föstudagur, 8. nóvember 2013

Mánaðarskammtur

Sólsetur á Breiðinni í gær kl. 16:48
Ekki fá áfall, en hér kemur ein færsla frá bloggara sem lifir í öðru tímabelti en aðrir jarðarbúar... sver það, það getur alls ekki verið kominn mánuður frá því ég var í hlaupatúr að pára síðustu færslu! En alla vega, tíminn hefur liðið hratt þetta haustið, enda er mjög mikið að gera hjá okkur öllum. Við stöldrum samt við öðru hverju og njótum, en ég gleymdi bara að skrifa um það í mánuð, sorrý framtíðar-ég sem elskar að lesa gamlar færslur!

Þennan mánuðinn er margt og mikið búið að gerast, við fórum í Húsafell í vetrarfríinu okkar (við Tóti tókum líka frí, þvílíkur lúxus!). Svo átti Sólin auðvitað afmæli, orðin 10 ára þessi elska. Hún hélt afmælispartý fyrir bekkjarfélagana og svo annað fyrir fjölskylduna, allt með nokkuð hefðbundnu sniði. Við erum búin að fara á töfrasýningu hjá Einari Mikael, við hjónin fórum í bíó að sjá Prisoners (frábær mynd, mæli með henni) og ég er búín að syngja þrjú gigg með Stúkunum (á Fellsenda, á Höfða og í Akranesvita).

Annars er líka búið að vera mikið að gera í skólanum, mörg stór skil afstaðin og meira framundan. Miðannarkrísan mætti á svæðið upp úr miðjum október, með tilheyrandi sjálfsefa og tilgangsleysis-pælingum. Held ég hafi hrist hana af mér, og þarf að vinna slatta upp eftir hana. Ég hlakka mikið til þegar þessi vetur er búinn, kannski var pínu of snemmt að byrja á svona þungu námi strax, en þetta er þó ekki nema einn vetur. Ég finn mestan mun á því að það er erfitt að lifa í núinu þegar maður bætir fullu námi við allt sem fyrir var. Svo finn ég líka að þótt ég ætti nú aldeilis að vera vön að vera í fullu námi ofan á allt heila klabbið (halló 2002-2009) þá var miklu auðveldara að gera þetta þarna fyrir 10 árum. Ég eiginlega nenni ekki að standa í neinu svona auka núna! Auk þess sem ég skil alls ekki hvernig fólk getur einbeitt sér í námi nú til dags. Ég meina það, ef Facebook og snjallsímar hefðu verið til fyrir 10 árum, þá hefði ég aldrei náð að útskrifast úr grunnnámi...

En hvað um það, nokkrar myndir fyrir framtíðar-mig :)
Systkinin gera dúkinn kláran fyrir hrekkjavöku-afmælis-partý.
...svo fjölskyldan kæmi nú ekki syngjandi inn í vitlaust herbergi á sjálfan Afmælismorguninn mikla!
AfmælisSól! Trúi því varla að þessi brosmilda snót sé orðin 10 ára, elska hana endalaust og til baka <3 td="">
Afmælisveislan var haldin á sjálfan afmælisdaginn. Hrekkjavökuþema og 23 gestir mættu í búningum, verulegt stuð á E9 þann daginn.
Við Snorralaug í Reykholti
Húsafell!!
Heitt kakó og sykurpúðar, algert möst í útilegum og sumarbústaðarferðum.
Þetta er nú hlaupamynd úr Húsafelli. Þarna var ég að því komin að snúa við, enda komin upp að rótum Eiríksjökuls og vegurinn sagður ófær. En ég er svo mikill rebell að ég gaf í og spítti aðeins lengra áfram, ekkert að færðinni þegar maður er á góðum hlaupaskóm! Villtist svo í skóginum á leiðinni heim, en það er önnur saga...
Þessi  myndi heitir: "Villtur hlaupari kastar mæðinni"
Hollý-Hú í heita pottinum. Ljúfa líf, ljúfa líf :)

Krakkarnir eru byrjuð að spila Scrabble við mömmu gömlu. Hjúkket! Þarf aðeins að þjálfa þau betur, vonandi verður þetta fjölskyldusportið í framtíðinni - *krossaputta* -