sunnudagur, 17. mars 2013

Sunnudagur til sælu

Sólin og afi tefla.
Afi smíðaði þetta taflborð og taflmennina
 tálgaði hann þegar hann var unglingur.
Önnur dásamleg helgi að baki og spennandi vika framundan. Hvernig endar þetta eiginlega??

Þetta byrjaði samt ekki allof vel hjá mér í dag. Í morgun þegar ég var að skipta á rúminu sprakk dúnkoddinn minn nefnilega í höndunum á mér... bókstaflega. Dúnn út um allt og meira en það. Ég henti honum bara (nenni ekki svona sauma-saman-þar-til-ekkert-er-eftir-af-dún dæmi) og skutlaðist í bæinn til að kaupa nýja kodda. Tóti (sem var fjarri góðu gamni þar sem hann eyddi deginum á sjó með karli föður sínum að gera gott mót) fékk auðvitað líka nýjan, læt hann ekkert vera með gamla druslu á meðan ég sökkvi mér ofan í nýreyttan dún í kvöld.

Þá nýtti ég auðvitað tækifærið og keypti pott undir kryddjurtir og verð að segja að ég gerði ansi góð kaup í BAUHAUS, fann nákvæmlega sömu potta og seldir eru í Blómaval, nema hvað þeir voru helmingi ódýrari. Auðvitað keypti ég tvo, nema hvað.

Svo sátum við hjá mömmu og pabba frameftir degi, fengum jólaköku og kaffi, grömsuðum í gömlum nótum (tónlistar...ekki bókhalds...),spiluðum á gamla góða píanóið og Sólin vélaði afa sinn í tafl! Já, tafl. Afi vann, en naumlega þó! Ragnheiður kom líka og það var alveg yndislegt að vera þarna saman.

Þegar heim var komið skutluðum við krakkarnir okkur á línuskauta og tókum smá skrens á "Fjöló", sem er víst lyngið nú til dags þegar kemur að því að minnast á Fjölbrautarskólalóðina. Það þykir víst allt of langt og óþjált nafn á fyrirbærið!

Mikið svakalega fer ég sátt og sæl að sofa. Á nýja koddanum mínum. Með hreint á rúminu og viðraðar sængur. Hvernig getur þetta orðið betra?

Ást og út!

Engin ummæli: