sunnudagur, 25. ágúst 2013

Hálft maraþon - Check!



Það held ég nú!

Maður er stöðugt að klára einhver verkefni. Hverju sinni er alltaf eitthvað fyrirliggjandi sem á hug minn allan, og svo þegar það er afstaðið þá tekur næsta verkefni við. Nema náttúrulega þegar ég er að djöflast í öllu í einu, eins og ég geri alltof oft. Síðustu misserin er ég orðin mun betri í að taka ekki of mikið að mér í einu og hef líka slakað á mínum eigin kröfum um fullkomnun. T.d. þá hljóp ég hálft maraþon í gær og hafði hugsað mér að bæta tímann frá því í fyrra. Hlaupið fór þó ekki þannig og ég var mínútu lengur en í fyrra. Samt er ég mjög ánægð og stolt af mér, því ég hélt allt hlaupið út þrátt fyrir verki í hnjám og risa blöðrur á il og tám. Svo kláraði ég þetta hlaup jú á undir tveimur tímum, fannst gaman að hlaupa og naut mín í botn allan tímann.

Gamla Bogga hefði brjálast yfir því að hafa ekki bætt tímann sinn frá því í fyrra og sannfært sig um að hún væri alger aumingi. Hún hefði jafnvel lagt hlaupaskóna á hilluna því árangurinn var ekki nógu góður. Nýja Bogga er kæruleysið uppmálað og gerir auðvitað ekkert svoleiðis. Hún ætlar að halda áfram að hlaupa af því það er gaman og það gerir henni gott. Bara um leið og blöðrurnar gróa og hnjáverkir linast :)

Síðan er það næsta verkefni: Háskólanám í vetur!

En áður en af því getur orðið þarf ég að gera viðmiklar breytingar hér innanhúss, því ég mun ekki eyða öðrum vetri með tölvuna á eldhúsborðinu eins og aukahlutur á eigin heimili, sú eina hér innanhúss (fyrir utan Neró) sem ekki á skrifborð. Það er því loksins komið að því að innrétta skrifstofuna mína :) Myndir verða birtar síðar!

Engin ummæli: