mánudagur, 12. janúar 2015

Leifar jóla

Púff, hversu lengi geta jólin eiginlega leynst í skúffum og skápum heimilisins?

P.s. Nutella er hrikalega gott út á ís!

þriðjudagur, 6. janúar 2015

Kaldhefað

Orð dagsins er kaldhefað. Það held ég nú! Þá er að reyna að koma því fyrir í setningu:

Í gær hrærði ég saman í skál 500 gr fínu spelti, 50 gr heilhveiti, hnefa af sólblómafræjum, 1 tsk salti, 1 tsk þurrgeri, 500 ml af köldu vatni og 1 tsk af hunangi. Skálin eyddi nóttinni í ískápnum og ku deigið því vera kaldhefað. Í morgun sló ég deigið niður, skipti því í bollur á bökunarplötu, stráði sólblómafræjum yfir hverja og eina og bakaði við 220 °C í 20 mínútur. Í morgunsárið gæddum við krakkarnir okkur því á ylvolgum, kaldhefuðum rúnstykkjum með smjöri og osti. Fátt sem jafnast á við það þegar smjör bráðnar á ylvolgum bollum og lekur niður munnvikin, elskum það!

Sagan er enginn uppspuni og hér má sjá myndir því til sönnunar:
Þessi mynd er tekin að kvöldi 5. janúar 2015. Deig á leið í ískáp.

Þessi mynd er tekin árla morguns 6. janúar 2015. Bollur á leið í maga.
Annars er allt með kyrrum kjörum hér á bæ, Tóti lagði af stað í þriggja nátta túr í gærmorgun og við hin dundum okkur við að fá 8,5 út úr jólaprófum (tvær svoleiðis einkunnir komnar hjá mér, ein eftir), bollubakstur og slíkt á meðan. Og sjálfsagt jólaniðurrif, því í dag er þrettándinn og því vert að fara að huga að slíkum verkum. Ekki strax samt, ég er dauðþreytt eftir daginn. Hef sjálfsagt farið of snemma á fætur í morgun.

Í dag var fyrsti skóladagur eftir jólafrí hjá krökkunum eftir 17 daga jólafrí, hvorki meira né minna. Þau voru ekkert svo kríthvít eða mygluð þegar ég vakti þau í morgun. Nei, nei, alla vega ekki eftir að fregnir bárust af bollunum, þá ruku þau eldspræk á fætur. Því þetta telst víst til tíðinda, ekki aðeins að mamma þeirra hafi vaknað á undan þeim, heldur aldeilis búin að taka til hendinni!

Geisp, hvað ég er annars þreytt eftir daginn. Ætlaði að skrifa um áramótaáherslur og slíkt, en læt það bíða betri tíma því ég ætla að fleygja mér í sófann stundarkorn. Með bók kannski! 

Ljúfa líf sem þetta nú er :)
(Ath. Hér að ofan á að birtast broskall (emoticon). Blogger styður ekki svoleiðis skrípaleik, en ég er alltaf að læra meira um html. Með smá fikti birtist því núna þessi fyrsti broskall síðunnar, ómögulegt að skrifa texta án þess að hafa tækifæri til að setja inn broskalla!)

laugardagur, 3. janúar 2015

Svefnrof

Klukkan er hálftólf. Brakandi kalt og logn úti. Allir ennþá sofandi nema "árrisula" ég...
Spurning að vekja hina, reyna að rjúfa þennan stanslausa svefn sem hefur gripið okkur í jólafríinu?


föstudagur, 2. janúar 2015

Af bókum 2014

Þá er komið að stóra uppgjörinu, opinberun hins árlega bókhalds míns (meint kím). Lesnar bækur á árinu 2014 voru 18 talsins, eilítið fleiri en á árinu 2013 er ég las 13 bækur. Þannig að ég er sátt. Eins og áður inniheldur listinn aðeins yndislestur, skólabækur komast ekki á listann. Bækurnar eru þessar: 

 • Óreiða á striga e. Kristínu Marju Baldursdóttur
 • Stúlka með fingur e. Þórunni Valdimarsdóttur
 • Karitas án titils e. Kristínu Marju Baldursdóttur
 • Rigning í nóvember e. Auði Övu Ólafsdóttur
 • Undantekningin e. Auði Övu Ólafsdóttur.
 • Illska e. Eirík Örn Norðdahl
 • Auðnin e. Yrsu Sigurðardóttur
 • Upphækkuð jörð e. Auði Övu Ólafsdóttur
 • Dísusaga e. Vigdísi Grímsdóttur
 • Afleggjarinn e. Auði Övu Ólafsdóttur
 • Hvítfeld e. Kristínu Eiríksdóttur
 • Ljósa e. Kristínu Steinsdóttur
 • Fölsk nóta e. Ragnar Jónasson
 • Ég man þig e. Yrsu Sigurðardóttur
 • Dóttir beinagræðarans e. Amy Tan
 • Skuggasund e. Arnald Indriðason
 • Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf e.  Jonas Jonasson
 • Lygi e. Yrsu Sigurðardóttir

fimmtudagur, 1. janúar 2015

Árið - og allt það

 Þá hefur það runnið sitt skeið, árið 2014 með öllum sínum gæðum og gjöfum og ég óska lesendum gleði og gæfu á nýju ári og þakka samfylgdina á því liðna. Árið 2014 fór ósköp mildum höndum um okkur hér á E9, þrátt fyrir talsverðar sviptingar og aukið óöryggi, en ég myndi segja að við höfum tekið vel á því og allt stefnir í meiri formfestu á árinu 2015.

Tóti sagði upp vinnunni sinni í vor og fór að vinna sjálfstætt, keyrir ljósmyndara um landið okkar og sýnir þeim fegurðina sem í því býr. Enn sem komið er er þetta ekki fullt starf svo hann er líka að keyra fyrir aðra ferðaþjónustuaðila og að smíða, en þessi þrjú hlutastörf ganga samt ótrúlega vel og hann stendur sig frábærlega. Við þurftum að endurnýja bílaflota heimilisins út af þessu, seldum báða bílana og keyptum Patrol til fólksflutninga og núna rétt fyrir áramótin keyptum við líka lítinn gamlan Pusjó til að snattast á, enda ómögulegt að vera bíllaus þegar Tóti er í túr.

Sjálf hóf ég mastersnám í upplýsingafræði í haust og ætla að mjatla þá gráðu í rólegheitunum næstu árin, þetta á ansi vel við mig á alla kanta, bæði fyrir skipulagsfríkið með fullkomnunaráráttuna og grúskarann með sköpunargleðina.

Framundan eru merkilegt ár, því Vinurinn fermist þann 12. apríl og það er jú óneitanlega dálítið fullorðins að vera að fara að ferma (!) Svo ætlum við til Barcelona í vor og jafnvel eru fleiri utanlandsferðir á teikniborðinu svo þetta verður ævintýralegt ár.

Eins og venjulega ætla ég líka að vera dugleg að blogga reglulega, því þessi síða er ómetanleg heimild um líf okkar allra, sérstaklega fyrir mig sem kann að lesa milli línanna, hehehe :) Hér koma nokkrar myndir frá gærkvöldinu, sem við eyddum hér heima við sprengjugleði og glaum.

Sólin skemmti sér konunglega á gamlárskvöld
Systkinin með blys
Vinurinn er mikill áhugamaður um sprengjur og telur
gamlárskvöld vera skemmtilegasta kvöld ársins!
Spilað á nýársnótt