laugardagur, 6. desember 2014

Stóra planiðÞessi elska er tilbúin tveimur dögum á undan áætlun, vúhúúú!
Þetta mjatlast, bara tvö verkefni og tvö próf eftir. Stóra planið er allt saman að ganga upp, fríkinu til mikillar gleði.

sunnudagur, 2. nóvember 2014

Af afeitrun sykurfíkils

Og ég sem hélt að það að hætta að reykja væri erfitt.

Nú er ég á sjöunda sykurlausa deginum mínum og nartþörfin alveg að æra mig. Þar sem ég sit og rita þessi orð sötra ég bleika maukaða vítamínbombu með röri, en langar bara í lakkrís og súkkulaði. Nei, þú álpaðist ekki inn á ókunnugt blogg, þetta er ég! Í alvöru! Bogga sykurfíkill!

Þetta áunna sykurleysi mitt er enn eitt afrek átakssjúka lotufíkilsins sem ákvað síðastliðinn mánudag að láta engan hvítan sykur inn fyrir sínar varir í að minnsta kosti 14 daga. Ekkert sælgæti, ekkert gos, engir eftirréttir. Og ekkert súkkulaði. Mig dreymir súkkulaði, það flæðir um í stórfljótum draumaheims míns og ég má ekki einu sinni dýfa litla fingri ofan í. Fjárakornið.

Ég á í mestu vandræðum með að næra mig. Ég vissi það fyrir að ég borða mikinn sykur, en að hann hafi verið meginuppistaða fæðunnar hjá mér kom mér á óvart! Fyrsta verslunarferðin var mér dýrkeypt, enda átti ég ekkert til í skápunum sem gat rakið ættir sínar til kínóa, kasjú, sesam, eða svoleiðis. Keypti allt frá grunni og borgaði fyrir það andvirði utanlandsferðar, án gríns. Hvers vegna þarf hollusta að vera svona hrikalega dýr? Það er til dæmis ekki beint hvetjandi að fara í grænmetiskælinn á laugardögum þegar það er 50% afsláttur á nammibarnum. Í gær var líka eina vitaða tilfellið þar sem laugardagar eru verri dagar en aðrir dagar, annars eru þeir ávallt í uppáhaldi.

Annars gengur lífið sinn vanagang hér á bæ, nóg að gera hjá öllum og þannig á það að vera. Vildi að ég gæti sagt meira en sökum fjölmiðlabanns verða sumar fréttir að bíða næsta árs...

laugardagur, 11. október 2014

Laugardagsmorgun

Hvað er betra á laugardagsmorgni en að sötra kaffi úr fallegum bolla á meðan litlu þrælarnir mínir ryksuga húsið og gera fínt? Það er fátt held ég!


laugardagur, 27. september 2014

Hveravellir

Um síðustu helgi nutum við fjölskyldan fallegra haustdaga í sumarbústað í fullkominni afslöppun og notalegheitum. Jú, ég viðurkenni það að ég hlustaði reyndar á einn fyrirlestur um vefstjórnun, en lét þar við sitja hvað lærdóm varðar og sneri mér aftur að notalegheitum og afslöppun um leið og fyrirlestri lauk. Góður matur, heitur pottur, sófakúr, góðir gestir á sunnudeginum og aukafrídagur á mánudeginum, hvað er hægt að hafa það betra!

Laugardaginn notuðum við í bíltúr upp að Hveravöllum, við frekar dræmar undirtektir allra fjölskyldumeðlima sem eru undir 170 cm að hæð. Um tíma kvartaði ég sjálf meira að segja sáran við leiðsögumanninn okkar, sem brunaði með okkur upp á hálendi á þessum árstíma á þessum hræðilega holótta vegi með allt of lítið nesti meðíferð. 

Hveravellir sjálfir voru algerlega dýrðlegir, þvílík vin í þeirri eyðimörk sem hálendið virðist vera þegar maður hossast um á vondum vegi og hvergi stingandi strá í augsýn.

Fólkið mitt við StrokkÞetta áhrifamikla verk stendur á Hveravöllum, tvö steinhjörtu innilokuð undir fargi á bak við rimla, þau komast hvergi en hvíla þarna saman. Fallegt verk í ljósi þess að á Hvervöllum áttu Eyvindur og Halla skjól um tíma. Var ég einhvern tímann búin að segja frá ást minni á þeim? Nei, ég á það sjálfsagt eftir :)


Öskurhóll

Á slóðum Eyvindar og Höllu

Taraaa! Fundum Eyvindarhelli og skriðum ofan í hann, auðvitað.


laugardagur, 6. september 2014

Lattélap

Sú var tíðin að ég gat valsað inn á hvaða kaffihús sem er í 101 Reykjavík og látið eins og heima hjá mér, enda eyddi ég í þá tíð meiri tima þar en heima og naut hverrar mínútu. Ég vissi hvar skemmtilegasta fólkið hélt til, hvaða kaffihús væru gjafmildust á ábótina, hvar tíðkaðist að spila, hvar var venjan að sitja í þögn og lesa og hvar mátti dansa uppi á borðum. Á kaffihúsum lærði ég undir próf, skrópaði í skólanum, eignaðist vini, spilaði Kana og Manna og drakk kaffi. Með mjólk.

Síðan eru liðin mörg ár. Greinilega.

Um daginn átti ég stefnumót við vinkonu á kaffihúsi í miðbænum og var mætt aðeins á undan henni á kaffihús sem ég hafði aldrei komið á eða heyrt um, enda var þarna rekin antíkbúð síðast þegar ég vissi. Greinilega er þetta vinsælt kaffihús, því ég settist við eina lausa borðið á staðnum allsendis óafvitandi um hvað beið mín.

Ég litaðist um og reyndi að átta mig á aðstæðum þarna inni og ríkjandi stemningu, eins og maður gerir þegar sest er inn á ókunnan stað í fyrsta sinn. Enginn kom til mín að taka niður pöntun, en þó voru gestir staðarins með rjúkandi kaffi í bollum fyrir framan sig, svo ég afréð að yfirgefa umsetna borðið mitt og fara í röðina við afgreiðsluborðið til að panta mér kaffi. Þar borgaði ég 470 krónur fyrir kaffi (kallað Americano nú til dags...) og var sagt að setjast aftur, því kaffið kæmi til mín.

Sem það og gerði eftir stutta stund þegar afgreiðslukona kom með kolbikasvart kaffið og lagði á borðið fyrir framan mig.
-Gjössovel!
-Takk, get ég fengið mjólk?
Sárasaklaus spurning svo ég átti von á sáraeinföldu svari sem lét á sér standa.
-Mjólkin er sko þarna hinu megin, svaraði kvendið og benti með vísifingri þvert yfir staðinn. Þar grillti í borð þar sem drifhvít mjólkurkanna stóð á bakka
-Ó. Á ég þá að fara með bollann minn sjálf þangað og sækja mér mjólk?
-Já! Nema að ég geri það fyrir þig, en þá væri ég að veita þér alveg sérstaka þjónustu.

...

Ég var alveg hlessa, eins og gefur að skilja. Í alvöru, síðan hvenær telst það til sérstakrar þjónustu að fá mjólk í kaffið á kaffihúsi? Alveg undrandi sagðist ég myndi þiggja þá sérstöku þjónustu með þökkum. Hin sérlega þjónustulundaða kaffimær skautaði því næst bak við afgreiðsluborð og leit ekki einu sinni í áttina að mjólkurkönnunni minni.

Huh!

Ekki leið á löngu þar til ég áttaði mig á því að mjólkurmeyjan mín væri horfin að eilífu. Búin að gleyma mér og þeirri sérstöku þjónustu sem hún bauðst til að veita mér. Ég þurfti því að yfirgefa umsetna borðið mitt í annað sinn og fikra mig með kaffibollann í gegnum þvöguna í átt að mjólkurkönnunni. Næstum búin að detta tvisvar og hella innihaldinu yfir gesti og gangandi, enda er ég ekki þjálfaður kaffibaristi og höndla illa svona jafnvægisæfingar.

Einhverra hluta vegna var kaffið ekki mjög heitt þegar ég loks komst til að drekka það.


þriðjudagur, 26. ágúst 2014

Forréttindafólk

Á Kirkjubrautinni rétt í þessu:

Fimm mínútum fyrr:
"Hei krakkar, við þurfum aðeins að skjótast"
Hehe :)

þriðjudagur, 22. júlí 2014

Eitt sinn skáti

Litla lambið mitt, sólargeislinn minn sem er ekki nema 10 ára, er nú móðurlaus norður í landi í viku. Heila viku!

Það er því aldeilis ástandið á heimilinu, eins og gefur að skilja, því móðurhjartað er við það að gefa sig af söknuði. Ég get ekki heilli á mér tekið, ráfa hér um gólf og er bara alveg ómöguleg. Og bölvandi. Bölvandi þeim degi sem ég skráði hana í skátana, vitandi það að einn daginn færi hún á Landsmót og myndi skemmta sér dátt. Án mömmu sinnar!
Hún tók sig vel út með bakpokan, sáralítill
farangur sem móðir hennar lét hana taka með. 
Aukabakpokinn er ekki á myndinni...
Blessuð perlan, alveg að bugast!
En ekki hætti hún við, onei.

Allt voða vel merkt skal ég segja ykkur, alveg
niður í smæstu einingu. Sokkar og allt.

Galdurinn er: LOFTTÆMING
Ekkert of yfirdrifið, nei, nei...

Sjá hvað hún virkar eitthvað smá
svona í samanburðinum...
Það er mjög erfitt að pakka í vikuferðalag 10 ára barns, þegar maður fer ekki sjálfur með. Ég meina það, þetta er alveg örugglega eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera. Hvað ef það verður sól allan tímann? Þá þarf hún að taka með sér sólarvörn, þægileg létt föt, flugnanet. Svona basic. En hvað ef það rignir allan tímann? Þá þarf hún að taka með sér 14 pör af sokkum, þurr föt að fara í á hverjum degi og regnföt. Svo er hún með excem/þarf að hafa með sér krem, sítt hár/þarf að hafa hárbursta, sjampó og hárnæringu, kuldaskræfa/þarf að hafa teppi og nóg af hlýjum fötum.

Dæs...

Svo þegar hún var komin með þetta allt saman í bakpokann og meira til, fannst mér alls ekki nóg komið og bætti við öðrum bakpoka sem hún þarf að bera framan á sér. Ekki hef ég þó áhyggjur af burðinum, hún þarf bara að bera þetta frá bílastæðinu og sirka 200 metra að tjaldinu. Getur bara farið tvær ferðir.

Hún lagði í hann til Akureyrar seinnipartinn á sunnudaginn, fékk bílfar með nokkrum öðrum skátum. Þó ekki fyrr en hún var búin að skrifa þetta á vegginn sinn á Facebook:
Akkúrat þarna, þegar ég var að lesa þetta á meðan
Sólin sat úti að bíða eftir farinu sínu féllu tár.
Ég meina það, þessi manneskja er kostuleg! Enda

tek ég ekki upp "strauja dótaríið" fyrir hvern sem er :)
Þegar hún lagði í hann norður vorum við nýkomin frá ættarmóti í Vestmannaeyjum, fengum bara 5 tíma nætursvefn, nýsigld með Herjólfi og búin að keyra í þrjá tíma frá Landeyjahöfn á Akranes. Svo tók við hjá henni akstur frá Akranesi til Akureyrar þar sem hún lenti beint á balli með Páli Óskari.

Þegar hún hringdi svo í mig hágrátandi um miðnættið á sunnudagskvöld og sagðist vilja koma heim kvarnaðist aðeins úr móðurhjartanu. Sver það, ég felldi tár! Var alveg til í að skutlast norður og sækja barnið.

Nema ég var komin í náttfötin og svona. Ég talaði hana því til, róaði hana niður, tjáði henni ævarandi ást mína og taldi henni trú um að móðursýki hennar væri þreytumerki. Hún væri haldin ofsaþreytu eftir helgina og allt yrði betra á morgun eftir góðan svefn.

Eftir að við kvöddumst sallarólegar horfði ég lengi vel stíft á símann og óskaði þess að hann hringdi einu sinni enn. Bara einu sinni! Þá færi ég med det samme af stað til Akureyrar að sækja ljúfuna mína. Á náttfötunum einum klæða. En síminn hringdi ekki meir það kvöldið.

Skátinn hringdi hins vegar ofsakátur morguninn eftir og allt annað í henni hljóðið, fjárakornið sem betur fer. Sólin skein víst og allt svo bjart og fallegt. Hef ekki heyrt frá henni síðan! Hvernig hefur hún það? Er gaman? Er hún búin að kynnast einhverjum krökkum? Hvað eru súrringar? Er hún með nóg af hreinum nærfötum? Fær hún eitthvað að borða þarna? Hvað eru súrringar? Svo margar spurningar, en lítið um svör. Ég veit það eitt að ég get varla beðið til föstudags, þá leggjum við af stað norður strax eftir vinnu að sækja hana, held það verði unaðslegt!!


miðvikudagur, 16. júlí 2014

Taska, taska


Ég er ekki alveg búin að taka upp úr öllum töskum ennþá, enda er það ofsalega mikið verk eftir svona langt sumarfrí og allt of mikið til að hægt sé að ljúka því í einni atrennu. Þessari tösku hef ég hugsað mér að leyfa bara að vera. Ég meina, það gæti brostið á sólskin hvað úr hverju og þá er ekkert verra að vera tilbúin. Geta gripið með sér þessa elsku á leiðinni út á pall!

Þetta er semsagt botninn á sund- snyrti- og sólbaðstöskunni minni sem fylgir mér hvert sem ég fer. Eins og sést gerði Nivea gott mót þegar ég fyllti á birgðirnar í vor, enginn samdráttur í sölu sólaráburðs getur mögulega verið frá mér kominn.

Ég ætti nú samt alveg gengið frá nefspreyinu, enda harla ólíklegt að ég fá annað heiftarlegt kvef. Ekki í þessum mánuði alla vega, eitt kvef í júlí er nóg.


sunnudagur, 13. júlí 2014

Sulta í sjósundi

Að loknu sex vikna viðstöðulausu sumarfríi er ótal margs að minnast og það liggur við að mér vökni um augun af einskærri tilfinningasemi þegar ég lít til baka og rifja upp allar þær ómetanlegu minningar sem við fjölskyldan eigum eftir þetta sumar. Svona er maður nú mjúkur innan í sér, þótt það sjáist ekki utan frá.

Ég verð þó að játa að eftir hið ljúfa líf síðustu sex vikna er aðeins farið að örla á efnislegum mjúkleika hjá mér, af þeim toga sem er aldeilis sjáanlegur utan frá. Svona sultukenndum hjúp sem ég er aldeilis ekki vön. Já ekki ber á öðru, ég hef víst hlaupið í spik í sumarfríinu!

Ég fattaði þetta bara núna í kvöld þegar ég var búin að ganga frá farangrinum eftir síðustu útilegu og ætlaði að beygja mig eftir óhreina tauinu og gat það hreinlega ekki. Hnén rákust ítrekað í bumbuna og það gerði mér algerlega ókleift að halda áfram vinnu minni við þvottastampinn. Svo ég tróð mér í hlaupagallann (með smá erfiðismunum, enda hef ég lítið umgengist hann í sumar), og trimmaði aðeins í mildu sumarkvöldinu.
Trimmið varði heila fjóra kílómetra alls
og ég finn strax mun á mér, alveg satt.
Þar sem ég hljóp meðfram Langasandinum sá ég mér til mikillar ánægju að það var stórstraumsflóð. Sem eru eins og allir sjósundsgarpar vita kjöraðstæður til sjósundsiðkunar. Þegar ég kom heim (ekki vitund móð og másandi, heldur bara nokkuð hress) fann ég því fyrir óstjórnlegri þörf til að demba mér út í Atlandshafið og kæla mig aðeins niður. Klæddi ég mig því í sjósundbolinn minn (já, ég á sérstakan sundbol til þess arna), vafði um mig handklæði og tölti niður að sjó.

Girnilegt ekki satt?
Mikið sem ég er nú heppin að búa örskammt frá hafinu, þá eru einungis sárafáir nágrannar sem sjá til mín þegar ég er að striplast þetta. Allavega, hafið leit djúsí út og ég stóðst ekki mátið, óð útí alveg kafsveitt eftir hlaupið, og setti stefnuna á sjóndeildarhringinn. Æðarfuglinn úaði í flæðarmálinu og mávarir hnituðu hringi yfir höfði mér. Allt eins og best verður á kosið. Það var þá sem ég leit í kringum mig í sjónum og tók eftir innihaldi hans. Ég var ekki það eina sem flaut þarna, heldur ýmislegt annað sem stórstreymsflóðið hafði fundið í flæðarmálinu: þari í massavís, marglyttur, plastagnir og alls konar óhreinindi. Það var þó ekki fyrr en ég sá klósettpappírinn að ég sneri ég við og synti í land!

Ég veit ekki hversu vel þetta sést á myndinni, en ég syndi í gegnum nokkrar svona flekki af þara og rusli áður en ég áttaði mig og hætti að hlusta á æðarfuglinn og mæna dreymandi á sjóndeildarahringinn.

Eftir rosalega langa sturtu og hálfan brúsa af sápu er ég loks tekin til við þvottafjallið á nýjan leik. Sjósundbolurinn er einmitt í þvottavélinni núna. Ég reyndi samt að skola það mesta af honum fyrst, svo ekkert stíflist...

miðvikudagur, 2. júlí 2014

Kóróna dagsins

Sólin mín með kórónu dagsins
Þessi prinsessa ætti að fá að bera kórónu á hverjum degi, en því miður fæst mamman ekki til þess arna nema á rigningardögum eins og í dag. Kóróna dagsins tókst alveg með ágætum og er alveg til þess fallin að kóróna daginn ef út í það er farið.

Nema ég skottist út í búð og kaupi rjóma! Þá gæti ég búið til Salt-karamellu-mocha og heldur betur kórónað daginn með því að setja tærnar upp í loft og sötra það með hljóðum og allt. Umhummm, nú langar mig ekki í neitt annað...

þriðjudagur, 1. júlí 2014

Að loknu bloggátaki

Þar kom að því. Bloggátakið hefur runnið sitt skeið, og mér tókst ætlunarverkið: að setja inn daglegar bloggfærslur í júní-mánuði. Til hamingju ég! Ein óviðráðanleg undantekning varð reyndar þegar ég var netlaus í eyðidal og gat ekki sent færsluna inn þótt ég hafi nú skrifað hana á réttum degi.

Ég er voða ánægð með mig, en jafnframt fegin að þessu átaki er lokið því nú get ég bloggað þegar mig lystir. Mig grunar að þótt þeim muni fækka talsvert frá liðnum mánuði, verði meira varið í hverja færslu því þær hafa nú verið ansi þunnar í júnímánuði, kannski mynd og nokkrar setningar til að uppfylla kvótann. Ef til vill er blogg eins og vatn í potti á suðuhellu. Ef [eldabuskan/bloggarinn] er stöðugt að [taka lokið af/setja inn smáfærslur] þá er minni kraftur í [suðunni/blogginu]. En ef [eldabuskan/bloggarinn] [lætur lokið vera á/bloggar ekki neitt], þá kemur að því að það [sýður upp úr af miklum krafti/kemur rosalega löng og innihaldsrík bloggfærsla]. Er þetta ekki bara nokkuð góð samlíking hjá mér? 

Annars er rokið og rigningin komið til landsins, og eins og allir vita er það pottþétt veður fyrir hressandi útihlaup. Sem er einmitt það sem við Tóti gerðum áðan, með herkjum þó, þar sem við erum undirlögð í harðsperrum eftir helgina. Fyrir það fyrsta þá vaknaði ég fyrir allar aldir í Hveragerði á laugardagsmorgun til að mæta í Zumbatíma kl. hálf-níu (með stelpunum sko, Tóti var ekki með í því). Seinna um daginn spiluðum við svo fótbolta alveg þar til ég þurfti að hætta leik vegna íþróttameiðsla. Þetta hefur hreinlega verið of mikið af því góða, því bæði höfum við verið ansi stirð og aum það sem af er viku.

Svo er greinilegt að eftir ansi hitaeiningaríkan og notalegan mánuð að meiri hreyfing þarf að komast á dagskrána. Núna er ég ekki með neitt hlaupaprógram í gangi eins og hefur verið undanfarin sumur og það munar alveg um það þegar maður sullar í grillmat og súkkulaði alla daga! Þess vegna datt mér í hug, þar sem ég sat fyrir framan tölvuna með kaffið mitt í morgun, hvort eg ætti ekki að rifja upp kynni mín af Billy Blanks, stórvini mínum sem ég kynntist í fæðingarorlofinu árið 2001:
Þetta myndband er eitt af mörgum sem ég fékk lánað á VHS-spólum á þeim tíma. Þetta er ekki grín! Tae Bo Billy var einkaþjálfarinn minn og saman náðum við góðum árangri heima í stofu. Það er hægt að eyða rigningardögum í margt vitlausara en þetta skal ég segja ykkur!

mánudagur, 30. júní 2014

Mánudagur

Færsluna í gær skrifaði ég áður en ég las þessa frétt hérna. Og ég var að djóka með þetta "það er ekki til vont veður"-dæmi, bara létt grín sem ég skellti svona fram meðan kvöldsólin skein svo bjart í andlitið á mér þar sem ég sat í bílnum á leið til Hvammstanga og skrifaði bloggfærslu gærdagsins.

Við vöknuðum í rigningu á Hvammstanga í morgun og lásum fréttir dagsins um yfirvofandi lægðagang vikunnar með tilheyrandi úrkomu, roki og vatnavöxtum og ákváðum að pakka saman og fara heim. Einn dagur í rigningu er fínn, tveir sleppa alveg. En útilega í viku rigningu, ómögulega takk! Ég hljóp um tjaldsvæðið á Hvammstanga um hádegisbil í dag þegar fyrir lá að ferðaveður yrði afleitt í vikunni, og leitaði að túristum sem ég ætlaði að bjarga með því að segja þeim fréttirnar. Fann bara enga túrista, þeir vakna klukkan fimm á morgnana og koma sér af stað og ég næ sjaldan að sjá þá þar sem ég sef á mínu græna til svona níu. Eða ellefu! Ég vona bara að einhver vilji vera svo vænn að koma því til skila til túristanna sem ekki lesa veðurfréttir að hæla vel niður tjöldin og setja aukastög á tjaldhimininn, því þetta verður víst rosalegt.

Annars eyddum við helginni í góðra vina hópi í Hveragerði. Þetta var mjög vel heppnuð ferð, 12 vinir með 12 börn í 6 fellihýsum og stuðið eftir því. Sá helmingur hópsins sem er í sumarfríi hélt svo áfram til Hvammstanga í gær og var ætlunin að túra um Norðurlandið í vikutíma eða svo, en öll erum við þó komin heim núna út af þessu með veðurspána. Svona er þetta stundum og þrátt fyrir að ég hefði viljað halda áfram er ég aldeilis þakklát fyrir yndislegt sumarfrí, við höfum verið 23 nætur í fellihýsinu það sem af er sumri og júní bara rétt búinn.

Það eru einungis tvær vikur eftir af sumarfríinu og mér finnst ég verði að nýta þær til hins ýtrasta svo ég vona að við komumst af stað aftur sem fyrst. Ég hef grun um að það verði fljótlega, enda er ekkert að veðri núna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Útsýnið frá skrifstofuglugganum núna kl. 23:00. Bjart og
fallegt veður. Eitthvað skuggaleg skýin þarna í fjarska samt...


sunnudagur, 29. júní 2014

Sunnudagur

Eftir ljúfa helgi í Hveragerði erum við nú á leið norður í land, svona til að ljúka við hringferðina norðan megin frá. Veðurspáin er þó ekki allt of góð, djúp lægð á leið upp að landinu og við munum því líklega þurfa að taka upp regnfötin fyrr en varir. Við höldum þó ótrauð áfram, látum ekki slæma spá trufla okkur. Það er nefnilega ekki til neitt sem heitir slæmt veður, bara illa klætt fólk.
Tjaldborgin í Hveragerði

Brosandi bloggari á leið á Hvammstanga

laugardagur, 28. júní 2014

Ný dýfa

Nýr staður, ný dýfa.
Varmá er réttnefni, hylurinn er með þeim hlýrri sem við höfum kynnst í sumar.

föstudagur, 27. júní 2014

Gullbrúðkaup

Þessi sómahjón eiga gullbrúðkaup í dag, 50 ára ást sem hefur borið ríkulegan ávöxt því þau státa af sjö börnum, nítján barnabörnum og einu barnabarnabarni. Af því tilefni buðu þau hjörðinni sinni til veislu á Primo. Mikið sem ég er þakklát fyrir að eiga þau að!


fimmtudagur, 26. júní 2014

Slátur dagsins

Æ, ég gleymdi bloggátakinu þar til núna rétt í þessu, svo mynd af slátri dagsins verður látin nægja í þetta sinn!
Góða nótt, það er von á almennilegri færslu á morgun :)

miðvikudagur, 25. júní 2014

Næring kvöldsins

Þá er komið að annars konar næringu. En áður en lestur hefst á þessari færslu vil ég biðja þig lesandi góður að smella á þennan hlekk hérna og skoða myndirnar sem fylgja þeirri færslu. Þarna er sem sagt uppskrift að kvöldmatnum okkar á E9 í kvöld. 

Upphaflega átti þessi færsla að fjalla um það hvernig myndir geta oft blekkt neytandann og gefa alls ekki rétta mynd af vörunni. Hver kannast ekki við að standa fyrir framan afgreiðsluborðið í sjoppunni og skoða myndir af matseðlinum á risavöxnu myndaspjaldi fyrir framan sig. Velja sér stóran feitan hamborgara stútfullan af grænmeti, löðrandi í sósu og með svo mikið af osti að hann tollir ekki á sentimeters þykku buffinu og lekur niður á diskinn á afar girnilegan hátt. Omminomminomm, hver vill ekki svoleiðis. Síðan er kallað: "Hundaðogsjö", og fram kemur agnarsmár barnaborgari með tómatsósu og einu kálblaði. Ekki eins og á myndinni sem sagt.

Ég var því efins þegar ég hófst handa við "Ofnbakaðan þorsk með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu" og hugðist með myndatöku sanna hið fornkveðna: að myndir af söluvöru eru alltaf girnilegri en söluvaran sjálf. En ég verð víst bara að éta þetta ofan í mig, fiskurinn var jafn fallegur og á myndunum sem fylgdu uppskriftinni og ekki spillir að hann var líka einstaklega bragðgóður. Mér tókst meira að segja að ná sæmilegum myndum af eldamennsku kvöldsins, bon appétit!

Sætkartöflumúsin mallar í pottinum

Þorskurinn bíður spenntur með
fallegt pistasíusalsa á toppnum

Heimilismatur sem hægt væri að bera
fram á fínasta veitingahúsi

þriðjudagur, 24. júní 2014

Næring dagsins

Ég hef í gegnum naflaskoðun síðustu missera gert margar löngu þarfar uppgötvanir. Ein er sú að ég er margskipt og persónuleiki minn á sér margar hliðar sem öllum þarf að sinna. Ég er til dæmis náttúrubarn og þarf að komast í tæri við náttúruna og næra þann hluta reglulega, annars líður mér afar illa. Helst þarf að vökva náttúrubarnið í köldum hyljum og fossum, það endist langbest! Svo er ég líka skipulagsfrík með fullkomnunaráráttu og fríkið þarf sína næringu. Einnig er ég skúffuskáld og laumurithöfundur og þarf því reglulega að setjast niður við skriftir, annars verð ég skapstygg og vansæl (halló Boggublogg!). Svo er ég líka að springa úr tónlist og þarf bæði að skapa og njóta hennar reglulega. Ef ég finn fyrir óróleika, þá er pottþétt að ég hef ekki sinnt öllum hliðum persónuleikans míns og um leið og ég leysi úr því þá færist yfir mig friður og ró. Í alvöru þetta er svona einfalt!

Eftir alla útivistina sem ég hef notið í mánuðinum er náttúrubarnið í mér hæstánægt. Bloggmarkmið mánaðarins var til þess gert að næra skrifandann í mér og hann er sáttur núna. En tónlistin hefur setið á hakanum undanfarið, kórinn í sumarfríi og þannig. Það var því kærkomið að hitta Stúkurnar mínar í kvöld eftir hálfs árs æfingahlé. Hléið var ekkert planað, við erum bara venjulegar önnum kafnar konur í skóla og vinnu og víkingum sem fundu loksins tíma til að hittast. Á þessari kvöldstund tókst okkur að útsetja nýtt lag og til að muna raddirnar okkar næst þegar við hittumst (sem verður fljótlega!), þá tókum við lagið upp eins og sjá má:


Og þá er komið að erfiðasta hlutanum: skipulagsfríkinu! Mér finnst alltaf erfiðast að halda fríkinu sáttu, því fríkið passar svo afskaplega illa við hina hlutana. Hvernig getur maður verið skapandi, en samt með allt skipulagt og fullkomið? Innra með mér er því eilíf togstreita. Þetta er svona eins og að eiga fjögur börn sem ekki kemur sérlega vel saman og ef eitt systkinið fær meira en annað, þá verður allt vitlaust á heimilinu. Oft hef ég reynt að vefa skipulagið inn í annað sem ég geri. Þegar ég skrifa, geri ég það yfirleitt mjög skipulega og er búin að skipuleggja skrifin vel fram í tímann (halló Boggublogg!). En stundum dugir það ekki til, og núna þegar sumarfríið mitt er hálfnað og allt laust í reipunum þá öskrar fríkið.

Það er því gott að geta sagt að ég er heldur betur með verkefni á prjónunum fyrir fríkið! Jafnvel að framundan sé annað átak hjá lotufíklinum sérsniðið fyrir skipulagsfríkið. Meira um það síðar :)

mánudagur, 23. júní 2014

Sjálfa

Ég er ekki alveg búin að ná áttum eftir heimkomuna og veit ekkert um hvað ég á að skrifa. Og deginum eyddi ég í baráttu við þvottafjallið, þannig að um það er takmarkað að skrifa. 

Svo hér er sjálfa af mér og geit. Þessi fallega frauka vildi ólm kyssa mig um daginn og bað mig af því tilefni að taka sjálfu af okkur.
Geitasjálfa

Ég á mikið af sjálfum eftir útileguna okkar og sjálfur eru í sjálfu sér gott efni í myndaröð. Kannski sjálfur verði bara innihald bloggs dagsins, út af þessu þarna með þvottinn, get ekki meira af þvotti í bili!
Hálendissjálfa

Hópsjálfa

Dalatangasjálfa

Snjósjálfa

Dúdsjálfa

Göngusjálfa

FjölskyldusjálfaHvar-er-takkinn-sjálfa 
Mæðgnasjálfa

Ástarsjálfa
Eru ekki annars allir farnir að þrælfíla orðið sjálfa? Finnst það einstaklega þjált og þegar maður fer að nota það hversdags, þá er það fljótt að verða að vana. Sjálf man ég ekki einu sinni hvað þetta var kallað áður!