Mig langaði að vefja mig nælonskykkjunni og sökkva ofan í stólinn þegar minn annars dagfarsprúði hárskeri veifaði slitnum endum til mín í speglinum og hótaði því að skerða hár mitt verulega nema ég féllist á kröfur hennar um reglulega notkun djúpnæringar.
"Þú verður bara að hugsa um þetta, hárið er orðið margra ára gamalt í endana og það þarf að næra það annars verður það ónýtt."
Mér varð hugsað til rándýru djúpnæringarinnar sem ég átti heima, hana keypti ég fyrir ári síðan eftir svipaðan fyrirlestur Önnu minnar, en hafði sáralítið notað. Það verður víst að nota þessa hluti, þeir virka ekki meðan þeir sitja inni í skáp. Ég lofaði Önnu minni bót og betrun og við náðum að sættast í bili. Eins gott, ég kann svo vel við Önnu og hún náði að redda þessum slitnu hárendum, enn eina ferðina.
Þessi ferð mín á hárgreiðslustofuna var bara upphafið að vandræðalegustu viku lífs míns, vikunni sem ég hafði ákveðið að nýta í allsherjar yfirhalningu, svona til að undirbúa vorkomuna. Þú veist, verða svoldið sæt fyrir sumarið. Hárgreiðslustofan var bara mitt fyrsta stopp.
Næst lá leið mín á snyrtistofuna þar sem ég ætlaði í húðdekur sem minn ástkæri eiginmaður gaf mér í jólagjöf. Ég bar mig greinilega klaufalega að því snyrtifræðingurinn spurði mig strax: "Ert þú ekki vön að koma í svona?". Ööö, nei.
Að hennar sögn þurfti hún að skafa eitthvað framan úr mér. Sagði að ég þyrfti að nota kornamaska reglulega til að komast hjá svoleiðis aðgerðum í framtíðinni.
Ég brosti bara og kinkaði kolli. Kornamaskinn minn stóð mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Inni í skáp, við hliðina á djúpnæringunni þar sem ég man aldrei eftir að nota hann. Frábært...
Þríleik þessum lauk með heimsókn til tannfræðings. Hún var voðalega notaleg af tannfræðingi að vera, hreinsaði og skrúbbaði og tók myndir. En svona til að fullkomna vandræðaþrennuna sagði hún mig vera með "brúna bletti" á milli nánast allra tannanna. "Notarðu ekki tannþráð?" spurði hún mig furðu lostin. Ég sagðist eiga tannþráð. Sem ég og geri. Þrjá pakka, inni í skáp, við hliðina á djúpnæringunni og kornamaskanum.
Nú eru liðnar þrjár vikur síðan vandræðavikunni lauk og ég er mikið búin að næra, skrúbba og þræða síðan þá. Svo mikið að ég held að ég sé alveg að verða tilbúin fyrir vorkomuna. Þú veist, orðin svoldið sæt fyrir sumarið. Enda ekki seinna vænna, sumarið var nefnilega að detta í hús í dag.
Ég og vinurinn grófum upp matjurtagarðinn ísólinni í dag. Yndislegt! |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli