sunnudagur, 27. september 2015

Einfaldara líf

Í ósköp smáum skrefum er ég þessi misserin að tileinka mér einfaldara líf. Hvert og eitt skref telst alls ekki afrek út af fyrir sig, þetta eru ósköp léttvægar breytingar sem einar og sér hafa lítið að segja. En eins og í mörgu öðru þá sést best þegar litið er um öxl hversu langt hefur verið farið.

Ferðalagið er nýhafið, en hefur nú þegar haft talsverð áhrif til hins betra. Mér líður hreinlega eins og fargi hafi verið af mér létt! Og stærstu áskoranirnar eru enn framundan, þetta verður eitthvað!

Mig langar dálítið að halda utan um þetta ferli hér á blogginu, svona fyrir sjálfa mig að fylgjast með þróuninni.

Nokkur skref sem ég hef tekið undanfarið:

 • Slökkt á tilkynningum frá Facebook í símanum
 • Er ekki með Facebook-glugga opinn þegar ég er í tölvunni
 • Vinn bara eitt verkefni í einu 
 • Stunda hugleiðslu
 • Horfi lítið á sjónvarp
 • Fylgist lítið með fréttum
 • Útbý matseðil fyrir vikuna
Skrefin eru örugglega fleiri, ég þarf að muna að punkta þau niður. Þegar ég byrjaði að skrifa þessa færslu hélt ég að ég væri ekki einu sinni byrjuð, en halló, þarna er fullt af skrefum sem ég hef þegar tekið og skipta mig afskaplega miklu máli!

Fyrir það fyrsta er Facebook sá allra versti tímaþjófur sem upp hefur verið og algerlega nauðsynlegt fyrir almenna vellíðan að kúpla sig algerlega út úr því samfélagi eins og hægt er. Það er samt ekki hægt að hætta þarna því þá missir maður gersamlega af öllu og er aldrei hafður með í neinu, ég hef prófað það og það gengur ekki upp. En það er hægt að vera með aðgang án þess að þurfa að flytja lögheimilið þangað inn og án þess að láta Facebook rjúfa friðinn stanslaust með endalausum tilkynningum í símann og á tölvuskjáinn. Galdurinn er að kíkja bara inn reglulega, en slökkva svo aftur.

Varðandi það að einbeita sér að einu verkefni í einu, þá hefur þetta verið vandamál hjá mér lengi. Ég á svo ótal mörg áhugamál og er stanslaust með einhver verkefni í gangi og í gegnum tíðina hef ég djöflast í þeim öllum í einu. Fyrirfram hélt ég að ef ég ætlaði að hætta því þá þýddi að ég gæti ekki lengur multitaskað. Ekki rétt. Þegar ég þarf að snúa mér að næsta verkefni þá hætti ég í verkefninu sem ég var í áður. Get svo bara hafist handa við það aftur síðar. Ekkert að því, alger snilld!

Ég hef oft reynt við hugleiðsluna, en hef ekki haft athyglina í lagi hingað til (örugglega að hugsa um öll verkefnin sem bíða mín!). Þá frétti ég af því að þetta væri alveg eins og með hlaupin, maður þarf að koma sér í form til að geta hugleitt af einhverju viti. Þannig að ég hófst handa með það fyrir augum, gerði bara lítið í einu og er alltaf að bæta mig í þessu. Ég náði í ansi flott app í símann fyrir þetta, það heitir Insight timer og reynist mér ótrúlega vel. Um daginn náði ég meira að segja að hugleiða í 20 mínútur án þess að sofna og allt, þetta er allt að koma.

Sjónvarp og fréttir duttu út á svipuðum tíma. Sjónvarpið horfi ég stundum á, ef það er eitthvað í því. ef það er ekkert í sjónvarpinu þá slekk ég. Varðadi fréttirnar þá getur það verið ótrúlega erfitt að búa í þessu neikvæða umhverfi sem hefur einkennt Ísland síðan kreppan skall á og ætla sér að vera jákvæður. Þess vegna hætti ég að fylgjast með fréttum og held svei mér þá að jákvæðnin hafi blossað upp strax! Ég segi ekki að ég sjái aldrei fréttir (sé þeim til dæmis einstöku sinnum deilt á Facebook...), en þær sem ég tek eftir eru jákvæðar og gagnlegar. Hinar fréttirnar mega eiga sig. Og ég á ekki við að ég hunsi fréttir af ástandinu í Sýrlandi eða flóttamannastraumnum í Evrópu. Ég les þær til gagns, ekki til að láta neikvæðnina draga mig inn í svarthol kommentakerfisins. Fleiri mættu taka það til sín sem eiga það.

Matseðillinn. Ó, elsku matseðillinn. Þetta skref er nú ekki að ganga fullkomlega upp, og ég hef reynt áður en mistekist. Þýðir það að ég eigi að gefast upp? Nei, nei, alls ekki. Matseðillinn gekk núna viðstöðulaust í fimm vikur og svo var óvart frí í síðustu viku. Núna þegar þessari færslu lýkur fer ég beinustu leið í að búa til matseðil fyrir næstu viku og held ótrauð áfram eins og ekkert hafi í skorist, vúhúú!

sunnudagur, 13. september 2015

Sunnudagur

Góður dagur að baki, og nóg eftir! Þrátt fyrir að afkvæmi mín séu að stíga fyrstu skref unglingsára sinna finnst þeim alltaf jafn gaman að skoða afkvæmi annarra dýrategunda og bara dýr yfirleitt eru mjög vinsæl hjá þeim. Við skelltum okkur því í Húsdýragarðinn í dag með góðum hópi úr fjölskyldunni. Þeim þótti leitt að ekki skuli vera opið í tækin yfir vetrartímann, en létu sér dýrin nægja í þessari ferð. 

Ungviðið dáist að ungviðinu
Selirnir vekja alltaf aðdáun. Afkvæmin mín rifja upp hvernig þau náðu eitt sinn
ekki að sjá upp fyrir glerið. Nú nær efri brún glersins þeim í mitti!

sunnudagur, 23. ágúst 2015

Sunnudagspjakk

Það er eitthvað svo unaðslega dásamlegt við það að róta í moldarbeði. Það er því undarlegt að ég hafi mig ekki oftar út í garð að potast í beðum, en þannig er þó í pottinn búið hér á bæ.

Í dag dreif ég mig þó út í garð. Rólegur sunnudagsmorgunn að baki, Tóti farinn af stað í vikutúr á hálendið og rigningarsuddi úti. Yndislegt að gleyma sér við pjakkið, hlusta á regnið falla á laufblöðin fyrir ofan mann og finna moldarlyktina. Maður er alveg endurnærður.

Og eitt er gott við að fara sjaldan út að reyta, það er að árangurinn er mjög sýnilegur! Hér er ég hálfnuð að reyta stórt trjábeð sem var allt á kafi í arfa (eins og sést neðst í vinstra horni):


Ég rétt skrapp inn til að fá mér kaffibolla, næst á dagskrá er að halda áfram að reyta út að horni og gera síðan klárt fyrir gítartímann. Já, ég hóf nám í gítarleik nýverið, það er saga síðari tíma :)

föstudagur, 17. júlí 2015

Básar

Þetta er nú meira dýrðarsumarið búið að vera hjá okkur, og fríið rétt hafið! Við erum núna stödd í Básum og held við séum ekkert á leiðinni heim. Ég gerði nefnilega svo góðan díl við landvörðinn, hehe :) Við erum búin að vera tvær nætur og þær kosta heilar 6.000. Árgjaldið í Útivist er 7.200 og þá má maður tjalda frítt. Þar sem undirrituð er hreint ágæt í reikningi, sótti hún einfaldlega um inngöngu hið snarasta. Umsóknin var samþykkt á staðnum og við verðum hér því eitthvað áfram :)

Hér erum við í Nauthúsagili, á leiðinni inn í Bása. Við ætlum að stoppa
þarna aftur á bakaleiðinni. Með sundföt!
Við erum búin að ganga mikið síðan við komum hingað. Í gær gengum við 11 kílómetra upp á Fimmvörðuháls (samkvæmt skiltinu, Endomondo segir 9 km...) til að berja augum þá Magna og Móða, gígana sem mynduðust í gosinu 2010. Þvílík upplifun! Þeir eru ennþá ylvolgir og brennisteinslyktin loðir enn við þá, svo manni fann sterklega fyrir því að vera staddur á virku eldfjallasvæði.
Hér fetum við Kattarhryggi, útsýnið stórbrotið á báða bóga... en
best að hafa augun bara á þröngu einstiginu framundan!
Uppi á Móða
Sigri hrósandi fjölskylda, krakkarnir eru hetjur dagsins að
draga okkur alla leið :)

Við vorum ofsalega þreytt þegar við komumst aftur til byggða, en stoltari en nokkru sinni fyrr og ótrúlega ánægð með þetta afrek. Ég veit ekki um marga 11 og 14 ára krakka sem án þess að kvarta sérstaklega mikið labba 22 kílómetra á fjöll (eða18 km samkvæmt Endomondo, svo öllu sé haldið til haga +Thorarinn Jonsson ).

Þegar heim var komið hvíldum við okkur vel og kældum þreytta fætur í læknum sem rennur rétt hjá lautinni okkar sem við tjölduðum í.
Hversu notalegt er að sitja á brúnni og kæla þreytta
fætur eftir frábæran göngudag!
Hversu yndislegt er eiginlega þetta líf?!
Dæs.
Yfir og út frá hamingjusömu konunni á hálendinu <3 div="">

sunnudagur, 5. júlí 2015

Kerling er komin til fjalla

Sumarfríið hófst núna um helgina  og það með stæl. Við lögðum í'ann í gær laugardag og skunduðum beinustu leið í Þjórsárver á ættarmót. Það var mjög gaman, matur, tónlist og dans fram á kvöld og síðan gítar og söngur við varðeld fram á nótt! Allt eins og það á að vera í Tunguætt :)
Þegar við náðum svo loks að vakna í dag pökkuðum við okkur saman og héldum í þynnra loftslag upp á hálendi og tjölduðum í Kerlingarfjöllum. Hingað hefur ekkert okkar komið áður, frekar kalt og aðeins hvasst hérna svo við ætlum snemma í háttinn og í göngu inn í Hveradali á morgun. Jafnvel maður taki sundfötin með sér, svei mér þá!

laugardagur, 27. júní 2015

Vikugram

Ég get verið dugleg að setja myndir inn á Instagram, svona leit síðasta vika út þar:
Ég keypti þessa bók í dag. Allir vitlausir í hana og ég skil það ósköp vel,
sjúklega gaman að gleyma sér í þessum garði :)

Við erum að passa Erró, hann vill vita hvar allir eru og af því hann
er svo lítill og sætur þá má hann sitja uppi í glugga. Krúttið.

Stundum fást ekki allir til að koma inn á kvöldin. Kvöld eitt í vikunni
varð þessi eftir úti á trampólínu með sæng og kodda.

Eftir hörkupúl í garðinum færðu grísirnir mér súkkulaðibúðing 
með rjóma, svo yndislega góð við mömmu sín alltaf hreint!

Frumraun í pallamálun. gekk bara ansi vel finnst mér. 
Það er ýmislegt sem grasekkjur fást við ;)

Þetta er smærri þrællinn á E9.

Ég var að klára að rista þessa í sundur *hrollur
Alltaf jafnerfið tilhugsun!

Þessi er orðinn ansi lunkinn við að mála.

Babycorn. Myndin utan á pakkanum var ekki af þessum
skrímslum, heldur af litlum sætum maísplöntum. Ómæ.

Þessi elska beið mín þegar ég kom heim úr vinnunni í vikunni.
Þessi börn, þessi börn!

Dásamlegt að geta teygt sig í ferskt krydd út í glugga!
Þetta knippi fór í marineringu fyrir grillkjöt, slúrp.

miðvikudagur, 17. júní 2015

Skandall

Júní hefur nú oft verið líflegur bloggmánuður hjá undirritaðri, en ekki í ár. Auðvitað gæti ég kennt um annríki og svoleiðis, eða þá ég gæti sagt frá því sem hefur átt hug minn allan síðasta mánuðinn... þori því varla en segi það samt. Á einum mánuði hef ég horft á fjórar seríur af Scandal, hvern einasta þátt! Það eru heilir 69 þættir og þar sem hver þáttur er um 40 mínútur er fljótlegt að komast að þeirri niðurstöðu að hér er um að ræða 2.760 mínútur eða 46 klukkustundir!
Olivia Pope er æði, svona þegar maður
kemst yfir varirnar og angistarsvipinn...
Svona eftir á að hyggja hefði verið hyggilegra að nýta þennan tíma betur og í eitthvað annað gáfulegra. Því maður er jú stöðugt að reyna að gera það sem er gáfulegt og skynsamlegt. En æ, stundum verður maður bara þreyttur á því og vill bara gera eitthvað jafn áreynslulaust og horfa á seríur, gleyma sér algerlega og njóta þess að vera heilalaus um stund... tja eða um 46 stundir í þessu tilfelli! Ég á það nefnilega til að hætta ekki fyrr en verkefni er lokið, og fyrir mér var þetta seríugláp mjög alvarlegt verkefni sem varð að ljúka :)

En alla vega, nú hef ég snúið aftur í heim hinna eðlilegu þar sem enginn svíkur, pyntar, myrðir, framhjáheldur eða notar leyndarmál sem gjaldmiðil. Úff, þetta verður erfið aðlögun!

Eitt af því sem beið skaða af þessu heilalausa tímabili var bókalestur, en aðeins ein bók lá í valnum eftir þennan mánuð (Kantata) svo ég þarf greinilega að taka mig á og keyra lestrarvélina í gang. Í morgun byrjaði ég á Bókaþjófnum eftir Markus Zusak, en svo vill til að þetta er fyrsta bókin eftir karlhöfund sem ég hef lesið í marga mánuði! Já, alveg ómeðvitað eru síðustu 13 bækur sem ég hef lesið eftir kvenhöfunda, þær hafa einhverra hluta vegna frekar kallað til mín þegar ég rölti um bókasafnið í lestrarleit.

Hjá þessari konu, sko mér, fylgir auknum lestri alltaf aukin skriftarþörf, svo væntanlega eru fleiri færslur í fæðingu (bara búin að glósa hjá mér þrjár hugmyndir að færslum á meðan ég skrifa þetta...). Að horfa á sjónvarp drepur einhvern veginn hverja einustu skapandi taug í mér, þótt auðvitað sé stundum gott að kúpla sig út. Þannig að nú tekur við tímabil sjónvarpsfráhalds og sköpunargleði. Í það minnsta þar til 24. september, en þá herma fréttir að fimmta serían af Scandal komi í sýningu!

mánudagur, 18. maí 2015

Sólarkveðja

Sólin gerir allt svo fallegt :)
Við fjölskyldan erum í fríi þessa dagana,  og sleikjum sólina á meginlandi Evrópu. Sett inn fréttir þegar netsamband tollir.

sunnudagur, 10. maí 2015

Gleði og sorg á E9

Það er komið að því að setja nokkur orð í glugga. Undanfarinn mánuður hefur verið sérlega annasamur og falið í sér ómælda hamingju og djúpa sorg, mikið álag á köflum en notalegan frið inni á milli. Ég held þessi mánuður fari langt með að toppa flest annað.

Fyrst ber að nefna ferminguna hans Björgvins. Hún gekk eins og í sögu, mikil gleði og hamingja á þeim degi eftir að allt skipulagið í kringum þann viðburð gekk upp og allt fór eins og það átti að fara. Og það þrátt fyrir tilraunir húsbandsins til að eyðileggja það með framkvæmdum rétt fyrir fermingu! Jú, hann þurfti að setja innihurðirnar, sem beðið hafa innpakkaðar inni í bílskúr í nokkur ár, á sinn stað á þessum tímapunkti. En allt gekk upp að lokum. Sem betur fer. Hans vegna.

Tóta finnst SVONA gaman að skipta um innihurðir!

Björgvin barn bíður þess að fullorðnast
Þá knúði sorgin dyra. Við vissum alveg að þessi dagur nálgaðist, því fyrir jól varð Neró okkar veikur. Hann hóstaði stöðugt og varð voðalega skrýtinn allur, úr annarri nösinni rann hor og úr auganu á sömu hlið runnu stanslausar stírur. Hann fór margsinnis til dýralæknis og eftir myndatökur varð niðurstaðan var sú að hann var með æxli í höfðinu sem fór stækkandi. Nokkrar tennur voru teknar í desember, þær létu undan þrýstingi frá æxlinu sjálfsagt. Og svo bara versnaði honum greyinu, horið og stírurnar urðu blóðlitaðar og hóstinn ágerðist. Við fengum alls konar lyf fyrir hann. Sýklalyf, lyf gegn bakflæði, bólgueyðandi, þvagræsandi, verkjastillandi. En allt kom fyrir ekki og í mars var hann orðinn svo slæmur að hann þurfti stanslaust að vera á verkjalyfjum. Annars fékk hann störuköst, varð sloj og svaf allan daginn.


 Þar sem við gátum ekki hugsað okkur að vakna kannski eina nóttina við vælið í honum þegar æxlið þrýsti sér lengra inn í höfuðið á honum, eða eitthvað slíkt, þá þurftum við að taka þá óþolandi ákvörðun að leyfa honum að deyja.
Síðasta myndin sem ég tók af Neró mínum
Krakkarnir höfðu vitneskju um stöðuna allan tímann, og ég er viss um að það deyfði höggið aðeins. Við vissum öll sem var, að tími hans var á þrotum og gátum nýtt síðustu mánuðina með honum til hins ýtrasta. Hann dó 17. apríl, fjórum vikum fyrir 13 ára afmælið sitt og er jarðaður í garðinum hérna heima, svo við getum alltaf vitjað hans þegar við þurfum.

Það er óneitanlega skrýtið líf að vera svona hundlaus. Alveg ómögulegt líf ef satt skal segja. Ég sakna hans sárt, oft á dag, og gleymi því iðulega að hann sé farinn. Vakna á morgnana og ætla að hleypa honum inn, en enginn frammi og allt slökkt. Kem heim úr vinnunni og held í smástund að hann sé að koma og fagna mér, en allt hljótt og enginn 30 kílóa bangsi að koma spólandi á klónum eftir parketinu. Úff maður, þetta er sárt.

Ég er mjög stolt af krökkunum og hvernig þau standa sig í þessu erfiða ferli. Þau eru svo klár og þroskuð að ég er hreinlega agndofa yfir því hvernig þau vinna úr þessu. Og stolt, mjög stolt. Við erum öll betra fólk eftir að hafa fengið að hafa Neró þennan tíma og ó svo þakklát fyrir öll þessi ár með honum.

sunnudagur, 12. apríl 2015

Fermingardrengur

Minn yndislegi, heilsteypti, hugmyndaríki og hæfileikaríki Björgvin Þór fermdist í dag í hátíðlegri athöfn við lúðraþyt og allt. Takk allir sem hjálpuðu okkur að gera þennan dag svo eftirminnilegan, það er sannkallað ríkidæmi að eiga að slíka vini og fjölskyldufimmtudagur, 2. apríl 2015

Skírdagur

Nú stendur mikið til hér á E9. Krónprinsinn fermist eftir rúma viku og allt á suðupunkti. Í kollinum á mér alla vega!

Mr. T er bara slakur, en ansi liðtækur í þrifunum. Ryksugar allt hátt og lágt, þessi elska.
Ef um einhvern annan væri að ræða þá hefði ég áhyggjur. En þegar Mr. Tsegist ætla að vera búinn að þessu á sunnudaginn, þá trúi ég því og treysti. Við getum alla vega ekki boðið veislugestum upp á hurðalausa salernisaðstöðu, svo mikið er víst!

Að öðru leyti erum við róleg. Salíróleg.

mánudagur, 12. janúar 2015

Leifar jóla

Púff, hversu lengi geta jólin eiginlega leynst í skúffum og skápum heimilisins?

P.s. Nutella er hrikalega gott út á ís!

þriðjudagur, 6. janúar 2015

Kaldhefað

Orð dagsins er kaldhefað. Það held ég nú! Þá er að reyna að koma því fyrir í setningu:

Í gær hrærði ég saman í skál 500 gr fínu spelti, 50 gr heilhveiti, hnefa af sólblómafræjum, 1 tsk salti, 1 tsk þurrgeri, 500 ml af köldu vatni og 1 tsk af hunangi. Skálin eyddi nóttinni í ískápnum og ku deigið því vera kaldhefað. Í morgun sló ég deigið niður, skipti því í bollur á bökunarplötu, stráði sólblómafræjum yfir hverja og eina og bakaði við 220 °C í 20 mínútur. Í morgunsárið gæddum við krakkarnir okkur því á ylvolgum, kaldhefuðum rúnstykkjum með smjöri og osti. Fátt sem jafnast á við það þegar smjör bráðnar á ylvolgum bollum og lekur niður munnvikin, elskum það!

Sagan er enginn uppspuni og hér má sjá myndir því til sönnunar:
Þessi mynd er tekin að kvöldi 5. janúar 2015. Deig á leið í ískáp.

Þessi mynd er tekin árla morguns 6. janúar 2015. Bollur á leið í maga.
Annars er allt með kyrrum kjörum hér á bæ, Tóti lagði af stað í þriggja nátta túr í gærmorgun og við hin dundum okkur við að fá 8,5 út úr jólaprófum (tvær svoleiðis einkunnir komnar hjá mér, ein eftir), bollubakstur og slíkt á meðan. Og sjálfsagt jólaniðurrif, því í dag er þrettándinn og því vert að fara að huga að slíkum verkum. Ekki strax samt, ég er dauðþreytt eftir daginn. Hef sjálfsagt farið of snemma á fætur í morgun.

Í dag var fyrsti skóladagur eftir jólafrí hjá krökkunum eftir 17 daga jólafrí, hvorki meira né minna. Þau voru ekkert svo kríthvít eða mygluð þegar ég vakti þau í morgun. Nei, nei, alla vega ekki eftir að fregnir bárust af bollunum, þá ruku þau eldspræk á fætur. Því þetta telst víst til tíðinda, ekki aðeins að mamma þeirra hafi vaknað á undan þeim, heldur aldeilis búin að taka til hendinni!

Geisp, hvað ég er annars þreytt eftir daginn. Ætlaði að skrifa um áramótaáherslur og slíkt, en læt það bíða betri tíma því ég ætla að fleygja mér í sófann stundarkorn. Með bók kannski! 

Ljúfa líf sem þetta nú er :)
(Ath. Hér að ofan á að birtast broskall (emoticon). Blogger styður ekki svoleiðis skrípaleik, en ég er alltaf að læra meira um html. Með smá fikti birtist því núna þessi fyrsti broskall síðunnar, ómögulegt að skrifa texta án þess að hafa tækifæri til að setja inn broskalla!)

laugardagur, 3. janúar 2015

Svefnrof

Klukkan er hálftólf. Brakandi kalt og logn úti. Allir ennþá sofandi nema "árrisula" ég...
Spurning að vekja hina, reyna að rjúfa þennan stanslausa svefn sem hefur gripið okkur í jólafríinu?


föstudagur, 2. janúar 2015

Af bókum 2014

Þá er komið að stóra uppgjörinu, opinberun hins árlega bókhalds míns (meint kím). Lesnar bækur á árinu 2014 voru 18 talsins, eilítið fleiri en á árinu 2013 er ég las 13 bækur. Þannig að ég er sátt. Eins og áður inniheldur listinn aðeins yndislestur, skólabækur komast ekki á listann. Bækurnar eru þessar: 

 • Óreiða á striga e. Kristínu Marju Baldursdóttur
 • Stúlka með fingur e. Þórunni Valdimarsdóttur
 • Karitas án titils e. Kristínu Marju Baldursdóttur
 • Rigning í nóvember e. Auði Övu Ólafsdóttur
 • Undantekningin e. Auði Övu Ólafsdóttur.
 • Illska e. Eirík Örn Norðdahl
 • Auðnin e. Yrsu Sigurðardóttur
 • Upphækkuð jörð e. Auði Övu Ólafsdóttur
 • Dísusaga e. Vigdísi Grímsdóttur
 • Afleggjarinn e. Auði Övu Ólafsdóttur
 • Hvítfeld e. Kristínu Eiríksdóttur
 • Ljósa e. Kristínu Steinsdóttur
 • Fölsk nóta e. Ragnar Jónasson
 • Ég man þig e. Yrsu Sigurðardóttur
 • Dóttir beinagræðarans e. Amy Tan
 • Skuggasund e. Arnald Indriðason
 • Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf e.  Jonas Jonasson
 • Lygi e. Yrsu Sigurðardóttir

fimmtudagur, 1. janúar 2015

Árið - og allt það

 Þá hefur það runnið sitt skeið, árið 2014 með öllum sínum gæðum og gjöfum og ég óska lesendum gleði og gæfu á nýju ári og þakka samfylgdina á því liðna. Árið 2014 fór ósköp mildum höndum um okkur hér á E9, þrátt fyrir talsverðar sviptingar og aukið óöryggi, en ég myndi segja að við höfum tekið vel á því og allt stefnir í meiri formfestu á árinu 2015.

Tóti sagði upp vinnunni sinni í vor og fór að vinna sjálfstætt, keyrir ljósmyndara um landið okkar og sýnir þeim fegurðina sem í því býr. Enn sem komið er er þetta ekki fullt starf svo hann er líka að keyra fyrir aðra ferðaþjónustuaðila og að smíða, en þessi þrjú hlutastörf ganga samt ótrúlega vel og hann stendur sig frábærlega. Við þurftum að endurnýja bílaflota heimilisins út af þessu, seldum báða bílana og keyptum Patrol til fólksflutninga og núna rétt fyrir áramótin keyptum við líka lítinn gamlan Pusjó til að snattast á, enda ómögulegt að vera bíllaus þegar Tóti er í túr.

Sjálf hóf ég mastersnám í upplýsingafræði í haust og ætla að mjatla þá gráðu í rólegheitunum næstu árin, þetta á ansi vel við mig á alla kanta, bæði fyrir skipulagsfríkið með fullkomnunaráráttuna og grúskarann með sköpunargleðina.

Framundan eru merkilegt ár, því Vinurinn fermist þann 12. apríl og það er jú óneitanlega dálítið fullorðins að vera að fara að ferma (!) Svo ætlum við til Barcelona í vor og jafnvel eru fleiri utanlandsferðir á teikniborðinu svo þetta verður ævintýralegt ár.

Eins og venjulega ætla ég líka að vera dugleg að blogga reglulega, því þessi síða er ómetanleg heimild um líf okkar allra, sérstaklega fyrir mig sem kann að lesa milli línanna, hehehe :) Hér koma nokkrar myndir frá gærkvöldinu, sem við eyddum hér heima við sprengjugleði og glaum.

Sólin skemmti sér konunglega á gamlárskvöld
Systkinin með blys
Vinurinn er mikill áhugamaður um sprengjur og telur
gamlárskvöld vera skemmtilegasta kvöld ársins!
Spilað á nýársnótt