Málið er að talsverðum fjölda minna sokkabandsára eyddi ég í sjoppuvinnu og held að mér sé óhætt að halda því fram að af minni löngu starfsævi hafi ég eytt um 7 árum við afgreiðslu í hinum ýmsu sjoppum landsins, á Flateyri, í Reykjavík og á Akranesi.
Þessi reynsla hjálpaði aldeilis til við ýmislegt þegar fram í sótti, en fyrir utan það hvað ég varð vellauðug af þessum störfum (ehemm) þá hef ég hingað til talið fram þann kost helstan að ég tárast aldrei þegar ég sker lauk. Alveg satt, þegar maður vinnur í 7 ár í sjoppum þar sem seldar eru pulsur og þarf að saxa lauk á hverjum degi, þá hættir laukurinn smám saman að hafa áhrif. Maður verður ónæmur fyrir honum. Allar götur síðan hef ég s.s. getað saxað og kramið lauka upp við andlitið á mér án þess svo mikið sem að augnlokin á mér kippist til, hvað þá að ég bresti í grát.
Alveg þangað til um daginn. Þá var ég að saxa lauk í lasagnað mitt (sem ég skal setja inn uppskrift að síðar, gottúlovit!) þegar flóðgáttir tárakirtla minna opnuðust með hvelli, stíflan brast og uppistöðulónið í Táradal helltist fram Augnkróka og suður eftir Vöngum með miklum látum.
Þannig er nú það, ónæmið er horfið, ég er ekkert öðruvísi en annað fólk. Ég verð að viðurkenna ákveðið svekkelsi, en jafnframt er ég ánægð (eins og ég er alltaf þegar ég finn sannanir fyrir því að ég er eins og venjulegt fólk).
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er laukur!. Ég veit fyrir víst að ég er ekki hvítlaukur, heldur bara svona venjulegur lagskiptur laukur:
- Utan um laukinn er hörð skel sem segir ekkert til um innihaldið
- Innihaldið er lagskipt og alltaf þegar maður telur sig hafa komist að kjarna lauksins, er enn eitt lagið að finna þar undir
- Innihaldið kryddar líf þeirra sem þess njóta
- Það er aldrei að vita hvað leynist undir hverju lagi og það getur verið sárt að fletta lögunum ofan af, svo sárt að maður fer að gráta.
2 ummæli:
Skemmtilegar pælingar...
Ónæm fyrir grætandi áhrifum lauks edur ei...mér finnst thú samt alveg einstøk :*
Hlakka til ad opnist fyrir ritstífluna, sakna thess ad lesa god og hressileg blogg! Fo***** Facebook!
Love,
Kristín
Oooo, takk elskuleg. Nú verð ég að drífa mig og henda í aðra færslu úr því það er komið komment!
Skrifa ummæli