fimmtudagur, 28. mars 2013

Mise en place

Ég hef verið að velta fyrir mér smávægilegum breytingum hér innanhúss. Það sem ég þarf (auðvitað er margt sem mig vantar, en þetta er bara það sem ég er að velta fyrir mér núna!) er svæði þar sem ég get dreift úr mér um nokkurt skeið, jafnvel í nokkra mánuði, án þess að aðrir heimilsmeðlimir eða gestir þeirra séu að hnýsast þar eða færa allt úr skorðum. Mig vantar eiginlega smávegis skrifstofuskonsu eða jafnvel bara skrifsborðshorn sem ég gæti kallað mitt og átt í friði.

Það er útaf dálitlu sem er í raun mitt helsta áhugamál og hefur átt hug minn allan um langa hríð án þess að ég hafi farið um það mörgum orðum hér eða nokkurs staðar. Mig hefur oft langað að koma út úr skápnum með þennan áhuga, en aldrei gert það. Aldrei fundist það tímabært eða öruggt að nokkuð verði úr þessu. En núna fer að verða tímabært að gera eitthvað í þessu. Til þess að af því geti orðið vantar mig bara mitt "Mise en place".

Einhverra hluta vegna hefur það æxlast þannig hér inni á heimilinu að þegar ég er í tölvunni minni sit ég alltaf við eldhúsborðið. Þannig kláraði ég bæði BA-námið og kennsluréttindin, sat við eldhúsborðið með tölvuna og skrifaði og skrifaði. Og þurfti að taka til fyrir hverja máltíð sem borða skyldi af þessu borði. Þreytandi, mjög þreytandi. Þegar verkefnin voru virkilega þung og erfið færði mig stundum yfir á borðstofuborðið, en þar getur maður nú ekki verið endalaust með draslið sitt, reglulega þurfti ég að pakka mínu saman og færa mig.

Framundan er verkefni sem krefst þess að ég geti komið mér fyrir til langs tíma án þess að þurfa að færa mig, haft öll mín verkfæri á sínum stað, dreift úr mér, gengið að mínu vísu, fengið að vera í friði. Það er of langt í að börnin mín flytji að heiman til að ég geti beðið eftir herbergjunum þeirra! Þarf að finna út úr þessu fljótlega, verkefnið er nefnilega aðkallandi. Meira um það síðar!

1 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Ú, hljomar ekkert smá spennandi!

kv. Kristin