Alla vega, það sem ég hafði greinilega mestar áhyggjur af á þessum tíma, var að ég myndi aldrei læra að elda neitt. Mér fannst alltaf gaman að baka og fór þá eftir uppskriftunum hennar mömmu. Ég man líka eftir því að hafa að minnsta kosti einu sinni eldað læri þegar mamma þurfti að bregða sér af bæ og þá var það pabbi sem fjarstýrði eldamennskunni í gegnum NMT-símann þar sem hann var staddur í trillunni sinni úti á firði. Annars var það mamma sem sá alfarið um eldamennskuna, og mínar áhyggjur áttu rót sína í því að hún átti ekkert til niðurskrifað um þá rétti sem hún töfraði fram á matmálstímum.
Ég fór því að yfirheyra hana og skrifa niður það sem hún var að gera í eldhúsinu. Markvisst og skipulega (eins og mín er von og vísa...) safnaði ég saman í litla bláa bók leyndardómunum hennar og geymi enn. Bókin er orðin snjáð og blettótt, enda nota ég hana talsvert. Sumar uppskriftirnar kann ég utan að, eins og þessa ódauðlegu uppskrift hér:
Soðin ýsa:
Ýsa
3 tsk. gróft salt
Bara í síðasta mánuði eldaði ég kjöt í karrý og þurfti þá að fletta upp á tveimur uppskriftum í bláu bókinni: :
Soðið kjöt:
Kjöt
5-6 tsk. gr. salt
mallað
Karrýsósa:
Soðið af kjötinu síað
Hveiti-vatn hrist
1/2 tsk karrý
Í uppskriftunum koma stundum fyrir kúfaðar ausur af hveiti eða sykri... Þetta er vonlaus mælieining fyrir mig í dag, ég á ekki svona ausur! Þær tilheyrðu hveiti- og sykurboxunum hennar mömmu og eru þar væntanlega enn. Svo er annað sem þessi bók hefur að geyma. Ég klippti út litlar myndir og setti inn í hana hér og þar og ákvað að þegar fram liðu stundir og þessi bók fylltist smátt og smátt, myndu þessar myndir færa mér gleði þegar ég kæmi að þeim í bókinni. Það er einmitt ein mynd eftir í bókinni, hún bíður þess enn að ég klári að fylla síðurnar og komi að henni.
Mér þykir undurvænt um þessa bók og þótt ég kunni nú ekki allt sem mamma kann, þá hef ég á mínum fullorðinsárum getað bjargað mér með eitt og annað, þökk sé litlu bláu bókinni okkar mömmu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli