mánudagur, 18. maí 2015

Sólarkveðja

Sólin gerir allt svo fallegt :)
Við fjölskyldan erum í fríi þessa dagana,  og sleikjum sólina á meginlandi Evrópu. Sett inn fréttir þegar netsamband tollir.

sunnudagur, 10. maí 2015

Gleði og sorg á E9

Það er komið að því að setja nokkur orð í glugga. Undanfarinn mánuður hefur verið sérlega annasamur og falið í sér ómælda hamingju og djúpa sorg, mikið álag á köflum en notalegan frið inni á milli. Ég held þessi mánuður fari langt með að toppa flest annað.

Fyrst ber að nefna ferminguna hans Björgvins. Hún gekk eins og í sögu, mikil gleði og hamingja á þeim degi eftir að allt skipulagið í kringum þann viðburð gekk upp og allt fór eins og það átti að fara. Og það þrátt fyrir tilraunir húsbandsins til að eyðileggja það með framkvæmdum rétt fyrir fermingu! Jú, hann þurfti að setja innihurðirnar, sem beðið hafa innpakkaðar inni í bílskúr í nokkur ár, á sinn stað á þessum tímapunkti. En allt gekk upp að lokum. Sem betur fer. Hans vegna.

Tóta finnst SVONA gaman að skipta um innihurðir!

Björgvin barn bíður þess að fullorðnast
Þá knúði sorgin dyra. Við vissum alveg að þessi dagur nálgaðist, því fyrir jól varð Neró okkar veikur. Hann hóstaði stöðugt og varð voðalega skrýtinn allur, úr annarri nösinni rann hor og úr auganu á sömu hlið runnu stanslausar stírur. Hann fór margsinnis til dýralæknis og eftir myndatökur varð niðurstaðan var sú að hann var með æxli í höfðinu sem fór stækkandi. Nokkrar tennur voru teknar í desember, þær létu undan þrýstingi frá æxlinu sjálfsagt. Og svo bara versnaði honum greyinu, horið og stírurnar urðu blóðlitaðar og hóstinn ágerðist. Við fengum alls konar lyf fyrir hann. Sýklalyf, lyf gegn bakflæði, bólgueyðandi, þvagræsandi, verkjastillandi. En allt kom fyrir ekki og í mars var hann orðinn svo slæmur að hann þurfti stanslaust að vera á verkjalyfjum. Annars fékk hann störuköst, varð sloj og svaf allan daginn.


 Þar sem við gátum ekki hugsað okkur að vakna kannski eina nóttina við vælið í honum þegar æxlið þrýsti sér lengra inn í höfuðið á honum, eða eitthvað slíkt, þá þurftum við að taka þá óþolandi ákvörðun að leyfa honum að deyja.
Síðasta myndin sem ég tók af Neró mínum
Krakkarnir höfðu vitneskju um stöðuna allan tímann, og ég er viss um að það deyfði höggið aðeins. Við vissum öll sem var, að tími hans var á þrotum og gátum nýtt síðustu mánuðina með honum til hins ýtrasta. Hann dó 17. apríl, fjórum vikum fyrir 13 ára afmælið sitt og er jarðaður í garðinum hérna heima, svo við getum alltaf vitjað hans þegar við þurfum.

Það er óneitanlega skrýtið líf að vera svona hundlaus. Alveg ómögulegt líf ef satt skal segja. Ég sakna hans sárt, oft á dag, og gleymi því iðulega að hann sé farinn. Vakna á morgnana og ætla að hleypa honum inn, en enginn frammi og allt slökkt. Kem heim úr vinnunni og held í smástund að hann sé að koma og fagna mér, en allt hljótt og enginn 30 kílóa bangsi að koma spólandi á klónum eftir parketinu. Úff maður, þetta er sárt.

Ég er mjög stolt af krökkunum og hvernig þau standa sig í þessu erfiða ferli. Þau eru svo klár og þroskuð að ég er hreinlega agndofa yfir því hvernig þau vinna úr þessu. Og stolt, mjög stolt. Við erum öll betra fólk eftir að hafa fengið að hafa Neró þennan tíma og ó svo þakklát fyrir öll þessi ár með honum.