föstudagur, 28. desember 2012

Nice Capture...

Eftir kvöldmatinn skelltum við fjölskyldan okkur í bíltúr. Ferðinni var heitið á Flugeldasölu Björgunarsveitanna þar sem við styrktum þá aðeins. Svo tókum við smávegis rúnt um bæinn alla leið niður á Breið. Þar var ógurlega fallegt í kolniðamyrkri þar sem hundslappadrífan sveif þétt til jarðar. Vitinn lýsti upp snjódrífuna svoleiðis að við urðum agndofa.
"Ég vildi að ég væri með myndavélina", stundi ljósmyndarinn, horfði upp til vitans og hugsaði til 20 kílóa flykkisins sem sat heima á skrifborði. Hann nennir ekki alltaf að taka með sér þvi hún er svo fyrirferðarmikil.
"Ég er með mína", sagði bloggarinn og teygði sig eftir smáræðis sýnishorni af myndavél sem er ávallt geymt í veskinu.

Bloggarinn tók þessa fínu mynd, ekkert flass, á tíma (ljósopið haft opið lengur en blablabla). Hahaaa! Hún er kannski ekki alveg í fókus og ég þarf klárlega að fá mér þrífót, en ég get eftir sem áður tekið myndir á tíma! Ekki hafði ég hugmynd um það :) Jæja, farin að sprengja smávegis.

Nice capture =)

miðvikudagur, 26. desember 2012

Jóladagur

Jæja, ég druslaðist út í hlaup á sjálfan Jóladag! Ekki veitir af, það brakaði í mér allri þegar ég fór á fætur í morgun, ég hef verið svo löt að hreyfa mig undanfarið. Við Ágústa hlupum saman 5k hring um bæinn og vorum svakalega ánægðar með dugnaðinn. Aldeilis fínt að skella sér svo í hangikjöt til tengdó og belgja sig út af góðum mat.

Annars er það helst að frétta að í gær var Aðfangadagur! Við fjölskyldan voru heima, eins og venjulega, og iðkuðum okkar helgu og fastmótuðu siði með smá tvisti hér og þar, allt eins og það á að vera. Börn og fullorðnir voru afskaplega ánægðir með gjafir og kveðjur. Við gáfum krökkunum litlar spjaldtölvur sem þau eru í skýjunum með og vinurinn dreif saumavélina upp á borð í morgun og saumaði poka utan um þær, vantar bara smellur til að loka þeim og þá eru komnar fínustu spjaldtölvutöskur. Hann er bæði úrræðagóður og handlaginn drengurinn :)

Jólatréð skreytt á Þorláksmessukvöld

Sólin að hengja skraut á jólatréð

Skrautið á jólatrénu á sér oft sögu, Björgvin gerði nokkra kanil-leirmuni á leikskólanum þegar hann var 4ra ára. Þeir ilma ennþá yndislega og minna alltaf á jólin :)

Fallegu systkinin á E9 á árlegri jólamyndatöku eftir skreytinguna. Ég held að jólatréð fari minnkandi með hverju árinu!

Krúttleg :)

Það voru nú ekki margar myndir teknar á aðfangadagskvöld, við gleymdum okkur alveg í hugginu. Þarna erum við farin að spila um miðnæturbil og Sólin komin í kósígallann :*

Vinurinn kominn í bolinn frá Keilufélaginu, helsáttur við kvöldiðsunnudagur, 16. desember 2012

Piparkökuhús 2012

Hér á heimilinu hafa verið í gangi framkvæmdir sem tafið hafa ýmsan jólaundirbúning. En nú sér fyrir endann á því öllu saman og nýtt og betrumbætt heimili óðum að verða tilbúið fyrir jólin. Í dag var loksins ráðist í gerð Piparkökuhússins 2012. Við máluðum líka piparkökur í dag, heilmikill kósídagur hér á E9.
Krakkarnir gerðu sín piparkökuhús á 1. í aðventu, þau voru étin samdægurs! Best að setja líka inn myndir af þeim:

Svo gerðum við kertastjaka úr appelsínu og fengum okkur heitt kakó og engiferkökur, fátt sem jafnast á við það!fimmtudagur, 13. desember 2012

Frídagur


Ég ákvað að vera grand og taka út langþráðan frídag á morgun. Vil samt ekki að þetta fari allt saman í vitleysu og mun nota fríið á skipulegan og gáfulegan hátt. Gerði lista til öryggis, samt ekki til skipulagsfrík í mér...
Published with Blogger-droid v2.0.9

mánudagur, 10. desember 2012

Hlaupamynd

Það er kuldalegt um að litast þessa dagana, það er bara hressandi!

Published with Blogger-droid v2.0.9

miðvikudagur, 28. nóvember 2012

fimmtudagur, 25. október 2012

Afmælisstelpa

AfmælisSól
 
Elskuleg dóttir mín vaknaði 9 ára í morgun. Eins og sjá má var hún eiturhress og vel tilhöfð eins og venjulega klukkan sjö á morgnana, alltaf gaman að þessum afmælismyndum :)

Hún á líka eftir að elska mömmu sína þegar hún finnur þessa síðu á unglingsárum sínum og sér þessa mynd, múhahahaha!
 
Hér var fullt hús af stelpum í dag, 14 stykki mættu í svaka partý, tertuát, popp og bíó á stóra veggnum í stofunni. Ekkert slor. Daman var svo uppgefin eftir daginn að hún dreif sig upp í rúm kl. átta að kúra sig með bók, þessi elska!

mánudagur, 22. október 2012

Af hlaupum

Langt síðan ég hef skrifað um hlaup, best að skrifa aðeins um hlaup núna. Það misfórst nefnilega alveg að skrifa það hérna að ég hljóp hálft Reykjavíkurmaraþon í ágúst. Meira að segja á rétt undir tveimur tímum og er rosalega ánægð með það. Þetta var mikil upplifun, það er bara eitthvað við það að vera hluti af þessum svakalega fjölda hlaupara, ég hefði aldrei getað ímyndað mér hljóðið sem mörg þúsund strigaskór gefa frá sér við rásmarkið, notalegt más og fnæs alltumlykjandi alla leiðina. Hor og sviti hvert sem litið er. Að vera ítrekað alveg að gefast upp en halda samt áfram og ná settu markmiði. Gottúlovit! Ég stefni sko að því að fara aftur.


Ef það er eitthvað sem er ótrúlega leiðinlegt við hlaup þá er það að hlaupa alltaf sömu leiðina. Drepið mig ekki á Vesturgötunni eina ferðina enn, eða Garðabrautinni, úff. Þegar við förum út fyrir bæjarmörkin reyni ég því alltaf að taka hlaupaskóna með og mæti víðtækum skilningi fjölskyldumeðlima. T.d. lét ég þau henda mér út í Ólafsvík um Verslunarmannahelgina og ég hljóp á eftir bílnum alla leið á Hellissand. Börnunum mínum finnst þetta ekkert skrýtið núorðið: "Ég fer út hérna, sjáumst seinna!!".
Þegar við fórum til Danmerkur um páskana hljóp ég með elsku Kristínu í Århus og tók líka smá skrens í miðborg Kaupmannahafnar. Við erum búin að vera dugleg í sumarbústaðaferðum undanfarið og þá er fátt betra en að kanna nágrennið í smá hlaupi og skella sér síðan í pottinn. Við vorum einmitt að koma úr 5 daga bústaðaferð í vetrarfríinu og ég fór 4x út að hlaupa á meðan á henni stóð, dásamlegt!

Áramótaheiti mitt um maraþon á mánuði hefur elst nokkuð vel. Fyrir utan mars (þegar ég rifbeinsbrotnaði) og september (þegar ég var últra kvefuð) hef ég alltaf náð að hlaupa maraþon á mánuði og reyndar vel það. Svo ég held ótrauð áfram, bara gaman að því. Framundan eru suddalegir, kaldir og blautir mánuðir, en ég ætla samt að að halda þessu til streitu.

Písátlaugardagur, 20. október 2012

Hlaupamyndir?

Hlaupandi um landið þvert og endilangt, eins og ég hef verið að gera þetta árið (ehemm) hef ég séð marga ósköp fallega staði. Staði sem ég hef jafnvel áður keyrt framhjá án þess að stoppa og gefa nokkurn gaum.

Nú er ég í bústað á Suðurlandinu og þar sem ég var á harðahlaupum hér í grenndinni sá ég hvar vegurinn hafði verið lagður í sveig í kringum stóran hraundrjóla. Þarna var s.s. álfasteinn sem ekki hafði verið sprengdur í loft upp við vegagerðina heldur vegstæðinu breytt og vegurinn lagaður að umhverfinu. Mjög fallegt.

Ég get ekki stoppað í miðju hlaupi svo ég var á ferðinni þegar ég smellti mynd af dýrðinni með símanum mínum. Sólin skein svo fallega, haustlitirnir í algleymingi, fuglasöngur og Álfasteinn. Kemst þetta til skila? Myndir teknar á hlaupum eru skrýtnar, óskýrar, skakkar og sérstakar. Kannski þetta sé upphafið að nýrri myndaseríu?

Published with Blogger-droid v2.0.9

sunnudagur, 14. október 2012

Þetta er einfalt, ekki flókið

Stundum finnst mér lífið vera flókið og fullt af útúrdúrum. Get alveg sokkið ofan í minnstu smáatriði og sé ekki fram úr smávægilegustu vandamálum. Dagurinn minn getur verið helmingi erfiðari en hann þarf að vera, af því ég gef mér ákveðnar forsendur sem reynast svo rangar, legg of mikið á mig við það sem er ósköp einfalt og hryn ofan í djúpa forarpytti þegar auðvelda leiðin var fyrir framan mig allan tímann.

Þetta er einfalt, ekki flókið.
Þetta er einfalt, ekki flókið.
Þetta er einfalt, ekki flókið.

...Ahhhhh...

laugardagur, 13. október 2012

NaNoWriMo

Já, nóvember er á næsta leiti og það þýðir bara eitt: http://www.nanowrimo.org/en/dashboard
Og ég er búin að skrá mig! NEI, nú segi ég ekki meir...

mánudagur, 8. október 2012

Pyntingastofa Boggu

Frumburðurinn er aftur kominn með gat í eyrað, þökk sé frábærri þjónustu á Pyntingastofu Boggu. Ég veit ekki hvað hann er að kvarta, ég sem sprittaði allt í rot og deyfði með ís og alles...

Published with Blogger-droid v2.0.9

miðvikudagur, 12. september 2012

Ég er laukur

Um daginn komst ég mér til skelfingar að því að það sem ég hef hingað til talið greina mig frá öðru fólki er ekki lengur til staðar. Núna er ég s.s. bara eins og venjulegt fólk og verð að sigla lífsins sjó án þeirrar sérstöðu minnar sem ég hef hingað til flaggað mjög og haldið hátt á lofti.

Málið er að talsverðum fjölda minna sokkabandsára eyddi ég í sjoppuvinnu og held að mér sé óhætt að halda því fram að af minni löngu starfsævi hafi ég eytt um 7 árum við afgreiðslu í hinum ýmsu sjoppum landsins, á Flateyri, í Reykjavík og á Akranesi.

Þessi reynsla hjálpaði aldeilis til við ýmislegt þegar fram í sótti, en fyrir utan það hvað ég varð vellauðug af þessum störfum (ehemm) þá hef ég hingað til talið fram þann kost helstan að ég tárast aldrei þegar ég sker lauk. Alveg satt, þegar maður vinnur í 7 ár í sjoppum  þar sem seldar eru pulsur og þarf að saxa lauk á hverjum degi, þá hættir laukurinn smám saman að hafa áhrif. Maður verður ónæmur fyrir honum. Allar götur síðan hef ég s.s. getað saxað og kramið lauka upp við andlitið á mér án þess svo mikið sem að augnlokin á mér kippist til, hvað þá að ég bresti í grát.

Alveg þangað til um daginn. Þá var ég að saxa lauk í lasagnað mitt (sem ég skal setja inn uppskrift að síðar, gottúlovit!) þegar flóðgáttir tárakirtla minna opnuðust með hvelli, stíflan brast og uppistöðulónið í Táradal helltist fram Augnkróka og suður eftir Vöngum með miklum látum.

Þannig er nú það, ónæmið er horfið, ég er ekkert öðruvísi en annað fólk. Ég verð að viðurkenna ákveðið svekkelsi, en jafnframt er ég ánægð (eins og ég er alltaf þegar ég finn sannanir fyrir því að ég er eins og venjulegt fólk).

 "."."."."."."."."."."."."."."."."."

En að öðru þessu tengdu. Ég hef verið dugleg í naflaskoðuninni þetta árið, reyndar svo dugleg að það er efni í nokkra væntanlegar bloggfærslur ef eitthvað losnar um ritstífluna sem hrjáir mig þessa dagana.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er laukur!. Ég veit fyrir víst að ég er ekki hvítlaukur, heldur bara svona venjulegur lagskiptur laukur:

 • Utan um laukinn er hörð skel sem segir ekkert til um innihaldið
 • Innihaldið er lagskipt og alltaf þegar maður telur sig hafa komist að kjarna lauksins, er enn eitt lagið að finna þar undir
 • Innihaldið kryddar líf þeirra sem þess njóta
 • Það er aldrei að vita hvað leynist undir hverju lagi og það getur verið sárt að fletta lögunum ofan af, svo sárt að maður fer að gráta. 
Þú ert líka laukur, svo vertu ekki með neinn derring við mig :)

fimmtudagur, 16. ágúst 2012

Grænir fingur


Það er nóg um að vera í matjurtagarðinum þessa dagana :-)
Published with Blogger-droid v2.0.6

mánudagur, 21. maí 2012

Friður 2012


Hér má alltaf finna frið, sama hvaða stormur geisar í huganum. Sæla :-)

Published with Blogger-droid v2.0.4

sunnudagur, 29. apríl 2012

Seinna, seinna, kemst þetta í lag...

Um daginn ýjaði ég að því að seinna myndi að skrifa nokkur orð á þessu síðu. Sá dagur er s.s. runninn upp, bjartur og fagur. Ég ýjaði einnig að því að ætla að útskýra það rask sem varð á hlaupaprógraminu og það er best að gera það.

Málið er að fyrir um tveimur mánuðum tók ég ansi laglega dýfu á leið minni heim úr vinnu. Seinnipart þess dags hafði snjóað alveg upp úr þurru, eins og það var nú autt og indælt fram að hádegi, og ekkert sérstaklega skemmtilegt færi fyrir svona hjólreiðamann eins og mig. Já, ég var sem sagt á hjóli...
Á leið minni hafði ég hjólað fram hjá ýmsum fáförnum og mannlausum stöðum sem hefðu nú alveg verið betur til þess fallnir að taka dýfu á, en einhverra hluta vegna var mér ætlað að komast klakklaust næstum því alla leiðina heim og það var ekki fyrr en akkúrat fyrir utan heimavist Fjölbrautarskólans að mér var ætlað fallið. Og það ekkert smá!

Ég ætlaði af götunni upp á gangstétt þegar hjólinu snerist hugur og ákvað að vera bara á götunni. Það rann undan mér í snjónum, svona til hliðar, undurhægt og blíðlega. Mér gafst auðvitað nægur tími til að hugsa um lífið og tilveruna og svo í kjölfarið ákveða hvernig ég ætlaði að taka þessu falli. Fyrst var ég að hugsa um að taka fallegan kollhnís með dýfu, en þegar ég sá að fyrir utan heimavistina stóðu nokkrir framhaldsskólanemar í hnapp fór ég að spá í hvort það væri nægilega hipp og kúl svo ég hætti við. Það var þá sem upp fyrir mér rifjaðist smá brella sem Vinurinn hafði lært í Parkour-tíma og séð ástæðu til að kenna mömmu sinni: Break-fall!!

Svo þarna tók ég Break-fall eins og hefði ég aldrei gert annað, í þeim tilgangi að dreifa fallinu á allan líkamann, nema hvað olnboginn var eitthvað fyrir og rakst á bólakaf í rifjakassann. Að öðru leyti tókst brellan fullkomlega. Framhaldsskólanemarnir klöppuðu og allt. Ég náttúrulega stökk á fætur, dustaði af mér snjóinn og hjólaði brosandi áfram eins og ekkert væri.

Ég var samt kvalin í mánuð á eftir. Vont að anda, sofa, hreyfa sig, keyra, lyfta hlutum, hósta, hnerra... og vonlaust að hlaupa. Læknirinn sagði að ég hefði annað hvort brákað eða brotið rifbein. Hún gæti tekið röntgen-mynd til að fá úr því skorið, en fyrst ég væri ekki með beinflís í lungunum (sem hún hlustaði vandlega eftir) væri meðferðin sú sama við báðum greiningunum: engin. Svo ég sparaði heilbrigðiskerfinu þann kostnað með glöðu geði og harkaði þetta af mér í mánuð. Síðan gerðist það einn góðan veðurdag að verkurinn hvarf að fullu og ég bara orðin ég sjálf aftur. Eða þannig, það hefur neikvæð áhrif á mig ef ég kemst ekki í hlaupin mín og var þeirri stund því fegnust þegar ég komst aftur á ról.

Þetta var sem sagt sagan af hlaupalausa marsmánuðinum. Nú er apríl að verða búinn, maraþonið náðist 25. apríl í 8 hlaupum. Og ég er búin að skrá mig í Reykjavíkurmaraþonið 18. ágúst. Reyndar bara í hálfmaraþon, en það nægir mér í bili.

föstudagur, 16. mars 2012

fimmtudagur, 1. mars 2012

Febrúarhlaup

Það gleymdist alveg að setja inn hlaupatölur fyrir febrúarmánuð, en maraþoni þess mánaðar var náð þann 22. Svo hef ég bara ekkert hlaupið eftir það og mun útskýra það síðar.

Febrúar

 • Hlaupnir  kílómetrar: 46.17
 • Tími á hlaupum: 05:17:35
 • Fjöldi hlaupa: 9
 • Lengst hlaupið í einum spretti: 7.70 km
 • Lengsti tími á hlaupum:50:45

miðvikudagur, 29. febrúar 2012

Aukadagur

Í dag er svona aukadagur. Dagur sem reglulega kemur óvænt í fangið á okkur. Sumum til mikillar gleði, eins og þeim sem eru í tímaþröng og finnst vanta fleiri klst í sólarhringinn, en líka fyrir vinnuveitendur sem fá þarna aukalegt vinnuframlag frá starfsmönnum sínum án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir það (þá á ég auðvitað við fastlaunafólk). Öðrum til mikilla rauna, eins og þeim sem kláruðu launin sín fyrir löngu og bíða nú aukadag eftir útborgun.

Mér finnst að svona aukadagar eigi að vera til eigin ráðstöfunar, ekki til að eyða í vinnunni eða til að gera óþarfa leiðinlega hluti. Þannig verður þetta líka þegar ég kemst til valda, múhahaha!

sunnudagur, 26. febrúar 2012

Ljósmyndaferð

Eftir mikla setu undanfarið sökum þýðinga og yfirlesturs hafði ég hugsað mér til hreyfings í dag. Það var því vel þegið þegar Vinurinn bauð mér og Neró í ljósmyndagöngu seinnipartinn. Dásemdarveður, sól og næstum því vorlegt. Alveg þangað til heim var komið og það skall á með svartri rigningu og meððí. En það er önnur saga.

Alla vega var fallegt í fjörunni í dag.
Sný mér að þýðingum á ný,
Boggan

Spegilmynd

I´m the King of the World!!

Það getur verið fallegt um að litast inni í klettasprungum, þótt ekki láti þær mikið yfir sér í fyrstu.

Neró

þriðjudagur, 21. febrúar 2012

Öskudagur


Allt klárt fyrir öskudag :-)

Published with Blogger-droid v2.0.4

sunnudagur, 19. febrúar 2012

19. febrúar


Hádegisverðurinn á E9Published with Blogger-droid v2.0.4

miðvikudagur, 15. febrúar 2012

Hún á afmæli hún Guðrún!

En indæll dagur :o)

Það er nú ekki á hverjum degi að maður á afmæli en þó gerist það einu sinni á ári að maður tileinkar sér heilan dag af því tilefni.

Hápunktur dagsins var klárlega bókakynning sem ég fékk að halda fyrir bekkinn hennar Sólar í morgun. Ég mætti mjög spennt með bókina "Víst kann Lotta að hjóla", fékk að sitja í sögustólnum, sagði aðeins frá bókinni og las stuttan kafla úr henni fyrir 40 mjög áhugasöm 8 ára börn sem ég tel dóttur mína heppna að fá að eiga fyrir bekkjarfélaga, frábær hópur.

Það kom fljótlega í ljós að í bekknum eru eintómir bókmenntafræðingar sem hreinlega grilluðu mig þegar ég opnaði fyrir spurningar!

"Hver teiknaði myndirnar í bókinni?"
"Hvað eru margar blaðsíður í bókinni?"
"Hvernig finnst þér letrið vera?"
"Hvað gerðist svo?"
"Hvenær var bókin gefin út?"
"Af hverju valdir þú þessa bók?"
"Af hverju er bókin græn?"
"Átt þú þessa bók?"
"Hvar keyptir þú hana?"
"Hefur þú lesið hana fyrir Sól?"
"Hversu oft?"
"Hver er uppáhaldsblaðsíðan þín í bókinni?"

Ég náttúrulega reyndi að svara eftir bestu getu, en leið þarna um tíma eins og steik á grilli. Dásamlegir, gáfaðir og sniðugir krakkar alveg hreint!

Svo kom upp úr dúrnum að allir vissu að ég ætti afmæli og þau vildu syngja fyrir mig afmælissönginn. Flott mál :o)
Og þau byrjuðu: Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag. Hún á afmæli hún.....
...þegar hér var komið sögu rann upp fyrir sumum að þeir mundu ekki nafnið mitt og þögnuðu...
...aðrir mundu betur og sungu Bjööörg...
...enn aðrir sungu Guðrún... af því það var mamman sem var með bókakynningu í síðustu viku!
...ooog svo kom eitt hátt og skýrt Mammmmma!...
Og svo sameinuðust allir í síðustu línunni: Hún á afmæli í dag!!...

Hreint út sagt yndislegt. Ég hef aldrei fengið svona margradda flottan afmælissöng áður :o)

Ég get náttúrulega ekki látið ógert að minnast á elskulegan eiginmann minn sem sendi mér blómvönd í vinnuna í morgunsárið, stráði yfir mig gjöfum seinnipartinn, sansaði afmælistertu, eldaði afmæliskvöldverð og er nú að fara að gefa mér tásunudd yfir sjónvarpinu. Það er nú ekki hægt að hafa það betra :o)

Takk fyrir daginn, ég er sátt!

þriðjudagur, 31. janúar 2012

Janúarhlaup

Tölur fyrir janúarmánuð eru komnar í hús:
 • Hlaupnir  kílómetrar: 55.64
 • Tími á hlaupum: 06:25:28
 • Fjöldi hlaupa: 15
 • Lengst hlaupið í einum spretti: 6.48 km
 • Lengsti tími á hlaupum: 45:05
Svo er snjórinn farinn, sólin að hækka á lofti og allt að gerast, það verður því aldeilis hlaupið í febrúar!