fimmtudagur, 30. maí 2013

Vorkvöld

Klukkan er 22:30 og ég tími ekki að fara í háttinn. Enn er eitthvað í að sólin setjist, úti er bjart og milt vorkvöld. Allt að verða svo grænt, fuglarnir syngja. Sumarfríið á næsta leiti. Allt eins og það á að vera.


mánudagur, 27. maí 2013

Það styttist í frí...

... einungis fjórir dagar eftir í vinnu og svo sex vikna sumarfrí. Ég þarf reyndar að mæta á tvo fundi í júní, en það verður bara gaman.

En það er ekki bara sumarfrí hjá mér framundan, heldur líka hjá Facebook!


Það held ég nú! Þótt ég sé nú ekki mikið að gefa af mér á Facebook þá eyði ég aaallt of miklum tíma þarna inni. Að gera ekki neitt. Vona að einhver annar setji eitthvað sniðugt inn og skemmti mér. Þannig að ég ætla að setja Facebook í frí 1. júní og sleppa því algerlega að logga mig inn á þennan tímaþjóf í heilan mánuð. Þar með mun ég græða heilmikinn tíma sem ég ætla að nýta vel, lengja tímann í sólbaðinu, skrifa heil ósköp, blogga meira.

Ég er með heillangan dúndurskemmtilegan verkefnalista í kollinum. Og kvíðahnút í maganum... hvað ef einhver segir eitthvað um mig og ég sé það ekki? Hvað ef eitthvað skemmtilegt er að gerast og ég frétti ekki af því? Hvað ef allir eru að spjalla eitthvað og ég fæ ekki að ver með? Hvað ef þetta er alls ekkert góð hugmynd?!

Jú, jú, þetta er frábær hugmynd. Málið er að þegar mér dettur eitthvað ótrúlega skemmtilegt og spennandi í hug sem ég verð að deila með öðrum, þá á ég það til að setja það á Facebook. Þar verður þessi gersemi að einni setningu sem hverfur í hítina og sést aldrei aftur. Ég dauðsé eftir þeim tíma sem ég hef varið þarna inni og hefði getað notað til að skrifa eitthvað eigulegra á þessa síðu til dæmis. Og þá meira en bara eina setningu.

En heyrðu, þá er þetta orðið opinbert. Eins gott að standa sig!


laugardagur, 25. maí 2013

Laugardagskvöld

Laugardagsnammi og Ísland-opoly í góðum félagsskap. Hvað er hægt að hafa það betra á laugardagskvöldi.

fimmtudagur, 23. maí 2013

Heimalærdómur
Ég held að börnin mín eigi bestu kennara sem hægt er að hugsa sér, í heimsins besta skóla. Nú þegar vorönn er aaalveg að ljúka og sumarfríið aaalveg að byrja eru þau ennþá bæði áhugasöm og glöð með sitt. Núna situr Sólin mín á borðstofuborðinu og sinnir heimavinnunni með ánægju. Verkefnið er að lesa út um allt, upphátt og í hljóði, hvar og hvenær sem er, inni í skógi og upp á borði og út um allt. Hvað er hægt að hugsa sér það betra?

laugardagur, 18. maí 2013

11:30

Þetta er morgunmatur meistanna eftir 10 tíma langþráðan svefn. Annasöm vika að baki og við erum í afslöppunar- /eurovisionferð í Húsafelli. Gaman að geta sett inn mynd og færslu hvar sem er, hugsanlegt að maður nýti sér þetta aðeins í sumar.
Veðrið hér er samt hræðilegt, bústaðurinn nötrar hreinlega, svo mikið er rokið. Ég held að ég hafi verið full bjartsýn þegar ég pakkaði sólaráburðinum... Samt yndislegt að slaka á með hjörðinni sinni, spila, éta og... sofa.

föstudagur, 17. maí 2013

fimmtudagur, 9. maí 2013

Af viðhaldinu

"Veistu hvað þetta hár hérna er orðið gamalt?"

Mig langaði að vefja mig nælonskykkjunni og sökkva ofan í stólinn þegar minn annars dagfarsprúði hárskeri veifaði slitnum endum til mín í speglinum og hótaði því að skerða hár mitt verulega nema ég féllist á kröfur hennar um reglulega notkun djúpnæringar.

"Þú verður bara að hugsa um þetta, hárið er orðið margra ára gamalt í endana og það þarf að næra það annars verður það ónýtt."

Mér varð hugsað til rándýru djúpnæringarinnar sem ég átti heima, hana keypti ég fyrir ári síðan eftir svipaðan fyrirlestur Önnu minnar, en hafði sáralítið notað. Það verður víst að nota þessa hluti, þeir virka ekki meðan þeir sitja inni í skáp. Ég lofaði Önnu minni bót og betrun og við náðum að sættast í bili. Eins gott, ég kann svo vel við Önnu og hún náði að redda þessum slitnu hárendum, enn eina ferðina.

Þessi ferð mín á hárgreiðslustofuna var bara upphafið að vandræðalegustu viku lífs míns, vikunni sem ég hafði ákveðið að nýta í allsherjar yfirhalningu, svona til að undirbúa vorkomuna. Þú veist, verða svoldið sæt fyrir sumarið. Hárgreiðslustofan var bara mitt fyrsta stopp. 

Næst lá leið mín á snyrtistofuna þar sem ég ætlaði í húðdekur sem minn ástkæri eiginmaður gaf mér í jólagjöf. Ég bar mig greinilega klaufalega að því snyrtifræðingurinn spurði mig strax: "Ert þú ekki vön að koma í svona?". Ööö, nei.
Að hennar sögn þurfti hún að skafa eitthvað framan úr mér. Sagði að ég þyrfti að nota kornamaska reglulega til að komast hjá svoleiðis aðgerðum í framtíðinni.

Ég brosti bara og kinkaði kolli. Kornamaskinn minn stóð mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Inni í skáp, við hliðina á djúpnæringunni þar sem ég man aldrei eftir að nota hann. Frábært...

Þríleik þessum lauk með heimsókn til tannfræðings. Hún var voðalega notaleg af tannfræðingi að vera, hreinsaði og skrúbbaði og tók myndir. En svona til að fullkomna vandræðaþrennuna sagði hún mig vera með "brúna bletti" á milli nánast allra tannanna. "Notarðu ekki tannþráð?" spurði hún mig furðu lostin. Ég sagðist eiga tannþráð. Sem ég og geri. Þrjá pakka, inni í skáp, við hliðina á djúpnæringunni og kornamaskanum.

Nú eru liðnar þrjár vikur síðan vandræðavikunni lauk og ég er mikið búin að næra, skrúbba og þræða síðan þá. Svo mikið að ég held að ég sé alveg að verða tilbúin fyrir vorkomuna. Þú veist, orðin svoldið sæt fyrir sumarið. Enda ekki seinna vænna, sumarið var nefnilega að detta í hús í dag.
Ég og vinurinn grófum upp matjurtagarðinn ísólinni í dag. Yndislegt!

laugardagur, 4. maí 2013

Café Esja

Ég á bestu börn í heimi. Það er bara þannig, ekkert vafamál og ekki hægt að halda neinu öðru fram. Ég var að koma frá litlu sætu kaffihúsi sem þau reka systkinin á E9, Café Esju. Þar er reglulega opið og þá er öllu tjaldað til og ekkert skorið við nögl. Þau búa til matseðla, sem miðast við það sem til er í skúffum og skápum hverju sinni, gestum er vísað til sætis af litlum, ljóshærðum kurteisum þjóni sem tekur líka niður pantanir. Kokkurinn hlerar í eldhúsinu og þegar pöntun hefur verið afhent hefst hann handa við að steikja, hræra, hella og smyrja á meðan gesturinn nýtur kyrrðarinnar í matsalnum með ljúfa píanótónlist af YouTube. Þjónustan er hröð og mjúkleg og fyrr en varir fer hver rétturinn af öðrum að berast innan úr eldhúsi, litli þjónninn er mjúkhentur og snar í snúningum og kokkurinn nánast göldróttur þegar hann töfrar áreynslulaust fram girnilega rétti eftir pöntun.

Yndislegt alveg hreint, ég held að það toppi þetta enginn! Og svo sit ég hér í betri stofunni á meðan kokkurinn og þjónninn rífast aðeins um það hvor þeirra eigi að vaska upp, það tilheyrir líka :)


Eins og sést á árstíðamynd dagsins er suddalegt um að litast úti, blautt og hráslagalegt á þessum laugardegi.
Er þá ekki um að gera að kósa sig inni við!

Gestir fá alvöru matseðla á Café Esju, og snarl meðan þeir ákveða sig :)

Matseðilinn er fjölbreyttur og allir ættu að geta fundið sér eitthvað girnilegt

Fyrsti rétturinn kominn á borðið, spælt egg og greipsafi

Réttur númer tvö: kaffi og saltkex með túnfisksalati, omminomminomm!

"Æ, mamma, ég bara verð að fá að horfa á þig borða"

Kokkurinn og þjónninn. Sjá skiltið fyrir ofan þau, logoið er þeirra eigin frumlega hönnun.