mánudagur, 30. júní 2014

Mánudagur

Færsluna í gær skrifaði ég áður en ég las þessa frétt hérna. Og ég var að djóka með þetta "það er ekki til vont veður"-dæmi, bara létt grín sem ég skellti svona fram meðan kvöldsólin skein svo bjart í andlitið á mér þar sem ég sat í bílnum á leið til Hvammstanga og skrifaði bloggfærslu gærdagsins.

Við vöknuðum í rigningu á Hvammstanga í morgun og lásum fréttir dagsins um yfirvofandi lægðagang vikunnar með tilheyrandi úrkomu, roki og vatnavöxtum og ákváðum að pakka saman og fara heim. Einn dagur í rigningu er fínn, tveir sleppa alveg. En útilega í viku rigningu, ómögulega takk! Ég hljóp um tjaldsvæðið á Hvammstanga um hádegisbil í dag þegar fyrir lá að ferðaveður yrði afleitt í vikunni, og leitaði að túristum sem ég ætlaði að bjarga með því að segja þeim fréttirnar. Fann bara enga túrista, þeir vakna klukkan fimm á morgnana og koma sér af stað og ég næ sjaldan að sjá þá þar sem ég sef á mínu græna til svona níu. Eða ellefu! Ég vona bara að einhver vilji vera svo vænn að koma því til skila til túristanna sem ekki lesa veðurfréttir að hæla vel niður tjöldin og setja aukastög á tjaldhimininn, því þetta verður víst rosalegt.

Annars eyddum við helginni í góðra vina hópi í Hveragerði. Þetta var mjög vel heppnuð ferð, 12 vinir með 12 börn í 6 fellihýsum og stuðið eftir því. Sá helmingur hópsins sem er í sumarfríi hélt svo áfram til Hvammstanga í gær og var ætlunin að túra um Norðurlandið í vikutíma eða svo, en öll erum við þó komin heim núna út af þessu með veðurspána. Svona er þetta stundum og þrátt fyrir að ég hefði viljað halda áfram er ég aldeilis þakklát fyrir yndislegt sumarfrí, við höfum verið 23 nætur í fellihýsinu það sem af er sumri og júní bara rétt búinn.

Það eru einungis tvær vikur eftir af sumarfríinu og mér finnst ég verði að nýta þær til hins ýtrasta svo ég vona að við komumst af stað aftur sem fyrst. Ég hef grun um að það verði fljótlega, enda er ekkert að veðri núna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Útsýnið frá skrifstofuglugganum núna kl. 23:00. Bjart og
fallegt veður. Eitthvað skuggaleg skýin þarna í fjarska samt...


sunnudagur, 29. júní 2014

Sunnudagur

Eftir ljúfa helgi í Hveragerði erum við nú á leið norður í land, svona til að ljúka við hringferðina norðan megin frá. Veðurspáin er þó ekki allt of góð, djúp lægð á leið upp að landinu og við munum því líklega þurfa að taka upp regnfötin fyrr en varir. Við höldum þó ótrauð áfram, látum ekki slæma spá trufla okkur. Það er nefnilega ekki til neitt sem heitir slæmt veður, bara illa klætt fólk.
Tjaldborgin í Hveragerði

Brosandi bloggari á leið á Hvammstanga

laugardagur, 28. júní 2014

Ný dýfa

Nýr staður, ný dýfa.
Varmá er réttnefni, hylurinn er með þeim hlýrri sem við höfum kynnst í sumar.

föstudagur, 27. júní 2014

Gullbrúðkaup

Þessi sómahjón eiga gullbrúðkaup í dag, 50 ára ást sem hefur borið ríkulegan ávöxt því þau státa af sjö börnum, nítján barnabörnum og einu barnabarnabarni. Af því tilefni buðu þau hjörðinni sinni til veislu á Primo. Mikið sem ég er þakklát fyrir að eiga þau að!


fimmtudagur, 26. júní 2014

Slátur dagsins

Æ, ég gleymdi bloggátakinu þar til núna rétt í þessu, svo mynd af slátri dagsins verður látin nægja í þetta sinn!
Góða nótt, það er von á almennilegri færslu á morgun :)

miðvikudagur, 25. júní 2014

Næring kvöldsins

Þá er komið að annars konar næringu. En áður en lestur hefst á þessari færslu vil ég biðja þig lesandi góður að smella á þennan hlekk hérna og skoða myndirnar sem fylgja þeirri færslu. Þarna er sem sagt uppskrift að kvöldmatnum okkar á E9 í kvöld. 

Upphaflega átti þessi færsla að fjalla um það hvernig myndir geta oft blekkt neytandann og gefa alls ekki rétta mynd af vörunni. Hver kannast ekki við að standa fyrir framan afgreiðsluborðið í sjoppunni og skoða myndir af matseðlinum á risavöxnu myndaspjaldi fyrir framan sig. Velja sér stóran feitan hamborgara stútfullan af grænmeti, löðrandi í sósu og með svo mikið af osti að hann tollir ekki á sentimeters þykku buffinu og lekur niður á diskinn á afar girnilegan hátt. Omminomminomm, hver vill ekki svoleiðis. Síðan er kallað: "Hundaðogsjö", og fram kemur agnarsmár barnaborgari með tómatsósu og einu kálblaði. Ekki eins og á myndinni sem sagt.

Ég var því efins þegar ég hófst handa við "Ofnbakaðan þorsk með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu" og hugðist með myndatöku sanna hið fornkveðna: að myndir af söluvöru eru alltaf girnilegri en söluvaran sjálf. En ég verð víst bara að éta þetta ofan í mig, fiskurinn var jafn fallegur og á myndunum sem fylgdu uppskriftinni og ekki spillir að hann var líka einstaklega bragðgóður. Mér tókst meira að segja að ná sæmilegum myndum af eldamennsku kvöldsins, bon appétit!

Sætkartöflumúsin mallar í pottinum

Þorskurinn bíður spenntur með
fallegt pistasíusalsa á toppnum

Heimilismatur sem hægt væri að bera
fram á fínasta veitingahúsi

þriðjudagur, 24. júní 2014

Næring dagsins

Ég hef í gegnum naflaskoðun síðustu missera gert margar löngu þarfar uppgötvanir. Ein er sú að ég er margskipt og persónuleiki minn á sér margar hliðar sem öllum þarf að sinna. Ég er til dæmis náttúrubarn og þarf að komast í tæri við náttúruna og næra þann hluta reglulega, annars líður mér afar illa. Helst þarf að vökva náttúrubarnið í köldum hyljum og fossum, það endist langbest! Svo er ég líka skipulagsfrík með fullkomnunaráráttu og fríkið þarf sína næringu. Einnig er ég skúffuskáld og laumurithöfundur og þarf því reglulega að setjast niður við skriftir, annars verð ég skapstygg og vansæl (halló Boggublogg!). Svo er ég líka að springa úr tónlist og þarf bæði að skapa og njóta hennar reglulega. Ef ég finn fyrir óróleika, þá er pottþétt að ég hef ekki sinnt öllum hliðum persónuleikans míns og um leið og ég leysi úr því þá færist yfir mig friður og ró. Í alvöru þetta er svona einfalt!

Eftir alla útivistina sem ég hef notið í mánuðinum er náttúrubarnið í mér hæstánægt. Bloggmarkmið mánaðarins var til þess gert að næra skrifandann í mér og hann er sáttur núna. En tónlistin hefur setið á hakanum undanfarið, kórinn í sumarfríi og þannig. Það var því kærkomið að hitta Stúkurnar mínar í kvöld eftir hálfs árs æfingahlé. Hléið var ekkert planað, við erum bara venjulegar önnum kafnar konur í skóla og vinnu og víkingum sem fundu loksins tíma til að hittast. Á þessari kvöldstund tókst okkur að útsetja nýtt lag og til að muna raddirnar okkar næst þegar við hittumst (sem verður fljótlega!), þá tókum við lagið upp eins og sjá má:


Og þá er komið að erfiðasta hlutanum: skipulagsfríkinu! Mér finnst alltaf erfiðast að halda fríkinu sáttu, því fríkið passar svo afskaplega illa við hina hlutana. Hvernig getur maður verið skapandi, en samt með allt skipulagt og fullkomið? Innra með mér er því eilíf togstreita. Þetta er svona eins og að eiga fjögur börn sem ekki kemur sérlega vel saman og ef eitt systkinið fær meira en annað, þá verður allt vitlaust á heimilinu. Oft hef ég reynt að vefa skipulagið inn í annað sem ég geri. Þegar ég skrifa, geri ég það yfirleitt mjög skipulega og er búin að skipuleggja skrifin vel fram í tímann (halló Boggublogg!). En stundum dugir það ekki til, og núna þegar sumarfríið mitt er hálfnað og allt laust í reipunum þá öskrar fríkið.

Það er því gott að geta sagt að ég er heldur betur með verkefni á prjónunum fyrir fríkið! Jafnvel að framundan sé annað átak hjá lotufíklinum sérsniðið fyrir skipulagsfríkið. Meira um það síðar :)

mánudagur, 23. júní 2014

Sjálfa

Ég er ekki alveg búin að ná áttum eftir heimkomuna og veit ekkert um hvað ég á að skrifa. Og deginum eyddi ég í baráttu við þvottafjallið, þannig að um það er takmarkað að skrifa. 

Svo hér er sjálfa af mér og geit. Þessi fallega frauka vildi ólm kyssa mig um daginn og bað mig af því tilefni að taka sjálfu af okkur.
Geitasjálfa

Ég á mikið af sjálfum eftir útileguna okkar og sjálfur eru í sjálfu sér gott efni í myndaröð. Kannski sjálfur verði bara innihald bloggs dagsins, út af þessu þarna með þvottinn, get ekki meira af þvotti í bili!
Hálendissjálfa

Hópsjálfa

Dalatangasjálfa

Snjósjálfa

Dúdsjálfa

Göngusjálfa

FjölskyldusjálfaHvar-er-takkinn-sjálfa 
Mæðgnasjálfa

Ástarsjálfa
Eru ekki annars allir farnir að þrælfíla orðið sjálfa? Finnst það einstaklega þjált og þegar maður fer að nota það hversdags, þá er það fljótt að verða að vana. Sjálf man ég ekki einu sinni hvað þetta var kallað áður!

sunnudagur, 22. júní 2014

Heimkoma

Eftir 18 daga á ferð um fagra Ísland og 17 nætur í fellihýsinu getur verið ósköp gott að koma heim og róta sig aðeins. Og sofa í rúmi, það verður ekki slæmt! Og eftir allan þennan tíma með takmarkaðan aðgang að þvottavél er líka gott að vinna aðeins á þvottafjallinu, hengja hreint út á snúrur þar sem miðnætursólin nær að þerra plöggin, setjast síðan út á hólinn minn og njóta sjónarspilsins.

Akrafjall - Þvottafjall

Miðnætursól ofan af hól

Glöggir lesendur hafa sjálfsagt áttað sig á því að í gær kom engin færsla, sem er í hrópandi ósamræmi við bloggmarkmið júní-mánaðar. Ansi leitt verð ég að segja, en þó óviðráðanlegt þar sem ég varð alveg netlaus í gær. Þó ber að athuga að þessi færsla er 22. færsla mánaðarins svo bókhaldið stemmir. Ég mun því ekki naga mig í handabökin yfir þessu, til þess er ég allt of kærulaus og kaótísk og alfarið laus við fullkomnunaráráttu og skipulagshneigð.
Ást og út!

föstudagur, 20. júní 2014

Föstudagur

Tómt mál að tala um að skrifa bloggfærslu núna, til þess er ég of þreytt eftir frábæran dag með góðu fólki. En hér er mynd af mér og Vininum á leið í kveðjudýfuna í Stjórninni fyrr í dag. Elskum þann stað!

fimmtudagur, 19. júní 2014

Tjarnargígur

Hér skellti ég mér til sunds í dag, í miðri göngu um Lakagíga. Það var ljúft og hressandi :)

miðvikudagur, 18. júní 2014

Á hægri heimferð

Ég smellti þessari af okkur í dag þegar við gerðum nestisstopp á leiðinni að Kirkjubæjarklaustri. Böðuð sólargeislum auðvitað. Sólin skein samt ekki á okkur í gærkvöldi þegar við tjölduðum í roki og rigningu við Lambleiksstaði og ekki heldur í nótt þegar við rukum á fætur að taka saman markísuna áður en rokið næði að slíta hana af. Það gleymdist þó fljótt þegar við vorum búin að pakka í morgun og sólin tók að skína á nýjan leik. Hér á Kleifum við Kirkjubæjarklaustur hefur sólin svo skinið á okkur í allan dag, held hún sé að sjúk í okkur!

þriðjudagur, 17. júní 2014

Ferðadagur

Við ætluðum að færa okkur um set í dag, en veðrið var of gott til þess. Svo við nutum veðursins og hitans (23°C í forsælu, takk), sóluðum okkur og fórum í sund á Eskifirði.


En veðurspáin lýgur ekki og nú erum við sólbrennd á flótta til suðurs undan rigningarskýjum sem lóna þarna í baksýnisspeglinum. Já, til suðurs segi ég. Þetta verður því sennilega ekki hringferð í þetta sinn, heldur tveir hálfhringir. Það er líka í fína lagi enda búið að vera í meira lagi gott hjá okkur. Við erum samt ekki búin enn, eigum eftir að njóta okkar í nokkra daga til viðbótar. Svo vill til að ég var að enda við að fella nýju útilegusokkana af prjónunum og það verður ekki ónýtt að ylja sér á þeim fari hitastigið eitthvað niður fyrir tuttugu gráðurnar :)
Má ég kynna útilegusokkana Þakgil,
á bara eftir að fella af og skreyta lítillega.

sunnudagur, 15. júní 2014

Sunnudagur

Hér fyrir austan er allt með kyrrum kjörum, blessuð blíðan og við erum ekki á leiðinni heim. Byrjuðum daginn í sundi á Eskifirði og fórum svo í bíltúr yfir í Vaðlavík. Þar hefur eitt sinn verið blómleg sveit, í það minnsta eru rústir 5 eyðibýla merktar á kortið. En afskekkt er þetta og yfir tvö vöð að fara, auk þess sem við komumst ekki alla leið, því hálft fjall hafði fallið á veginn í formi aurskriðu.
Þessi skriða féll víst um páskana.
Uppi á heiðinni er ennþá snjór og bara fært í
Vaðlavík. Vegurinn í Viðfjörð er enn ófær :)
Það telst til talsverðra tíðinda að á heimleið sáum við hóp hreindýra, en 14 tarfar voru á beit hér rétt við álverið á Reyðarfirði. Við sem vorum búin að vera límd innan á bílrúðurnar í allan dag uppi á heiði og í eyðivíkum að vonast til að sjá hreindýr! Talandi um að leita of langt yfir skammt :)

laugardagur, 14. júní 2014

Rífandi þurrkur á Reyðarfirði

Úr draumadalnum brunuðum við til byggða snemma í morgun með hlass af óhreinum þvotti, en á tíunda útilegudegi eru hreinu plöggin orðin ansi fá, eins og gefur að skilja. Þannig að hér á Reyðarfirði var ráðist í stórþvotta og nú blakta hrein plögg hvar sem þeim var viðkomið á snúrum og trjágreinum.Dagurinn hefur annars verið rólegur og hlýr, byrjaði reyndar með trukki en við renndum inn á Reyðarfjörð tíu mínútum fyrir ellefu í morgun og ræst var í Kvennahlaupið klukkan ellefu. Eftir sjö kílómetra skokk var Tóti búinn að tjalda og ég búin með þessa fínu upphitun fyrir stórþvottinn :)

Klukkan er 18 og sólin skín enn. Held ég skelli mér út og vinni aðeins í taninu.
Ókei bæ.

Boggudalur

Mér mun nú ekki takast að deila þessari færslu fyrr en á morgun þegar við komumst í símasamband. Ef við tímum þá nokkuð að yfirgefa þennan draumadal sem við fundum undir kvöld, gróinn og hlýlegan, fjarri öllum ys og þys með fossi, hyl og öllu sem þarf fyrir sveitta og svanga ferðalanga að vestan. Öllu nema net- og símasambandi það er að segja...
Þetta er þriðji dalurinn sem við höfum keyrt inní í dag í leit að nákvæmlega því sem beið okkar svo hér í allan tímann. Dalurinn heitir ekkert á kortinu okkar en um hann rennur Fauská, í mynni hans heitir fjaran Fauskasandur og hér stóð, samkvæmt kortinu, í fyrndinni bærinn Fauskasel. Dalurinn gæti því allt eins heitið Fauskadalur. Eða Boggudalur, ef enginn andmælir því.
Við tjölduðum um sex-leytið, og fórum strax í göngu upp með ánni þar sem fundum téðan foss og hyl þar sem við hylsjúku meðlimir fjölskyldunnar hentum okkur óðar útí. Rétt náðum að fara úr flestum fötunum fyrst. Við gátum synt að fossinum og sturtað okkur undir honum, dýptin hæfileg, botninn í grýttari kantinum en öll aðstaða annars alveg til fyrirmyndar! Við vorum svo spennt yfir þessu að eftir kvöldmatinn þegar við höfðum náð hita í kroppinn skelltum við okkur aðra ferð í hylinn :)
Það verður gott að sofna í kvöld í kyrrðinni hér í Boggudal, við árnið og fuglasöng með bestu ferðafélagana hrjótandi við hlið mér.


fimmtudagur, 12. júní 2014

Fimmtudagur

Við fluttum okkur um set í dag eftir tvær nætur að Kleifum, og erum nú á tjaldsvæði við Lambleiksstaði um 30 km frá Höfn. Auðvitað stoppuðum við oft á leiðinni, keyrðum til dæmis upp að Lómagnúpi, inn í skriðu sem þar hefur fallið fyrir löngu og fundum þar falleg vötn. Þetta er ekki sýnilegt frá veginum, enda eru flestar perlur þeim kostum gæddar, þær eru ekki auðsýnilegar og jafnvel þarf stundum að hafa dáldið fyrir þeim.

Tóti bleytti spúninn aðeins í dag, en varð ekki var

Göngugarparnir mínir
Einnig stoppuðum við hjá Skaftafelli og gengum upp að Svartafossi, falleg gönguleið og passlega löng fyrir krakka. Flottur dagur!

miðvikudagur, 11. júní 2014

Sólardagur við Stjórnarfoss

Við fluttum okkur um set í gær frá Vík og að Kleifum rétt hjá Kirkjubæjarklaustri, eftir framúrskarandi dag uppi á Reynisfjalli, inni í Þakgili og Remundargili, en það síðastnefnda gengum við alveg inn að botni þar sem hár foss steypist niður gilbarminn. Held ég að Remundargil verði pottþétt heimsótt aftur, undurfagurt, iðagrænt og hrikalegt í alla staði.

En hér við Stjórnarfoss hefur dagurinn liðið við mikla sól og sælu. Við lágum í sólbaði frameftir degi og busluðum í Stjórninni, en drifum okkur svo í leiðangur og skoðuðum hið mikilfenglega Fjaðrárgljúfur og skelltum okkur svo í sund. Eftir matinn fóru Tóti og Jón aftur í Fjaðrárgljúfur til að taka myndir, en við krakkarnir fengum okkur göngutúr og skoðuðum Kirkjugólf, sem er myndarleg stuðlabergsklöpp hér rétt hjá tjaldsvæðinu.
Systkinin við Fjaðrárgljúfur
Sólin mín hvílir lúin bein við Fjaðrárgljúfur
Feðgarnir á ystu brún með myndavélarnar sínar

þriðjudagur, 10. júní 2014

Ó mæ gad

Orð fá ekki lýst...
Komin inn í botn á Remundargili, þetta gerist ekki betra! 

Lifað á brúninni

Líf ljósmyndarans og eiginkonu ljósmyndarans getur verið hlaðið hættum...

mánudagur, 9. júní 2014

Rigningardagur í Vík

Vitandi það að dagurinn í dag yrði í blautari kantinum sváfum langt fram að hádegi, öll nema Tóti sem fór á fætur á undan okkur og hellti upp á kaffi og svona. Í tilefni af rigningunni ætluðum við að hafa sund- og safnadag, en fundum ekkert safn utan litla skonsu í upplýsingamiðstöðinni sem vakti lítinn áhuga. Svo við fórum bara í sund, sem var alveg orðið tímabært. Við fórum í smá göngu, og eftir kvöldmat (brauð og túnfisksalat a la Tóti) keyrðum við yfir í Reynisfjöru, tókum myndir og skoðuðum hellinn í hressandi rigningunni. Við erum því ansi blaut og ansi langt síðan ég hef þurft að nota plastpoka í skóna!

sunnudagur, 8. júní 2014

Vík - áður en klukkan slær 12

Við vorum að renna inn í Vík í Mýrdal og henda upp farfuglaheimilinu okkar eftir ansi viðburðaríkan dag. Við fengum sól og gott veður í morgun, skoðuðum Seljavallalaug og Gljúfrabúa eftir hádegið, grilluðum kvöldmat með ferðafélögunum og pökkuðum svo saman, kvöddum þau og Grandavör og héldum áfram leið okkar austur á bóginn.

Við áðum hjá Skógafossi, skoðuðum flugvélaflakið á Sólheimasandi á leiðinni til Víkur. Nauðsynlegt að stoppa oft og teygja úr sér á svona ferðalögum, bæði fyrir börn og ljósmyndara.