laugardagur, 4. maí 2013

Café Esja

Ég á bestu börn í heimi. Það er bara þannig, ekkert vafamál og ekki hægt að halda neinu öðru fram. Ég var að koma frá litlu sætu kaffihúsi sem þau reka systkinin á E9, Café Esju. Þar er reglulega opið og þá er öllu tjaldað til og ekkert skorið við nögl. Þau búa til matseðla, sem miðast við það sem til er í skúffum og skápum hverju sinni, gestum er vísað til sætis af litlum, ljóshærðum kurteisum þjóni sem tekur líka niður pantanir. Kokkurinn hlerar í eldhúsinu og þegar pöntun hefur verið afhent hefst hann handa við að steikja, hræra, hella og smyrja á meðan gesturinn nýtur kyrrðarinnar í matsalnum með ljúfa píanótónlist af YouTube. Þjónustan er hröð og mjúkleg og fyrr en varir fer hver rétturinn af öðrum að berast innan úr eldhúsi, litli þjónninn er mjúkhentur og snar í snúningum og kokkurinn nánast göldróttur þegar hann töfrar áreynslulaust fram girnilega rétti eftir pöntun.

Yndislegt alveg hreint, ég held að það toppi þetta enginn! Og svo sit ég hér í betri stofunni á meðan kokkurinn og þjónninn rífast aðeins um það hvor þeirra eigi að vaska upp, það tilheyrir líka :)


Eins og sést á árstíðamynd dagsins er suddalegt um að litast úti, blautt og hráslagalegt á þessum laugardegi.
Er þá ekki um að gera að kósa sig inni við!

Gestir fá alvöru matseðla á Café Esju, og snarl meðan þeir ákveða sig :)

Matseðilinn er fjölbreyttur og allir ættu að geta fundið sér eitthvað girnilegt

Fyrsti rétturinn kominn á borðið, spælt egg og greipsafi

Réttur númer tvö: kaffi og saltkex með túnfisksalati, omminomminomm!

"Æ, mamma, ég bara verð að fá að horfa á þig borða"

Kokkurinn og þjónninn. Sjá skiltið fyrir ofan þau, logoið er þeirra eigin frumlega hönnun.


1 ummæli:

Ágústa sagði...

Vá þvílíkur lúxus :)