miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Barnalán

Það er stundum erfitt að átta sig á tilfinningum.
Maður er kannski viti sínu fjær, en ekki alveg viss hvort það er vegna óstjórnlegrar gleði, tilhlökkunar, kvíða eða hvað.

Ég veit alla vega að ég er viti mínu fjær.

Eins og er, þá held ég að tillhlökkun búi innra með mér því ég tel niður stundirnar þar til ég verð barnlaus á ný (21,5 eins og er). Ómæ ómæ, heil vika bara fyrir mig!!! Jú, jú, Tóti verður reyndar hérna líka því mamma hans vildi ekki hafa hann neitt með og ég skil hana ósköp vel. Neibb, þau sómahjónin tengdaforeldrar mínir ætla einungis að hirða af mér börnin og ferja þau til Danmerkur í viku.

Að hugsa sér, ég get vaknað á morgnana og þarf bara að hugsa um sjálfa mig! Ég get verið fyrst á klóið og þarf ekki að skeina tvo rassa áður en kemur að mér. Engin skapofsaköst morgunfúlra barna og rifrildi um fötin sem á að fara í (hei, ef það er ekki bleikt og ef það er ekki pils þá er það bara glatað!)

Ég get farið hvert sem ég vil eftir vinnu, í ræktina, göngutúr, fjallgöngu eða uppí sófa með bók og kertaljós.

Ef ég þarf að skreppa eitthvað, þá bara fer ég. Ekkert að athuga hvort einhver þurfi á klóið, hvort einhver sé svangur eða þyrstur, koma öllum í föt og troða þeim röflandi í bílinn.

Ég þarf ekkert að vera að elda, borða bara þegar ég er svöng. Og þegar ég er búin að borða get ég farið aftur upp sófa með bókina mína, ekkert fjöldabað, engin kvöldsaga, ekkert að sussa á óþekk kvikindi sem ekki vilja sofa.

Ég veit, hljómar eins og útópía hverrar úrvinda konu.

Eeeen, eins og ég sagði, það er stundum erfitt að átta sig á tilfinningum.

Ég hugsa nefnilega líka til þess að þurfa að sofa í sex nætur án þess að finna ylinn af litlum kroppum sitthvoru megin við mig, án þess að vera vakin með blíðri andfýlu í morgunsárið og mjúku hlýju knúsi í kjölfarið. Ég fæ ekki að fara inn til þeirra á kvöldin og horfa á þau sofa, strjúka þau og kyssa fyrir nóttina. Ég fæ ekki þessa stund sem við eyðum í mömmuholu eftir baðið með knúsi, kitli og innilegum hlátri sem hittir mig beint í hjartastað.

Og þegar ég hugsa um þetta lítur dæmið nú öðruvísi út.

Þau eru ekki enn farin (21,2!) en ég sem samt farin að telja niður dagana þar til þau koma heim.
Blogged with Flock

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Raunir aðþrengdrar eiginkonu

Ég er vön því að redda mér, gera bara hlutina sjálf.

Þess vegna dreif ég mig í drullugallann í síðustu viku þegar óhemju vond lykt gaus upp inni á baðherbergi. Grasekkjan ég var búin að útiloka óhreinatauskörfuna með því að taka hana út af baðinu, en fnykurinn hvarf ekki við það.


Þannig að ég fór niður á fjórar, með latexhanska á höndunum, plast undir mér og vasaljós í hönd. Reif sökkulinn af baðinnréttingunni og kafaði upp að olnbogum (ath. ath. vestfirskar ýkjur ) í niðurfall sem þar er staðsett. Þreifaði mig í gegnum bunka af hárhnyklum og grænan slímkenndan viðbjóð sem ég kann ekki nánari skýringar á. Hreinsaði vatnslásinn og skrúbbaði græna gumsið af yfirfallinu. Lyktin var slæm en ég var ánægð með útkomuna. Handviss um að hafa komist fyrir áframhaldandi fnyk gekk ég frá eftir mig og fór sátt í háttinn.

Næsta morgun var lyktin komin aftur, verri en nokkru sinni fyrr. Svona úldin skólpkennd fýla sem sveið nefið við hvern andardrátt. Ég var ákveðin í því að hætta ekki lífi mínu og limum frekar í þessu stríði og hafði bara lokað inn á bað og gluggann galopinn. Meðan þess var beðið að húsbóndi heimilisins sneri heim úr útlegð héldum við hin bara niðri í okkur andanum meðan tennur voru kraftburstaðar og allra nauðsynlegustu athöfnum sinnt þarna inni.

Svo birtist handlagni heimilsfaðirinn. Sá sem allt getur og kann.

Hann skundaði inn á bað.... (viðkvæmum er bent á að lesa ekki lengra...)

... og teygði hönd sína upp í gegnum loftadós sem staðsett er fyrir miðju baðherbergisloftinu. Hann rámaði nefnilega í að hafa sett músagildru þangað fyrir þónokkuð löngu síðan!!! Tvennt var greinilegt: gildran hafði skilað ágætis árangri og það fyrir lööööööngu síðan.

Ég sver það, mér sýndist drjúpa úr vel kæstu hræinu þegar hann hljóp með gildruna í gegnum húsið og út.

Ilmkertið fær að loga í nótt ef ég fæ að ráða.

Góða nótt kæra fólk, vonandi sofið þið rótt múhahahahaha!!!

laugardagur, 24. nóvember 2007

xmas craze

Ef ég kemst hjá því þá ætla ég ekki inn í eina einustu búð í Reykjavík fyrr en eftir jól.

Ég fór í dag, ein með krakkana, til borgar óttans... kaffilaus.
Hafði ekki nennt að hella uppá áður en ég fór af stað og gleymdi að kippa með mér bolla í Olís. Áhrif kaffileysisins komu fljótlega í ljós inni í miðri troðfullri RL-búð, með suðandi kvikindin í eftirdragi og lýstu sér með almennum pirringi og stingandi höfuðverk. Höfuðverkurinn fór ekki fyrr en að loknu brjálæðinu í Smáralind, geðveikinni í umferðinni og eftir stutt stopp á KFC. Þar sem ég var að renna úr umdæmi Mosó fann ég hvernig slaknaði á öllum vöðvum og höfuðverkurinn rann út í sandinn.

Ahhh, hvað það er gott að búa á Akranesi.

Þrátt fyrir líkamlegar og andlegar þjáningar tókst mér í dag að kaupa nokkrar jólagjafir og jólaföt á krakkana. Restina ætla ég að kaupa í heimabyggð, enda alger óþarfi að leggja á sig slíkar kvalræðisferðir þegar hægt er að klára dæmið hér.

Saumaði nýtt fyrir eldhúsgluggana þegar ég kom heim. Svona JólaJóla. Kemur bara vel út.

Það eru komin nokkur skammdegisljós upp hjá mér. Í stóra stofuglugganum er svona grýlukertasería (sem hefur hangið þarna síðan á síðustu jólum ehemm...) og þegar ég setti hana í samband í gær þá logaði á örfáum perum. Ég fór því og byrgði mig upp af aukaperum og upphófust miklar tilraunir til að komast að því hvaða perur væru sprungnar. Ef það er óþolandi þegar ein pera er sprunginn og maður þarf að skipta um þær allar til að komast að því hver sú sprungna er... þá vandast málið heldur betur þegar sprungnu perurnar eru fleiri. Ég var að verða vitlaus hérna í gær en þetta er næstum því komið. Bara þrjár "grýlukerta"lengjur sem ekki logar ennþá á. Þær bíða bara eftir Tóta.

Talandi um hann, hann er ekki enn kominn. Ég skelli bara í lás á miðnætti hahaha!
Jæja, farin að reyna að læra eitthvað, þetta gengur ekki lengur.
túrilú

föstudagur, 23. nóvember 2007

bojnk-voff

Þessa vikuna hef ég verið grasekkja.

Sú var tíðin að ég var oftast í því hlutverki með hléum þegar sjómaðurinn kom heim. Gott að það er búið. Nú er karlinn kominn í land.... en búinn að vera úti á landi að vinna síðan á mánudag.

Þannig að ég hef reytt hár mitt og grenjað alla vikuna. Er svo útbíuð í hori og slefi að ég sé varla á skjáinn. Á næturnar vakna ég og get ekki sofið, geng fram á klettana hér fyrir aftan hús, vef um mig rúmteppinu í nístandi frostinu, horfi út í sorta hafsins og öskra svo hátt að mig verkjar í lungun: Tótiiiii... Tóóóótiiiii

Eða nálægt þessu allavega. Hann kemur nú heim á morgun svo ég ætti að koma til sjálfrar mín fljótlega.

Hann er að smíða eitthvað þak á sumarbústað fyrir norðan. Sagði mér eitt bilað fyndið um daginn. Ég flissa alltaf inni í mér þegar ég hugsa um þetta. Á bænum er sem sagt hundur sem ekki er óalgengt í sveitinni. En þessi hundur hann geltir í hvert skipti sem hann heyrir hamarshögg....

Ókei, þarna eru þrír eða fjórir smiðir uppi á þaki að negla....allan daginn.... í sex daga... hljómar einhvern vegin svona: bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff..... vonandi eru þeir með svona steriophones á hausnum :)

mánudagur, 19. nóvember 2007

Upp er runninn skipulagsdagur... eða hvað?

Jámm, ég er búin að gera fullt í kvöld. Í lærdómi það er að segja. Ég er búin að gera svo mikið að ég er hreinasta hreint bara hætt við að hætta í þessum skóla og hananú.

Í gær var ég alveg á því að hætta bara, hreinlega nennti þessu ekki lengur. Hvers vegna í ósköpunum að pína sig áfram í námi sem tengist vinnunni manns ekki á nokkurn hátt og maður eyðir allt of miklum tíma í? Tíma sem gæti farið í að sinna þessum börnum manns, mála kofaskriflið, þrífa kofaskriflið, skreyta kofaskriflið, létta á byrði þvottakörfunnar, skrifa, lesa (sér til gamans) og njóta lífsins á hvern þann hátt sem manni sýnist? Stórar spurningar... og fátt um svör. Það er samt kominn hugur í mig núna, njáááw stórhugur meira að segja. Ég ætla að massa þetta. Hef aldrei á ævinni fallið á prófi og ekki heldur hætt í neinu sem ég byrja á (tja, nema tónlistarskólanum, en það var nú alls ekki mér að kenna heldur píanókennaraperonistanum) og ætla ekki að byrja á því núna.

Rosalega eru margir búnir að skreyta núna! Ég man bara ekki eftir svona miklum ljósum þetta snemma áður. Þeir sem eru á móti jólaskrauti í nóvember geta nú bara verið heima hjá sér, mér finnst frábært að fá smá ljós í bæinn á þessum árstíma. Auðvitað er fullsnemmt að setja upp einhverja sveinka og jesúbörn, en ljósin maður!!! Ljósin má setja upp í byrjun nóvember og taka niður í lok febrúar mín vegna :) Í mínum huga eru þetta skammdegisljós, sett upp til að lýsa upp lífið fram á vor. Ég meina, hér er myrkur frá október fram í mars, hvers vegna þarf að hnjóða í fólk sem leggur til ljós í líf okkar á þessum tíma?

Ég er nú reyndar ekki búin að setja upp stakt ljós sjálf, en stefni að því um næstu helgi :D

Umph, hvað það var gott í matinn hjá okkur í gær! Marineruð villbráð á steini...slúrp. Kofaskriflið angaði ennþá yndislega þegar ég fór á fætur í morgun, svo svakalega var steikt hér í gærkveldi. Jón og Steinunn komu með hreindýrasteik og Tóti átti gæsabringur og maður minn hvað þetta var gott. Svo kom Ragnheiður óvænt og ánægjulega í mat. Hún kom alveg af fjöllum (Hafnafjalli nánar tiltekið) og ætlaði sér einungis kaffibolla, en fékk steinasteik og rauðvín í staðinn. Hún virtist ekkert sár yfir skiptunum :)

Jæja, það er víst betra að fara að halla sér. Skipulagsdagur í skólanum hjá Björgvini á morgun og það er víst betra að vera vel sofinn fyrir þannig daga. Ég vaknaði reyndar í morgun haldandi það að upp væri runninn skipulagsdagur. Búin að fá frí í vinnunni, kúra aðeins lengur og var því hreinlega enn á náttbuxunum með stírur í augum þegar hringt var úr skólanum hans Björgvins og spurt eftir barninu....hvort hann ætlaði ekkert að mæta í skólann í dag? Ég var mjög fljót í föt og rak liðið út í bíl með harðri hendi. Mamman fór s.s. dagavillt og hinn opinberi skipulagsdagur er barasta á morgun. Hún ætlar samt að vera klár klukkan átta í fyrramálið... bara svona til öryggis :þ

laugardagur, 17. nóvember 2007

ókei, örlar á áhuga fyrir heimilstækjum hjá lesendum?

Nenni nú ekki að eyða dýrmætu síðuplássi í þvottavélamas svo hér er stutta útgáfan:

átti bilaða þvottavél - Tóti gerði við - hún bilaði aftur - keypti nýja vél - hún var biluð - sölumaðurinn mætti á svæðið - hún vildi barasta ekkert vera biluð fyrir framan hann - nýja vélin aftur biluð - fékk nýja vél sem lofar góðu

Vonandi þarf ekkert að ræða þetta mál meira :)Er ekki í bloggskapi, langar samt að segja frá einu sem datt út úr Sólinni í gær.
Við vorum eitthvað að ræða veikindi við matarborðið í gærkvöldi og ég segi í gríni við Sólina: Veistu, þegar ég var lítil þá fékk ég bæði ælupest og gubbupest í einu.
Sólin gapti af einskærrri undrun yfir þessari furðu. Spurði svo eftir smá umhugsun: Og þurftir þú þá að hafa tvær skálar?

Ein afmæliskveðja í lokin:
Mín kæra systir Helga á afmæli í dag! Innilega til hamingju með daginn :-*

mánudagur, 12. nóvember 2007


Þvottavélin mín er komin í lag!
Þetta leit ekki vel út á laugardagskvöld þegar ég ætlaði að hengja upp úr vélinni og ... þvotturinn var þurr. Við reyndum aftur en allt kom fyrir ekki neitt, þvottavélin tók ekkert vatn inn á sig og þvotturinn því jafn þurr og áður en honum var troðið í vélina.

Tóta datt í hug það snjallræði að opna bara Þurrhreinsun....

Ég var nú frekar á því að kaupa nýja vél. Ekkert verður nú úr því, þar sem Tóti fann áðan einhvern vír inni í henni sem var ekki í sambandi, tengdi hann ... og nú verður þvotturinn minn svo blautur og hreinn að draumar okkar um annað hvort Þurrhreinsun eða nýja þvottavél urðu að engu á augabragði.

Helgin var fín. Fór í bæinn, borðaði mömmumat, keypti EldhúsHjálpina mína, lærði, borðaði aftur mömmumat, fór á flugeldasýningu og brennu, fór á tónleika... og nú er ég bara að tala um laugardaginn!
Sunnudagurinn fór í löngu tímabær þrif á kofaskriflinu, fengum góða gesti og svo fékk ég að setja í eina vél hjá Dísu því það verður að þvo þvotta á þessu heimili þótt þvottavélin bili :-/
Æ, sorry, þetta átti ekki að verða upptalning, mér sem finnst upptalningar svo leiðinlegar...

EldhúsHjálpin er snilld. Áðan bakaði ég smákökur Á MEÐAN ég eldaði kvöldmatinn! Ekki gat ég það með handþeytaranum. Þannig að nú er ein sort komin á sinn stað. Ég spái því að líftíminn verði sólarhringur, þá verði kökurnar búnar!

Nóg í bili, ætla að bíða eftir þvottavélinni og fara svo snemma í háttinn. Alveg búin á því eftir ræktina skoh...

föstudagur, 9. nóvember 2007

Ahhhh, föstudagur og helgi framundan.
Ég er ekki frá því að föstudagar séu uppáhaldsdagarnir mínir því þá er allt helgarfríið eftir og ekki er það slæmt!

Þetta er búin að vera fínasta vika. Kórinn var með tónleika á miðvikudagskvöld sem tókust hrikalega vel. Ég meina það, áhorfendur réðu sér vart fyrir kæti þegar við stigum tignarlega á stokk og allt ætlaði um koll að keyra í fagnaðarlátum þegar við létum af söngnum....kannski aðeins fært í stílinn hjá mér en svona var þetta samt nokkurn veginn! Ég skemmti mér alla vega rosalega vel og til þess er nú leikurinn gerður ekki satt?

Við vorum að koma úr sundi. Það var bekkjarpartý í Bjarnarlaug hjá bekknum hans Björgvins, diskóljós og tónlist og allur pakkinn. Það var fínt og bónusinn er sá að mér sýnast litlu kvikindin ætli að fara snemma í háttinn í kvöld, þau virðast gersamlega yfirbuguð af þreytu (yesssss)

(Ég vil taka það fram að þegar ég kalla börnin mín kvikindi, þá meina ég það auðvitað á hinn besta mögulega hátt. Kvikindi þýðir náttúrulega eitthvað sem er kvikt, eitthvað sem hreyfist. Ef einhver leggur aðra merkingu í orðið þá er ekki við mig að sakast...)

Helgarplanið er á rólegri nótunum, Tóti er að vinna svo ég ætla að finna mér einhvers staðar frið til að læra. Spurning um að níðast á móður minni enn eina ferðina...

Nú og svo er ég að fara í smá verslunarferð í leiðinni. Jú, mamman er loksins að fara að eignast Kitchen Aid hrærivél. Mér finnst hrikalega gaman að baka og elda, eða mér fannst það alla vega. Ég er bara komin með leið á því. Ástæðuna tel ég vera þá að stórvirkasta vinnutækið mitt í þessum efnum er smávegis handþeytari sem ég keypti í Sjónvarpsmarkaðnum hér um árið. Hann er alveg búinn að gera sitt greyið, en það er bara svo hrikalega leiðinlegt að baka köku með handþeytara. Þar sem allsvakaleg kökuvertíð er framundan og ég á bæði inneign hjá Unik og í Smáralindinni þá ætlar mín að sækja eina Kithen Aid á morgun, nánast fríkeypis! Vei, ég get nú ekki annað sagt en að ég hlakki til að prufukeyra tryllitækið!!

Nóg í bili,
túrilú

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Ái, hvað ég vaknaði með miklar harðsperrur í morgun!
Reyndar byrjaði ég að finna fyrir þeim í gærkvöldi, þá komu Steinunn og Jón yfir og þar sem við sitjum yfir dvd-mynd fer ég að ókyrrast mjög... stífna upp í herðunum og fannst virkilega óþægilegt að sitja kyrr, haha!

Í tilefni af harðsperrunum fannst mér kjörið að fara bara aftur í ræktina í morgun, ójá! Þetta skiptið gekk miklu betur, gerði mig held ég ekkert að fífli í tækjunum eða neitt.

Fyrir utan brjálaða heilsurækt er búið að vera nóg annað að gera um helgina. Tóti er búinn að vera í skólanum alla helgina svo ég fór með krakkana á leiksýningu í gær eftir íþróttaskóla Sólarinnar. Við fórum að sjá Langafi Prakkari í Tónbergi. Þau skemmtu sér vel, en mér fannst nú ekki eins gaman. Einhver gutti í sætinu fyrir aftan mig sparkaði í sætisbakið hjá mér ALLAN tímann, þótt ég væri búin að snúa mér við og biðja hann að hætta þessu.

Ég fékk símaat um daginn! Jiii, hvað maður man eftir þeim. Símaat er náttúrulega ekkert fyndið þegar það beinist gegn manni sjálfum og þessir krakkar voru greinilega algerir viðvaningar í þessari algengu barnaskemmtan.
Í fyrsta lagi sögðu þau ekki neitt fyndið, sögðu raunar ekki neitt svo ég skellti bara á af leiðindum yfir þessu ófrumlega símaati.
Í öðru lagi er ég, eins og nánast allir aðrir, með númerabirti á símanum... og símaatarinn ekki með númeraleynd...hversu snjallt er það?
Ég fór því bara á ja.is, eftir annað símtalið, og fann eiganda númersins, einhver saklaus hjón sem voru skráð fyrir símanúmerinu. Í þriðja skipti sem hringt var þá spurði ég náttúrulega bara "Er Sonja heima?" Símaatarinn skellti snarlega á mig :)
Ekki lét ég mér það nægja og hringdi barasta beina leið aftur í þetta símanúmer, símaatarinn svaraði og skellti á mig þegar ég spurði aftur eftir Sonju! Auðvitað hringdi ég strax aftur og eftir nokkrar hringingar svarar húsbóndinn á heimilinu. Eftir að hafa fengið að heyra söguna sagðist hann ætla að tala við unga dóttur sína út af þessu og baðst barasta afsökunar. Síminn hjá mér hringdi ekki aftur það kvöldið :)

Jæja, farin að elda matinn. Lambalæri á matseðlinum í kvöld hér á bæ *slúrp*

föstudagur, 2. nóvember 2007

Miss Fitness 2012

Já, það er aldeilis búið að vera mikið í fréttum þessa vikuna:

  • meint verðsamráð og svindl gagnvart neytendum
  • Vítisenglar í haldi í Leifsstöð
  • Framhaldsserían um REI og Geysir Green málið
  • Stýrivextir hækkaðir

En ég veit að hingað kemur enginn til að fá slíkar fréttir, nóg er af þeim á öðrum miðlum!
Neibb, hér verða sagðar alvöru fréttir sem alla þyrstir í að fá.
Og af nógu er að taka í þeim efnum.

Það sem ber einna hæst er að Frú Björg er búin að kaupa sér árskort í þrek!
Neibb, þetta er ekki prentvilla. Ég steig síðast inn í líkamsræktarsal árið 2000 (!) og síðan þá hef ég látið allt milli himins og jarðar stöðva mig í því að láta sjá mig þar aftur. Nú duga engar afsakanir lengur, mín er búin að fjárfesta í íþróttaskóm, árskortið komið á sinn stað og ég á stefnumót í þreksalnum í fyrramálið :)
Ekki seinna vænna, maður er nú að nálgast fertugsaldurinn (ehemm) og æskuljóminn hefur ekki lengur roð við þyngdaraflinu. Ein spurning, veit einhver hvar Bingóið er á líkamanum?

Það kannast nú margir við það að þegar maður ætlar t.d. að hætta að reykja, þá segir maður sem flestum frá því svo það sé svoldill þrýstingur á mann að halda bindindið út. Nú er ég að gera það sama með þetta þrek-dæmi, hér með er það tilkynnt að ég er orðinn líkamsræktarkona og hana nú! Eða...ég mæti alla vega á morgun.Vona bara að ég endi ekki eins og þessi hér:Kannski frekar eins og þessi!!! Ekkert smá æðakerfi á manneskjunni!

Kannski maður setji Fitness-keppni á 5 ára planið?
Nei, verum nú bara róleg og missum okkur ekki alveg í framtíðaráætlunum, er ekki best að byrja á því að mæta á morgun bara, það er ágætt í bili :)