Í gær hrærði ég saman í skál 500 gr fínu spelti, 50 gr heilhveiti, hnefa af sólblómafræjum, 1 tsk salti, 1 tsk þurrgeri, 500 ml af köldu vatni og 1 tsk af hunangi. Skálin eyddi nóttinni í ískápnum og ku deigið því vera kaldhefað. Í morgun sló ég deigið niður, skipti því í bollur á bökunarplötu, stráði sólblómafræjum yfir hverja og eina og bakaði við 220 °C í 20 mínútur. Í morgunsárið gæddum við krakkarnir okkur því á ylvolgum, kaldhefuðum rúnstykkjum með smjöri og osti. Fátt sem jafnast á við það þegar smjör bráðnar á ylvolgum bollum og lekur niður munnvikin, elskum það!
Sagan er enginn uppspuni og hér má sjá myndir því til sönnunar:
Þessi mynd er tekin að kvöldi 5. janúar 2015. Deig á leið í ískáp. |
Þessi mynd er tekin árla morguns 6. janúar 2015. Bollur á leið í maga. |
Í dag var fyrsti skóladagur eftir jólafrí hjá krökkunum eftir 17 daga jólafrí, hvorki meira né minna. Þau voru ekkert svo kríthvít eða mygluð þegar ég vakti þau í morgun. Nei, nei, alla vega ekki eftir að fregnir bárust af bollunum, þá ruku þau eldspræk á fætur. Því þetta telst víst til tíðinda, ekki aðeins að mamma þeirra hafi vaknað á undan þeim, heldur aldeilis búin að taka til hendinni!
Geisp, hvað ég er annars þreytt eftir daginn. Ætlaði að skrifa um áramótaáherslur og slíkt, en læt það bíða betri tíma því ég ætla að fleygja mér í sófann stundarkorn. Með bók kannski!
Ljúfa líf sem þetta nú er :)
(Ath. Hér að ofan á að birtast broskall (emoticon). Blogger styður ekki svoleiðis skrípaleik, en ég er alltaf að læra meira um html. Með smá fikti birtist því núna þessi fyrsti broskall síðunnar, ómögulegt að skrifa texta án þess að hafa tækifæri til að setja inn broskalla!)
(Ath. Hér að ofan á að birtast broskall (emoticon). Blogger styður ekki svoleiðis skrípaleik, en ég er alltaf að læra meira um html. Með smá fikti birtist því núna þessi fyrsti broskall síðunnar, ómögulegt að skrifa texta án þess að hafa tækifæri til að setja inn broskalla!)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli