Ég er nú ansi hrædd um að þetta verði myndalaus færsla hjá mér í þetta sinn. Enn og aftur sit ég hér í fellihýsinu við naumlega skammtað wifi stuð frá gemsanum mínum og pára þetta á kjöltutölvuna mína. Stuðið nægir ekki til að senda mynd á veraldarvefinn! Mig langaði samt að smella inn einni yfirlýsingu um sumarfríið mitt.
Af mörgum er þetta sumar talið eitt það allra versta í manna minnum. Ég verð að vera ósammála. Steininn tók þó úr þegar ég í fór í gær í ónefnda verslun á Akranesi og verslunarstjórinn sem afgreiddi mig tók hábölvandi á móti mér:
-Andskotinn í heitasta og neðsta brennisteinsrjúkandi djöfulsins helvíti!!! [Kannski ekki orðrétt eftir henni haft, en efnislega það sama]
-Hvað, ertu svona hissa að sjá kúnna svona snemma dags á mánudegi?
-Já, líka það en það er helvítis prentarinn sem er bilaður eina ferðina enn!
-Æ, þeir geta nú verið leiðinlegir og erfitt að eiga við þá :)
-Já, og svo er það fjandans veðrið, þetta er alveg ömurlegt bara, hvernig er hægt að bjóða fólki upp á þetta!
-Æ, hvað heldurðu að maður látið það á sig fá :)
-Hvað er að þér, ég veit um fólk sem er að verða búið með allt sitt sumarfrí og er bara orðið þunglynt, hefur ekki séð sólarglætu í allt sumar!!
-Ööö, ég er nú að verða búin með mitt sumarfrí og er bara alveg hreint yfir mig sátt, búin að fá fullt af sól og svo er búið að vera hlýtt og notalegt bara :)
-Hvernig getur þú sagt þetta?? Skítt með það þótt við fáum þennan ógeðslega snjó yfir allt á veturna, en á sumrin á að vera sól. Þetta er bara ekki sanngjarnt!!!
-Reyndar var þetta nú bara alveg ágætur vetur líka, varla að það snjóaði á okkur. Svo er bara að koma sér af stað og finna sólina í sumarfríinu, ferðast dáldið um landið, þá finnst hún :)
-Nei, þetta er ömurlegt alveg hreint og svo niðurdrepandi að þurfa að hafa þetta svona, myrkur og sólarleysi dag eftir dag...
Ég held ég hafi eyðilagt daginn fyrir greyið konunni með jákvæðninni í mér, vonandi eyðilagði ég samt ekki sumarfríið fyrir henni líka. Þrátt fyrir að taka á móti kúnnum á þennan hátt (sem er alveg fyrir neðan allar hellur, hvað ef ég hefði verið tæp á tauginni eða eitthvað niðurdregin?), þá tókst þessari konu ekki að eyðileggja góða stemmarann hjá mér, þrátt fyrir ansi vandaða tilraun, og ég hélt af stað í enn eitt ferðalagið með bestu ferðafélögunum. Það þarf ekki að spyrja að því, það var sól og blíða hjá okkur í allan dag og við erum búin að una okkur vel hér í Norðurfirði á Ströndum.
Þetta sumar hefur kannski ekki verið sólríkt á Akranesi, en annars staðar á landinu hefur það verið mjög gott. Í sumarfríi er nú ekkert betra en að keyra þangað sem góða veðrið er og njóta þess þar, fyrr má nú aldeilis vera! Svo er ég búin að eiga marga góða daga heima við líka, alveg yndislega hlýja og milda sumardaga. Ég er alla vega yfir mig ánægð með mitt sumarfrí og finnst alveg óþarfi af geðstirðu afgreiðslufólki sem ekki er ennþá farið í sumarfrí að kvarta yfir því hversu ömurlegt allt sé í mínu fríi.
Þannig að yfirlýsingin er þessi: Sumarfríið mitt er það allra besta sem ég hef átt frá upphafi sumarfría!! Og á mánudaginn mun ég mæta þakklát, hress og kát (og tönuð í drasl) til vinnu og hvetja samstarfsfólk mitt til dáða í sínu fríi. Og greyið verslunarstjórann, ég vona að hún veslist ekki upp í myrkrinu sínu heldur fái eitthvað notið sín í sumar.
Ást og út!
Bogga
Engin ummæli:
Skrifa ummæli