnaefnið á dagskrá. Þess vegna glápti ég á þetta allt saman. Af Taggart lærði ég ensku, en enga þýsku lærði ég því þegar uppháhaldsþættirnir um Derrick og hans huggulega fylgdarsvein voru á dagskrá þá var ég náttúrulega bara að horfa á fylgdarsveininn og andvarpa.
óboj, það sem manni fannst Harry Klein huggulegur :)
Þetta var náttúrulega sjónvarpsefni í hæsta gæðaflokki sem ég man ennþá eftir. Núna er sjónvarp allan sólarhringinn og efnið misgáfulegt.

Ég get ekki ímyndað mér að þegar börnin komast til vits og ára þá muni þau hugsa á sama hátt til Chowders eða Ed, Edd n Eddy á sama hátt og ég hugsa til Harry Klein, það er bara þannig.