sunnudagur, 27. nóvember 2011

Piparkökuhús 2011

Hér á E9 hefur verið brjálað að gera þessa helgina og eldhúsið mitt litið út eins og einingaverksmiðja á góðæristíma.

Þetta byrjaði á fimmtudagskvöld með hönnunarvinnu og þá sátu verkfræðingar sveittir yfir uppdráttum að fyrirhuguðum húsum. Föstudagskvöldið fór í að hnoða deig sem þurfti svo að bíða yfir nótt, ansans ófögnuður það :/ Laugardeginum eyddum við í að fletja út og baka í gríð og erg.

Í dag var svo samsetningarlínan ræst og súkkulaði, glassúr, ísingu og kökuskrauti stráð á viðeigandi staði. Allt gert eftir kúnstarinnar óreglu, í fjarveru hallamála og tommustokka og þess háttar óþarfa. Húsin eru því loksins tilbúin, til þess eins að standa þarna og vera sæt og svo vera étin í fyllingu tímans. Sældarlíf það.


Sólar hús risið og verið að skreyta

Vinurinn býr til flottustu marsipanrósirnar :o)


Hryllingsþema. Ef vel er að gáð má sjá hvar ósýnilegi maðurinn stendur...


Hjartaþema

Someone was murdered...

Þetta fær að standa ljóslaust, peran er sprungin og ekki hægt að skipta nema rífa húsið upp af sykurgrunninum...

Vinurinn og húsið hans

Sólin og húsið hennar
Og auðvitað nokkrar piparkökur líka

þriðjudagur, 15. nóvember 2011

Brauðdrengur

Það er engu líkara en ég hafi fátt að gera við tímann nema að baka. Því er nú öðru nær, en þessi misserin er ég einfaldlega haldin óstjórnlegri þörf fyrir að taka myndir af matnum mínum :o)

Í kvöld bökuðum við mæðgurnar Brauðdreng sem við snæddum svo í kvöldhressingu. Svakalega hressilegur strákur sem var mjúkur undir tönn og krúttlegur. Alls ekki gómsætur, enda er alvitað að ekki er hægt að lýsa ósætum mat með því orði. En sætur var hann að sjá, það fer ekkert á milli mála!laugardagur, 12. nóvember 2011

Skonsur

Í dag bakaði ég ótrúlega góðar, fínlegar og mjúkar skonsur. Ég hef bakað þær áður en gleymi því alltaf á milli skipta hversu góðar þær eru :o)


Uppskriftin er original frá Nigellu, en fékk smá snyrtingu hjá mér. Ekki það að ég sé að reyna að gera betur, heldur notar hún stundum hráefni sem ég á aldrei til og það gengur ekki!
Eftir smá tilraunir er niðurstaðan þessi:
4 bollar hveiti
4 tsk. lyftiduft
2 msk. flórsykur
4 msk. mjúkt smjör
-blandað saman með hnoðaranum
2 msk. olía
1 1/2 bolli AB-mjólk (jafnvel aðeins rúmlega, deigið á að vera blautt í fyrstu)
-sett saman við og hnoðað áfram þar til deigið er orðið að klístraðri einingu sem hægt er að losa úr skálinni á hveitistráð borðið þar sem deigið er hnoðað áfram. Bollur gerðar (með lófum eða með glasi).
Bakað við 220 °C í 12 mínútur

Ég er farin að fá mér rjúkandi skonsu, smurða með smjöri og osti og kaffi með. Slllúúrrp!

Skonsur


Ef þetta heppnast vel kemur uppskrift í kvöld!


Published with Blogger-droid v2.0.1

laugardagur, 5. nóvember 2011

Meira af súkkulaði

Í gær bakaði ég svaðalegar súkkulaði-muffins, stútfullar af súkkulaði og gleði. Mæli alveg með þeim.

föstudagur, 4. nóvember 2011

Brún sæla

Í kvöld hefur aldeilis mikið verið bakað og bardúsað í eldhúsinu og brúnir tónar allsráðandi. Súkkulaði er auðvitað hið mesta uppáhald og án þess væri nú til lítils að fara fram úr á morgnana. Það sem heimurinn þarf er meira súkkulaði!
Látum myndirnar tala sínu máli :o)
fimmtudagur, 3. nóvember 2011

Hrekkjavaka

Vinurinn er að undirbúa hrekkjavökupartí. Viku of seint, en samt með öllu tilheyrandi skrauti, mat og spennandi hryllingsmynd. Við skárum út grasker í kvöld, í fyrsta sinn á ævinni. Kannski verður þetta nýr siður... Hita upp fyrir pipakökuhúsagerðina með graskersútskurði :o)
Sjá þetta hræðilega ferlíki...

Stundum er þetta bara spurning um rétt viðmið. Stóru graskerin voru búin og við fengum bara þetta!