laugardagur, 31. ágúst 2013

Sólarmegin

Alltaf sólarmegin. Það er þema síðustu mánaða og verður áfram út í hið óendanlega.

Þessa helgi höfum við verið í bústað við Hreðavatn með góðum vinum og áttum alveg eins von á hræðilegu veðri, enda kröpp lægð að ganga yfir landið.  En aldeilis ekki, hér hefur verið dásamlegt veður, sólskin og hlýtt, þótt aðeins hafi blásið af vestri.  Ég sofnaði jafnvel í sólbaðinu áðan og er smá rjóð í kinnum eftir það svo og göngu- og pottaferðir dagsins. Svo fundum við 5 berjategundir i dag: bláber, aðalbláber, krækiber, hrútaber, og villt jarðaber. Allt hérna í seilingarfjarlægð frá bústaðnum!

Lífið er yndislegt!

þriðjudagur, 27. ágúst 2013

Síðasti dagur sumars?Haustverkin eru hafin hér á E9. Ég hef ákveðið að hætta að hatast við haustið og taka því fagnandi. Því fylgja ótal margir kostir sem ég ætla að njóta. T.d. er hægt að búa til rabbabara-chilli-sultu við kertaljós í rökkrinu. Hljómar undurvel!

sunnudagur, 25. ágúst 2013

Hálft maraþon - Check!Það held ég nú!

Maður er stöðugt að klára einhver verkefni. Hverju sinni er alltaf eitthvað fyrirliggjandi sem á hug minn allan, og svo þegar það er afstaðið þá tekur næsta verkefni við. Nema náttúrulega þegar ég er að djöflast í öllu í einu, eins og ég geri alltof oft. Síðustu misserin er ég orðin mun betri í að taka ekki of mikið að mér í einu og hef líka slakað á mínum eigin kröfum um fullkomnun. T.d. þá hljóp ég hálft maraþon í gær og hafði hugsað mér að bæta tímann frá því í fyrra. Hlaupið fór þó ekki þannig og ég var mínútu lengur en í fyrra. Samt er ég mjög ánægð og stolt af mér, því ég hélt allt hlaupið út þrátt fyrir verki í hnjám og risa blöðrur á il og tám. Svo kláraði ég þetta hlaup jú á undir tveimur tímum, fannst gaman að hlaupa og naut mín í botn allan tímann.

Gamla Bogga hefði brjálast yfir því að hafa ekki bætt tímann sinn frá því í fyrra og sannfært sig um að hún væri alger aumingi. Hún hefði jafnvel lagt hlaupaskóna á hilluna því árangurinn var ekki nógu góður. Nýja Bogga er kæruleysið uppmálað og gerir auðvitað ekkert svoleiðis. Hún ætlar að halda áfram að hlaupa af því það er gaman og það gerir henni gott. Bara um leið og blöðrurnar gróa og hnjáverkir linast :)

Síðan er það næsta verkefni: Háskólanám í vetur!

En áður en af því getur orðið þarf ég að gera viðmiklar breytingar hér innanhúss, því ég mun ekki eyða öðrum vetri með tölvuna á eldhúsborðinu eins og aukahlutur á eigin heimili, sú eina hér innanhúss (fyrir utan Neró) sem ekki á skrifborð. Það er því loksins komið að því að innrétta skrifstofuna mína :) Myndir verða birtar síðar!

miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Brúðkaupsafmæli

Í dag eru 16 ár síðan ég fann kærastann minn. Þessi mynd var tekin í útskriftinni minni úr Kvennó vorið 1998 í garðinum hjá Möggu móðu á Hávallagötunni:
Og í dag eru líka 6 ár síðan þessi brúðkaupsmynd var tekin að lokinni virðulegri háleynilegri athöfn hjá sýslumanninum á Akranesi:

Þriðja myndin var tekin í Ásbyrgi um daginn:
Ýmislegt hefur breyst á þessum árum, aðallega háralitur og hárvöxtur eins og sést svo greinilega, en einnig alls konar þroski sem við höfum tekið út í sameiningu á þessum 16 árum. Ég er ó svo þakklát fyrir að hafa fundið hann Tóta minn þarna um árið því án hans veit ég ekki hvar ég væri. Hann er kletturinn minn og minn dyggasti aðdáandi sem styður alla þá vitleysu sem mér dettur í hug. Hefði hans ekki notið við, sérstaklega síðasta árið, væri ég varla svona ótrúlega hamingjusöm, sátt og ánægð með lífið og tilveruna eins og ég í dag. Og svo er hann líka svo sætur og fyndinn gaur með risastórt hjarta :)

Ég elska þig +Þórarinn Jónsson

þriðjudagur, 13. ágúst 2013

Úr garðinum

Þær eru kannski ekki alveg eins stórar og frænkur þeirra í grænmetisborðinu í Bónus, en við skósveinar mínir ræktuðum þær sjálf og munum saxa þær út í kjúklingasúpuna í kvöld.  Namminamm!

mánudagur, 12. ágúst 2013

Björgvin eldar

Pylsumúmíur, kartöflusalat og osta-halapeños. Björgvin mætti alveg elda oftar ♥

laugardagur, 10. ágúst 2013

Gay Pride 2013

Í dag áttum við yndislegan fjölskyldudag, fórum í höfuðborgina og fylgdumst með Gleðigöngunni fara hjá. Þetta er í fyrsta sinn sem ég mæti á Gay Pride, hef alltaf verið upptekin við eitthvað annað. En þar sem við fórum ekki í útilegu þessa helgina (eiginlega fyrsta heila helgi sumarsins sem við erum heima!) skelltum við okkur. 

Ég var ekki alveg viss um á hverju ég ætti von, hvort þetta væri bara hópur af leðurhommum sveiflandi dildóum eins og lýsingarnar voru á göngunni fyrir nokkrum árum. En það var nú aldeilis ekki, atriðin voru hvert öðru glæsilegra, bæði litrík og dillandi en líka beinskeytt og rammpólítísk, því réttindabarátta ekki bara gleði og glimmer. Mikið var deilt á Rússland og önnur ríki þar sem mannréttindi eru virt að vettugi. Ég fékk gæsahúð nokkrum sinnum og eftir daginn finnst mér ég hreinlega vera betri manneskja, alla vega ríkari :)

Ég tók smá videó af göngunni, eins og sjá má hér:
laugardagur, 3. ágúst 2013

Varðeldur um Versló

Enn erum  við á ferðalagi. Við fórum nú ekki langt í þetta sinn,  enda þarf oft bara að fara stutt til að finna það sem maður leitar að. Vinir, fjölskylda, varðeldur í fjörunni og fallegt sólarlag, hvað er hægt að hafa það betra.