laugardagur, 16. mars 2013

Vorið er komið!

Ég tel vorið vera á næsta leiti og hef fyrir því þrjár óhrekjanlegar sannanir í myndaformi. Fyrstu myndina tók ég fyrir rúmum tveimur vikum síðan, glæsitoppurinn minn er farinn að bruma. Reyndar kom smá hret í um vikutíma eftir að myndin var tekin, en það hefur ekki komið að sök. Rabbabarinn er líka farinn að roðna og vallhumallinn í óræktinni fyrir aftan hús stingur sér grænn upp úr sinunni. Það er að koma vor!












Árstíðamynd dagsins ber það líka með sér að vorið er á næsta leiti. Hún er tekin um tíu-leytið í morgun, sólin skein og himinninn var heiður og tær. Á tjaldsvæðinu gistu fjórir húsbílar í nótt. Núna seinnipartinn eru þeir orðnir átta og enn að fjölga. Það er að koma vor!
Varðandi myndaflokkinn minn "árstíðamyndir", þá eru það myndir sem ég hef verið að taka út um eldhúsgluggann minn öðru hverju í tvö ár. Alltaf sama sjónarhornið en síbreytilegt myndefni. Meira um það þegar ég er búin að vinna úr því.




Og hér er þriðja sönnun þess að vorið er á næsta leiti. Við sáðum fyrir tómötum, paprikum, chilli, kúrbít, gúrkum, basil, sólblómum og blómkáli í dag. Allt komið í mold, undir plast og út í sólríka stofuglugga þar sem fræin bíða þess að spíra. Það er að koma vor!
Reyndar ætlaði ég að setja niður fleiri kryddjurtir í dag, en á ekki góðan pott fyrir þær. Þess vegna kíkti ég í Blómaval áðan til að leita, en auðvitað var ekkert til þar. Þarf bara að fjárfesta í kryddjurtapotti í eldhúsið í næstu borgarferð :)

Engin ummæli: