fimmtudagur, 25. júlí 2013

Fókus






Ég er alveg hreint steinhissa á þessari hreyfimynd. Hún á að sanna það að í rauninni sjáum við ósköp lítið, við styðjumst við minnið. Þarna er lítill kross í miðjunni og fjólubláir deplar sem hverfa á víxl. En ef maður horfir á litla krossinn nógu lengi án þess að hreyfa augun þá hverfa fjólubláu deplarnir alveg. Þetta virkar jafnvel þótt maður noti bara annað augað. Svo er nóg að hreyfa augað aðeins til og þá birtast deplarnir aftur.
Magnað!

Svona er ég stundum. Stari á vandamál/leiðindi/fortíðina og sé ekki það sem er í kringum mig í núinu. Þá er stundum nóg að taka ákvörðun. Hætta að einblína á vandamálin. Hætta að velta sér upp úr því sem maður getur ekki breytt og taka eftir því sem er að gerast í núinu. Um leið birtast endalaus tækifæri og möguleikar sem maður sá ekki áður. Yfirleitt er þetta nefnilega einfalt, ekki flókið, og núorðið er ég orðin rosalega góð í því að hafa það í huga.
Magnað!

miðvikudagur, 24. júlí 2013

Hreyfimynd dagsins

Ég að frétta að Tóti er búinn að ryksuga húsið og þrífa klósettið. Óumbeðinn. Ó boj!


Þessi misserin nota margir gif-hreyfimyndir til að tjá sig og auðvitað langaði mig að prófa það. Ekki svo mikið mál með VLC-spilaranum og Gimp. Eins og sést er ég rosa kát og hoppandi glöð á þessari mynd. En man einhver svo vel að vita hvað gladdi Moniku svona rosalega á sínum tíma?

þriðjudagur, 16. júlí 2013

Þriðjudagur

Frjósemin er að ná hámarki þessa dagana hér á E9. Við vorum í 20 vikna sónar í dag og það eru 12 paprikur og 18 chili á leiðinni eins og myndirnar hér að neðan bera með sér! Tóti er auðvitað hrikalega spenntur því eins og allir vita þá er hann brjálaður í paprikur. Og chili.




Annars er það helst í fréttum að yndislegu sumarfríi er nú lokið. Það er í góðu lagi því hversdagsleikinn tók mjúklega á móti mér í vinnunni í gær. Og áður en ég veit af þá er komið helgarfrí! Ég þarf að vinna aðeins betur í því að koma ekki heim úr vinnu klukkan fjögur og setjast við tölvuna eða í sófann því þá hverfur restin af deginum í tómið og ég veit ekkert hvað af honum varð. Ég hlýt að ná tökum á því fljótlega, þetta er nú bara dagur tvö :)

Hlaupaprógramið gengur vel, ég var reyndar einum of spennt á sunnudaginn og hljóp 11 kílómetra (var að hlusta á Tony Robbins og hann er svo hvetjandi að ég gat ekki hætt að hlaupa). Því til viðbótar fórum við Tóti á Háahnúk um kvöldmatarleytið þann sama dag, en þrátt fyrir fögur fyrirheit um tíðar ferðir á toppinn hef ég ekki farið á Hnúkinn síðan í janúar. Svo núna er ég með harðsperrur og gat varla klárað hlaup dagsins svo vel færi. Svo er það hálft maraþon eftir tæpar 6 vikur, í fyrra hljóp ég á 1:58, markmiðið núna er að vera ekki lengur en það! (Í fyrra var markmiðið að komast í mark, það náðist :) ). 

Annað var það ekki í bili. Það var komin heilmikil pressa á mig að setja inn færslu, en svona er það þegar maður hefur aðgang að FB. Ég fann fyrir breytingunni strax um mánaðarmótin þegar ég mátti logga mig inn á ný eftir mánaðarpásu, þá fann ég ekki eins mikla þörf fyrir að skrifa hérna inn. Mun reyna að bæta mig!

miðvikudagur, 10. júlí 2013

Sól úti, sól inni. Sól í hjarta, sól í sinni. Sól í sálu minni.

Ég er nú ansi hrædd um að þetta verði myndalaus færsla hjá mér í þetta sinn. Enn og aftur sit ég hér í fellihýsinu við naumlega skammtað wifi stuð frá gemsanum mínum og pára þetta á kjöltutölvuna mína. Stuðið nægir ekki til að senda mynd á veraldarvefinn! Mig langaði samt að smella inn einni yfirlýsingu um sumarfríið mitt.

Af mörgum er þetta sumar talið eitt það allra versta í manna minnum. Ég verð að vera ósammála. Steininn tók þó úr þegar ég í fór í gær í ónefnda verslun á Akranesi og verslunarstjórinn sem afgreiddi mig tók hábölvandi á móti mér:

-Andskotinn í heitasta og neðsta brennisteinsrjúkandi djöfulsins helvíti!!! [Kannski ekki orðrétt eftir henni haft, en efnislega það sama]
-Hvað, ertu svona hissa að sjá kúnna svona snemma dags á mánudegi?
-Já, líka það en það er helvítis prentarinn sem er bilaður eina ferðina enn!
-Æ, þeir geta nú verið leiðinlegir og erfitt að eiga við þá :)
-Já, og svo er það fjandans veðrið, þetta er alveg ömurlegt bara, hvernig er hægt að bjóða fólki upp á þetta!
-Æ, hvað heldurðu að maður látið það á sig fá :)
-Hvað er að þér, ég veit um fólk sem er að verða búið með allt sitt sumarfrí og er bara orðið þunglynt, hefur ekki séð sólarglætu í allt sumar!!
-Ööö, ég er nú að verða búin með mitt sumarfrí og er bara alveg hreint yfir mig sátt, búin að fá fullt af sól og svo er búið að vera hlýtt og notalegt bara :)
-Hvernig getur þú sagt þetta?? Skítt með það þótt við fáum þennan ógeðslega snjó yfir allt á veturna, en á sumrin á að vera sól. Þetta er bara ekki sanngjarnt!!!
-Reyndar var þetta nú bara alveg ágætur vetur líka, varla að það snjóaði á okkur. Svo er bara að koma sér af stað og finna sólina í sumarfríinu, ferðast dáldið um landið, þá finnst hún :)
-Nei, þetta er ömurlegt alveg hreint og svo niðurdrepandi að þurfa að hafa þetta svona, myrkur og sólarleysi dag eftir dag...

Ég held ég hafi eyðilagt daginn fyrir greyið konunni með jákvæðninni í mér, vonandi eyðilagði ég samt ekki sumarfríið fyrir henni líka. Þrátt fyrir að taka á móti kúnnum á þennan hátt (sem er alveg fyrir neðan allar hellur, hvað ef ég hefði verið tæp á tauginni eða eitthvað niðurdregin?), þá tókst þessari konu ekki að eyðileggja góða stemmarann hjá mér, þrátt fyrir ansi vandaða tilraun, og ég hélt af stað í enn eitt ferðalagið með bestu ferðafélögunum. Það þarf ekki að spyrja að því, það var sól og blíða hjá okkur í allan dag og við erum búin að una okkur vel hér í Norðurfirði á Ströndum.

Þetta sumar hefur kannski ekki verið sólríkt á Akranesi, en annars staðar á landinu hefur það verið mjög gott. Í sumarfríi er nú ekkert betra en að keyra þangað sem góða veðrið er og njóta þess þar, fyrr má nú aldeilis vera! Svo er ég búin að eiga marga góða daga heima við líka, alveg yndislega hlýja og milda sumardaga. Ég er alla vega yfir mig ánægð með mitt sumarfrí og finnst alveg óþarfi af geðstirðu afgreiðslufólki sem ekki er ennþá farið í sumarfrí að kvarta yfir því hversu ömurlegt allt sé í mínu fríi.

Þannig að yfirlýsingin er þessi: Sumarfríið mitt er það allra besta sem ég hef átt frá upphafi sumarfría!! Og á mánudaginn mun ég mæta þakklát, hress og kát (og tönuð í drasl) til vinnu og hvetja samstarfsfólk mitt til dáða í sínu fríi. Og greyið verslunarstjórann, ég vona að hún veslist ekki upp í myrkrinu sínu heldur fái eitthvað notið sín í sumar.

Ást og út!
Bogga

miðvikudagur, 3. júlí 2013

Bóluferðalagið 2013

Um daginn var ég að fara yfir myndir úr Hringferðinni okkar og var alvarlega að spá í að breyta heiti þessarar ferðar í Bóluferðalagið 2013. Hversu óheppinn þarf maður að vera til að fá það stóra bólu að hún endist í 9 daga hringferð og leiki aðalhlutverk á öllum myndum úr ferðalaginu? Eftir nokkur ár þegar við skoðum myndir af fjölskyldunni úr þessari ferð munum við aldrei rugla þeim saman við myndir úr neinu öðru ferðalagi: "æjá, þetta er tekið árið 2013 þegar mamma fékk stóru bóluna..."

Bólan gerði samt ýmislegt skemmtilegt í ferðalaginu sínu af myndunum að dæma. Bólan synti til dæmis í jökulsá og í Stjórninni. Hún fór út að borða, skoðaði ótal fossa eins og Goðafoss, Dettifoss og svo á ég eina ansi góða af henni hjá Aldeyjarfossi. Hún heimsótti lundabyggð og handverkshús, fór í sund, heita potta og náttúrulaugar, fór út að hlaupa og í göngutúra. Bólan horfði samtímis á sólarlag og sólarupprás og naut þess í botn, hún borðaði nesti úti í guðsgrænni náttúrunni, hitti álfa í Þakgili, faðmaði tré í Hallormsstað, gekk um í Ásbyrgi, lá í sólbaði, spilaði kubb og yatsí, gerði krossgátur og las bækur. 

Þetta lítur reyndar út fyrir að hafa verið ansi skemmtilegt hjá henni. Og mér. Ég sé mig alveg líka, en meðan á ferðalaginu stóð virtist þessi fjandans bóla taka yfir líf mitt. Svo hjaðnaði hún og núna sést hún varla. En eftir standa myndirnar af okkur vinkonunum að upplifa eitt og annað og myndirnar eru ómetanlegar. Þrátt fyrir bóluna. Mér finnst meira segja að hún hafi dofnað aðeins á öllum myndunum líka. Undarlegt...
Frá vinstri: Sólin, Bólan, Boggan, Vinurinn