laugardagur, 30. mars 2013

Melabakkar og Sjávarfoss

Við áttum svo ótrúlega skemmtilegan dag í dag, vorum aðallega úti í góða veðrinu að sjá og skoða eitthvað nýtt og nutum þessa fallega dags saman. Dagurinn var tekinn frekar snemma, við keyrðum hring um Melasveitina (sem ég hef aldrei gert áður) og sáum ummerkin eftir sinueldana sem loguðu í vikunni sem leið. Við komumst niður í fjöru hjá svínabúinu og gengum undir Melabakkana, kannski ekki rétta leiðin því við þurftum að ganga dágóðan spotta, en samt mjög falleg gönguleið þar sem margt var að skoða.Við fundum meðal annars dauðan sel (frekar óhuggulegt) og beinagrind af hval, prófuðum að brjóta sandsteininn sem er svo laus í sér að maður getur mulið hann með fingrunum.Við tókum fullt af myndum (aðallega Tóti samt, hann dregst iðulega afturúr með farangurinn sinn og þrífótinn, hehehe!).
Það er ekkert sem jafnast á við það að vera með fólkinu sínu úti í náttúrunni og ferska loftinu. Og allt þetta fengum við að upplifa í dag. Djók, það var verið að bera skít á túnin og dauði selurinn hefur verið steindauður dögum saman því stækjan af honum yfirgnæfði næstum því skítalyktina. Það fer ekki á milli mála að ég er Made-in-sveitin :)

 Og eins og Melabakkarnir hefðu ekki verið nóg, þá bættum við úr betur og stoppuðum við Sjávarfoss; þar sem Langá á Mýrum rennur til sjávar. Ósinn var á að líta eins og Jökulsárlón, stíflaður af ís sem brakaði og brast í. Svei mér þá ef ég sá ekki borgarísjaka á reki þarna. Mjög tignarlegt að sjá. Tóti tók myndir og við vorum að ýta ísjökum út í á og fylgjast með þeim fara niður fossinn. Þessi ís verður svo farinn á næsta stórstraumi.

Eftir þetta mikla ferðalag var gott að komast inn í bústað hjá tengdó, ylja sér og borða grillmat. Á heimleiðinni komum við líka aðeins við í Sjávarholtinu hjá ömmu Ellu og afa Trausta og fengum kaffi og konfekt.
Og hér sitjum við hjónin, loksins komi heim og alveg dauðuppgefin eftir daginn. Krakkarnir löngu sofnaðir, þrátt fyrir stór orð um annað. Það er nefnilega páskadagur á morgun og ungarnir mínir voru hreinlega að springa úr spenningi. Ratleikurinn tilbúinn og allt klárt. Held ég fari bara snemma í háttinn líka. Verst að ég er aftur komin með hor í nös, kannski fullmikið af köldu lofti á þann sem er nýrisinn úr rekkju! Sjáum til :)
Gleðilega páska!


fimmtudagur, 28. mars 2013

Skírdagur


Mise en place

Ég hef verið að velta fyrir mér smávægilegum breytingum hér innanhúss. Það sem ég þarf (auðvitað er margt sem mig vantar, en þetta er bara það sem ég er að velta fyrir mér núna!) er svæði þar sem ég get dreift úr mér um nokkurt skeið, jafnvel í nokkra mánuði, án þess að aðrir heimilsmeðlimir eða gestir þeirra séu að hnýsast þar eða færa allt úr skorðum. Mig vantar eiginlega smávegis skrifstofuskonsu eða jafnvel bara skrifsborðshorn sem ég gæti kallað mitt og átt í friði.

Það er útaf dálitlu sem er í raun mitt helsta áhugamál og hefur átt hug minn allan um langa hríð án þess að ég hafi farið um það mörgum orðum hér eða nokkurs staðar. Mig hefur oft langað að koma út úr skápnum með þennan áhuga, en aldrei gert það. Aldrei fundist það tímabært eða öruggt að nokkuð verði úr þessu. En núna fer að verða tímabært að gera eitthvað í þessu. Til þess að af því geti orðið vantar mig bara mitt "Mise en place".

Einhverra hluta vegna hefur það æxlast þannig hér inni á heimilinu að þegar ég er í tölvunni minni sit ég alltaf við eldhúsborðið. Þannig kláraði ég bæði BA-námið og kennsluréttindin, sat við eldhúsborðið með tölvuna og skrifaði og skrifaði. Og þurfti að taka til fyrir hverja máltíð sem borða skyldi af þessu borði. Þreytandi, mjög þreytandi. Þegar verkefnin voru virkilega þung og erfið færði mig stundum yfir á borðstofuborðið, en þar getur maður nú ekki verið endalaust með draslið sitt, reglulega þurfti ég að pakka mínu saman og færa mig.

Framundan er verkefni sem krefst þess að ég geti komið mér fyrir til langs tíma án þess að þurfa að færa mig, haft öll mín verkfæri á sínum stað, dreift úr mér, gengið að mínu vísu, fengið að vera í friði. Það er of langt í að börnin mín flytji að heiman til að ég geti beðið eftir herbergjunum þeirra! Þarf að finna út úr þessu fljótlega, verkefnið er nefnilega aðkallandi. Meira um það síðar!

miðvikudagur, 27. mars 2013

This is your life


Atsjú!

Vinurinn fór í ljósmyndagöngutúr í sumarbústaðnum,
 mér fannst þessi ansi flott hjá honum.
Upp á síðkastið hefur mér verið tíðrætt um hversu fáránlega heilsuhraust manneskja ég er og hvernig mér verður varla misdægurt. Þetta segi ég hikstalaust við hvern sem er, án þess að banka við þrisvar sinnum og segja sjö-níu-þrettán.

Ég byrjaði að slappast í sumarbústaðnum á sunnudaginn, en þar höfðumst við fjölskyldan við um helgina, fengum gesti, marineruðum okkur í pottinum og höfðum það reglulega gott. Eða sko, fyrir utan þetta kvef sem helltist yfir mig þennan sunnudag semsagt! Þetta hefur farið smáversnandi eftir því sem líður á vikuna og ég dreif mig bara aðeins fyrr heim úr vinnunni í dag og er komin undir teppi í sófanum að kúra mig. Ætla að reyna að fá að vera í friði hérna eitthvað frameftir, sötra teið mitt og sinna netinu aðeins (ekki má vanrækja það), með það að markmiði að ná þessu úr mér fyrir páska. Þannig séð er ég komin í páskafrí því á morgun er skírdagur og framundan er fimm daga dásemdarfrí sem ég vona að ég geti notið sem best þrátt fyrir hor og hósta.

Oooo, ég er búin að hlakka svo til páska. Það er ekki bara súkkulaðið (þótt ég hlakki óneitanlega til að brjótast inn í ávölu dásemdina sem bíður mín frammi í búri...), páskafrí hefur mér yfirleitt fundist miklu betra frí en þetta ofmetna jólafrí sem oft er ekki neitt neitt. Stundum er jólafríið ekki nema bara rétt bláhelgin, en páskafrí er alltaf fimm dagar. Það eru ekki til neinir "launagreiðendapáskar" þegar vikudagarnir raðast þannig, páskafríið er óbreytanleg stærð sem alltaf er hægt að stóla á. Annað er það sem páskar hafa umfram jól, á páskum eru engin "páskaboð" eða aðrar skyldur sem krefjast þess að maður fari úr náttfötunum, páskar eru bara frí sem hægt er að nýta í nákvæmlega það sem manni sýnist.

Þannig að hér er ég, á náttfötunum, alveg tilbúin fyrir páskafríið :)

Verð í lokin að deila ansi fyndnum samræðum sem áttu sér stað í heita pottinum um helgina. Þessi yndislegu börn sem ég á eru ósköp snjöll og mikið að spekúlera daginn út og inn. Í pottinum voru þau að velta fyrir sér ýmsum atriðum varðandi rúmmál og þyngd, fylltu skálar og glös af vatni til að finna hvað vatnið er þungt, og þrýstu þeim svo fullum af lofti á kaf til að finna hvað loftið er þungt. Alls konar pælingar. Vinurinn er á kafi að dunda sér eitthvað, þegar hann kemur allt í einu upp úr kafinu flissandi og galar á systur sína að koma í kaf og sjá dálítið fyndið. Hún lætur ekki segja sér það tvisvar og kafar með honum og þau eru eitthvað upp við mig að baða út höndum. Mér leist nú ekki á blikuna þegar þau komu upp úr, skellihlægjandi: "Mamma, lærin á þér hristast ógeðslega mikið í kafi!". Litlu dýrin voru sem sagt að hlægja að lærunum á mömmu sinni sem í þeirra augum eru frekar skvapmikil og hristast eins á maginn á Hómer Simpson þegar það er öldugangur. Að þeirra sögn. Trúi þeim samt ekki :)

Þau hættu snarlega öllum öðrum eðlisfræðitilraunum nema þessari og héldu áfram að rannsaka hvar mamma þeirra hristist mest það sem eftir var þessarar pottsetu. Ég gafst að lokum upp á þeim og fór upp úr. Og fékk kvef í kjölfarið, pottþétt út af þessu!

sunnudagur, 17. mars 2013

Sunnudagur til sælu

Sólin og afi tefla.
Afi smíðaði þetta taflborð og taflmennina
 tálgaði hann þegar hann var unglingur.
Önnur dásamleg helgi að baki og spennandi vika framundan. Hvernig endar þetta eiginlega??

Þetta byrjaði samt ekki allof vel hjá mér í dag. Í morgun þegar ég var að skipta á rúminu sprakk dúnkoddinn minn nefnilega í höndunum á mér... bókstaflega. Dúnn út um allt og meira en það. Ég henti honum bara (nenni ekki svona sauma-saman-þar-til-ekkert-er-eftir-af-dún dæmi) og skutlaðist í bæinn til að kaupa nýja kodda. Tóti (sem var fjarri góðu gamni þar sem hann eyddi deginum á sjó með karli föður sínum að gera gott mót) fékk auðvitað líka nýjan, læt hann ekkert vera með gamla druslu á meðan ég sökkvi mér ofan í nýreyttan dún í kvöld.

Þá nýtti ég auðvitað tækifærið og keypti pott undir kryddjurtir og verð að segja að ég gerði ansi góð kaup í BAUHAUS, fann nákvæmlega sömu potta og seldir eru í Blómaval, nema hvað þeir voru helmingi ódýrari. Auðvitað keypti ég tvo, nema hvað.

Svo sátum við hjá mömmu og pabba frameftir degi, fengum jólaköku og kaffi, grömsuðum í gömlum nótum (tónlistar...ekki bókhalds...),spiluðum á gamla góða píanóið og Sólin vélaði afa sinn í tafl! Já, tafl. Afi vann, en naumlega þó! Ragnheiður kom líka og það var alveg yndislegt að vera þarna saman.

Þegar heim var komið skutluðum við krakkarnir okkur á línuskauta og tókum smá skrens á "Fjöló", sem er víst lyngið nú til dags þegar kemur að því að minnast á Fjölbrautarskólalóðina. Það þykir víst allt of langt og óþjált nafn á fyrirbærið!

Mikið svakalega fer ég sátt og sæl að sofa. Á nýja koddanum mínum. Með hreint á rúminu og viðraðar sængur. Hvernig getur þetta orðið betra?

Ást og út!

laugardagur, 16. mars 2013

Vorið er komið!

Ég tel vorið vera á næsta leiti og hef fyrir því þrjár óhrekjanlegar sannanir í myndaformi. Fyrstu myndina tók ég fyrir rúmum tveimur vikum síðan, glæsitoppurinn minn er farinn að bruma. Reyndar kom smá hret í um vikutíma eftir að myndin var tekin, en það hefur ekki komið að sök. Rabbabarinn er líka farinn að roðna og vallhumallinn í óræktinni fyrir aftan hús stingur sér grænn upp úr sinunni. Það er að koma vor!
Árstíðamynd dagsins ber það líka með sér að vorið er á næsta leiti. Hún er tekin um tíu-leytið í morgun, sólin skein og himinninn var heiður og tær. Á tjaldsvæðinu gistu fjórir húsbílar í nótt. Núna seinnipartinn eru þeir orðnir átta og enn að fjölga. Það er að koma vor!
Varðandi myndaflokkinn minn "árstíðamyndir", þá eru það myndir sem ég hef verið að taka út um eldhúsgluggann minn öðru hverju í tvö ár. Alltaf sama sjónarhornið en síbreytilegt myndefni. Meira um það þegar ég er búin að vinna úr því.
Og hér er þriðja sönnun þess að vorið er á næsta leiti. Við sáðum fyrir tómötum, paprikum, chilli, kúrbít, gúrkum, basil, sólblómum og blómkáli í dag. Allt komið í mold, undir plast og út í sólríka stofuglugga þar sem fræin bíða þess að spíra. Það er að koma vor!
Reyndar ætlaði ég að setja niður fleiri kryddjurtir í dag, en á ekki góðan pott fyrir þær. Þess vegna kíkti ég í Blómaval áðan til að leita, en auðvitað var ekkert til þar. Þarf bara að fjárfesta í kryddjurtapotti í eldhúsið í næstu borgarferð :)

fimmtudagur, 14. mars 2013

Grjónagrautur - hinn eini sanni

Ég hef heyrt því fleygt, af afar óábyrgum einstaklingum, að það sé einfalt og fljótlegt að búa til grjónagraut og að grjónagrautur sé eitthvað sem hægt er að vippa fram úr erminni á korteri.

Mistök. Mikil mistök.

Grjónagrautur er tilbúinn á 50 mínútum. Alls ekki styttri tíma en það og helst á hann að standa aðeins lengur.

Uppskriftin mín er upprunalega úr bláu bókinni okkar mömmu en þegar ég skrifaði hana niður á sínum tíma misfórst að fá upplýsingar um tímasetningar. Eftir að ég flutti að heiman borðaði ég því misheppnaðan grjónagraut um tíma, glæran kortersgraut með hörðum grjónum, þar til ég barmaði mér við mömmu og hún leiðrétti þessa meinlegu villu.

Misskilningurinn er fólginn í því að grjónagrautur er ekki soðin hrísgrjón með mjólk eins og ég hélt í fyrstu, heldur alveg sérstakur réttur sem þarf að leggja hjarta sitt og sálu við svo útkoman verði rétt.

Í grunninn held ég nú að flestir geri þetta rétt í upphafi og sjóði saman grjón og vatn (ef notaður er einn bolli hrísgrjón, tveir af vatni). Mér er fullkunnugt um að sumir nota mjólk á þessu stigi, en þá finnst mér grauturinn frekar hafa tilhneigingu til að brenna. Lokið á ekki að vera á pottinum. Þegar vatnið er gufað upp er nýmjólk bætt útí grjónin í smáskömmtum. Athugið að í síðustu setningu voru tvö afskaplega mikilvæg hugtök sem ber að hafa í hávegum: Nýmjólk og Smáskammtar. Það er ekki hægt að búa til grjónagraut með léttmjólk og reyndar nota ég 50/50 rjóma og mjólk þegar ég geri möndlugrautinn á aðfangadag, því það er djöðveikt gott. En í það minnsta nýmjólk, ekki fara neðar í fituprósentunni en það. Hitt hugtakið er álíka mikilvægt því það þýðir ekkert að gusa líter af mjólk útí grjónin í einu, það verður að hella mjólkinni í smáskömmtum og hræra vel á milli, gefa sér góðan tíma í þetta. Ekki hafa of háan hita, þetta á bara rétt að malla.

Hella og hræra, bíða, hræra. Hella og hræra, bíða, hræra. Þar til þykktin og magnið er orðið rétt, lækka þá hitann niður á minnsta straum og halda áfram að "hræra og bíða" þar til 50 mínútur eru liðnar. Kannski bæta við meiri mjólk ef hann verður of þykkur.

Ekki fara á Facebook og gleyma sér, á meðan grjónagrauturinn er á hellunni þarf að annast hann eins og ungabarn svo hann fái vaxið og dafnað. Grauturinn á að verða þykkur, mjúkur og rjómakenndur. Eins og búðingur. Salta hann með grófu salti í lokin, ausa í skálar og láta standa í nokkrar mínútur.

Leyfa hjartanu að ráða, leggja smá sál í þetta, þú færð það ríkulega launað.

Ást og út!

þriðjudagur, 12. mars 2013

Bókin okkar mömmu

Þegar ég var sirka 12 ára fékk ég þá flugu í höfuðið að móðir mín yrði ekki langlíf og henni myndi ekki endast ævin til að kenna mér allt sem hún kynni. Það er nú ekki huggulegt að rifja upp að svona hafi ég hugsað 12 ára gömul, en huggulegra finnst mér að hugsa til þess að ég er um fátt berdreymin og veit greinilega ekki lengra en nef mitt nær, því móðir mín er nú að nálgast sjötugt og er við hestaheilsu.

Alla vega, það sem ég hafði greinilega mestar áhyggjur af á þessum tíma, var að ég myndi aldrei læra að elda neitt. Mér fannst alltaf gaman að baka og fór þá eftir uppskriftunum hennar mömmu. Ég man líka eftir því að hafa að minnsta kosti einu sinni eldað læri þegar mamma þurfti að bregða sér af bæ og þá var það pabbi sem fjarstýrði eldamennskunni í gegnum NMT-símann þar sem hann var staddur í trillunni sinni úti á firði. Annars var það mamma sem sá alfarið um eldamennskuna, og mínar áhyggjur áttu rót sína í því að hún átti ekkert til niðurskrifað um þá rétti sem hún töfraði fram á matmálstímum.

Ég fór því að yfirheyra hana og skrifa niður það sem hún var að gera í eldhúsinu. Markvisst og skipulega (eins og mín er von og vísa...) safnaði ég saman í litla bláa bók leyndardómunum hennar og geymi enn. Bókin er orðin snjáð og blettótt, enda nota ég hana talsvert. Sumar uppskriftirnar kann ég utan að, eins og þessa ódauðlegu uppskrift hér:

Soðin ýsa:
Ýsa
3 tsk. gróft salt

Bara í síðasta mánuði eldaði ég kjöt í karrý og þurfti þá að fletta upp á tveimur uppskriftum í bláu bókinni: :

Soðið kjöt:
Kjöt
5-6 tsk. gr. salt
mallað

Karrýsósa:
Soðið af kjötinu síað
Hveiti-vatn hrist
1/2 tsk karrý

Í uppskriftunum koma stundum fyrir kúfaðar ausur af hveiti eða sykri... Þetta er vonlaus mælieining fyrir mig í dag, ég á ekki svona ausur! Þær tilheyrðu hveiti- og sykurboxunum hennar mömmu og eru þar væntanlega enn. Svo er annað sem þessi bók hefur að geyma. Ég klippti út litlar myndir og setti inn í hana hér og þar og ákvað að þegar fram liðu stundir og þessi bók fylltist smátt og smátt, myndu þessar myndir færa mér gleði þegar ég kæmi að þeim í bókinni. Það er einmitt ein mynd eftir í bókinni, hún bíður þess enn að ég klári að fylla síðurnar og komi að henni.

Mér þykir undurvænt um þessa bók og þótt ég kunni nú ekki allt sem mamma kann, þá hef ég á mínum fullorðinsárum getað bjargað mér með eitt og annað, þökk sé litlu bláu bókinni okkar mömmu.

mánudagur, 11. mars 2013

Matarblogg

Ég hef verið að skoða talnagögn á þessari síðu. Hún er kannski ekki víðlesin þessi elska, en þeir sem þó rekast hingað inn eiga að því er virðist sameiginlegt erindi: Uppskrifaleit!
Í alvöru, ég get alveg séð hvað var slegið inn í google þegar lesendum var vísað inn á þessa síðu og svo get ég líka séð hvaða færslur eru vinsælastar hverju sinni. Þetta er ALLT tengt mat. Færslur um hjartans málefni rykfalla og hverfa í gleymskunnar dá. Aldrei lesnar. Uppskriftir og myndir af mat fá alla athyglina og sumar færslur svo vel lesnar að þær eru orðnar snjáðar á hornunum.

Mig langar að taka það fram að ég tengi algjörlega við þetta, sjálfri finnst mér óhemju gaman að lesa mat og skoða mat og ímynda mér bragðið og lyktina. Hef reyndar stundum staðið mig að því að smjatta smávegis þegar ég les góðar uppskriftir. Þegar ég endurnýjaði tölvuna mína um daginn lagði ég aðeins fram eina kröfu: lyklaborðið verður að vera vatnsvarið (út af öllu slefinu skilurðu!).

Það er alveg dásamlegt að fylgjast með þróuninni hér á vefmiðlunum, síður um tísku, mat, hönnun og ýmsar ástríður af öðrum toga spretta upp og þeim fjölgar frá degi til dags. Þar sem svo fáir blogga um annað (takk Facebook!), þá inniheldur "uppáhalds"-mappan mín hér í vafranum núorðið mestmegnis matarblogg. Til dæmis eru Eldhússögur úr Kleifarselinu einstaklega vel heppnaðar sögur. Myndirnar eru vandaðar og textinn svo góður. Og uppskriftirnar maður, uppskriftirnar... Hef prófað nokkrar og mun prófa fleiri. Ljúfmeti og lekkerheit er önnur dásamleg síða, álíka góð, fallegar myndir, gott gums. GulurRauðurGrænn&salt er líka svakalega skemmtileg, meira gert úr myndunum og minna úr blogginu. Svo er auðvitað Eva Laufey með góða síðu sem ég skoða reglulega, snilldar myndir og uppskriftir með hæfilegum dash af væmni :)

Svona mætti lengi telja. En á þessari síðu eru tvær færslur sem hafa vinninginn þegar kemur að vinsældum. Það er Eggjakakan sem ég fékk í eftirminnilegri ferð í Skorradalinn (ekki mín uppskrift) og svo Rauðlaukssultan sem ég fann upphaflega á einhverri útlenskri síðu og breytti og endurbætti. Þessar tvær fá heimsóknir daglega. Frábært hjá þeim. Kannski ég skelli inn fleiri matarbloggum, hver veit :)

(Schííííí ég þarf að fara að hætta að enda allar setningar á broskalli! Þetta er orðinn þvílíkur Facebook-vani sem ég ætla að hrista af mér! Mun frekar enda allar setningar á upphrópunarmerki! Eða punkti, eins og fólk gerði hér á árum áður. (Og láta mér þá nægja einn...))

Hlaupamynd

Það er gott að pústa aðeins á brúnni yfir Heita lækinn og horfa yfir Miðvoginn. Þarna hefur maður nú nokkrum sinnum baðað sig. Svo hleypur maður bara til baka eldhress og kátur!

sunnudagur, 10. mars 2013

Geysir

Það er góð helgi að baki. Svo góð að ég er eiginlega of þreytt til að skrifa nokkuð :)

Ein af jólagjöfunum frá mér til Tóta var hótelgisting á Geysi, svona helgarferð fyrir okkur turtildúfurnar. Ína gaf Snorra það sama og núna um helgina innleystum við þessar jólagjafir, barnlaus og hamingjusöm á einum mesta túristastað landsins. Margir frasar eftir helgina. Til dæmis datt okkur í hug að leggja bílnum fyrir utan stórt hús sem stóð á: Hótel Geysir. Gengum allt í kringum húsið í leit að lobbýinu en fundum ekkert. Var svo vísað í vegasjoppuna þar sem tjekkað var inn og lobbý-konan færði okkur þær upplýsingar að: "engin herbergi hafa verið á hótelinu í 15 ár...". Við gistum sem sagt í smáhýsum, en ekki á hótelinu... af því það eru engin herbergi þar... fullkomlega eðlilegt.

Annars var þetta svakalega góð helgi, við fengum gott að borða, fórum í öskufulla hverasundlaug, mikið spjallað og hlegið og ófáar myndir teknar. Með smáhýsunum fylgdi vasaljós og við fórum í næturferð um hverasvæðið, rosalega stjörnubjart og norðurljósin dönsuðu um allt.
Við vorum komin heim um hádegisbil í dag og dagurinn var með notalegasta móti, tókum ísrúnt, sóttum Neró úr pössun, fórum í göngutúr og höfðum það regulega notalegt. Sólin tók fram trönurnar og framleiddi listaverk í blíðunni sem búin er að vera hér í dag, ég vann aðeins í Djúpinu sem óðum er að taka á sig mynd, Tóti þreif húsið og bílinn að utan eftir öskurok liðinnar viku og Vinurinn lærði meira um kvikmyndagerð með After Effects (sniiiiillingur!). Bara svona almennt stöff, eins og okkur á E9 er einum lagið!Það er yndislegt þetta líf, þetta líf. Ég hef frá svo mörgu að segja eftir viðburðaríkar vikur undanfarið og þarf að gefa mér tíma til að koma því á blað, eða jafnvel bara hingað inn.

Ást og út!föstudagur, 1. mars 2013

ÞorskastríðÉg var að átta mig á því að það er frekar langt síðan ég hætti að halda utan um gullkornin hjá gullmolunum mínum. Hér koma því tvö glæný gullkorn í boði Sólarinnar.

Við vorum tvær að versla í matinn í gær og erum að ganga framhjá morgunkorninu þegar hún stoppar og biður mig undurfallega að kaupa Lucky Charms handa sér. Við leyfum okkur nú sjaldan þess háttar sykurbruðl nema hvað krakkarnir kaupa þetta stundum þegar þau mega velja sér afmælismorgunmat, svo ég segi við hana: "Við kaupum svona næst þegar þú átt afmæli" (afmælið hennar er sko í október...).
Hún verður voða leið á svipinn og svarar mæðulega og í´fúlustu alvöru: "Það verður örugglega búið að banna þetta þá..."
Þetta fannst mér bráðsniðugt hjá henni, enda er sífellt verið að taka vörur úr sölu sem gerst hafa sekar um að innihalda of mikinn sykur. Við keyptum auðvitað einn pakka í gær, svona til öryggis :)

Svo var hitt að yfir föstudagspizzunni áðan segir Sólin allt í einu: Við erum að læra um eitt í skólanum og þetta er bara fyndnasta orð sem ég hef heyrt... Þorskastríð!!!
Svo hló hún þessi lifandis ósköp. Og við auðvitað með :)

Yndislegt þetta líf, þetta líf :)