mánudagur, 31. desember 2007

2008!!!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og fjölskylda!!!

Takk fyrir allt liðið, gamalt og gott.
Gangið hægt um gleðinnar dyr, ekki þó á kostnað góðrar skemmtunar :)

laugardagur, 29. desember 2007

Shark Tale

Ég hef örugglega verið svona 12 ára þegar ég smakkaði hákarl í fyrsta og næstsíðasta sinn. Á þorrablóti í Holti lét ég vaða á kasúldinn kafloðinn bita og hélt það væri nú varla mikið mál. Sem Vestfirðingur ætti ég nú að geta komið þessu ofan í mig eins og allir hinir.

Það fór nú ekki svo. Aðallega man ég eftir ógeðfelldu bragðinu sem sveið í nef, kok og háls og ætlaði aldrei að fara, svo og undarlegu stinnu áferðinni sem ég get ekki líkt við neitt annað. Svo man ég líka eftir því að það var óvenju löng leiðin á klósettið, sem kom svo í ljós að var upptekið. Úff, hvað ég kúgaðist meðan ég beið eftir því að það losnaði.

Alla vega, þetta var fyrir ótal mörgum árum síðan. Nú á ég son sem myndi éta hákarl í hvert mál væri það í boði. Og mann sem myndi sitja til borðs með drengnum og éta hákarl með hníf og gaffli kæmi sú staða upp. Þeir tveir eiga það til að lauma sér í frystikistuna og sneiða sér vænt stykki sem þeir bera inn í hús og smjatta á fyrir framan okkur mæðgur á meðan við tvær höldum fyrir nefið og hryllum okkur í bak og fyrir.

Nú í kvöld gat ég ekki meir og bað um að fá að smakka herlegheitin. Ef maður vill að börnin sín smakki það sem á borð er borið fyrir þau, er þá ekki lágmark að sýna smá lit sjálfur í þeim efnum?

Það er skemmst frá því að segja að ekkert hafði breyst frá því síðast. Áferðin, sviðinn og bragðið var allt við það sama. Lyktin eins og af innviðum karlaklósetts. Ég stend við fyrri orð mín, þetta er ekki mannamatur. M.a.s. hundurinn vill ekki sjá þetta.


Ég hef samt ekki miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á mataruppeldið á heimilinu. Ég smakkaði þetta þó. Það er þó meira en feðgarnir hafa gert þegar ég ber sveppi á borð fyrir þá.

Eins og sveppir eru nú ótrúlega góðir!!

fimmtudagur, 27. desember 2007

Þar kom að því að grámygla hversdagsleikans legðist yfir mann á ný. Það kostaði þvílík átök að vakna til vinnu í morgun, aðalástæðan auðvitað sú að ég var búin að snúa sólarhringnum þannig við að ég gat engan veginn sofnað á skikkanlegum tíma í gær!

Sem betur fer er maður aftur kominn í frí eftir morgundaginn og það alveg fram á hádegi á miðvikudag.

Jólin hafa verið frábær það sem af er, nóg af mat og súkkulaði og jólaboðum. Það eina sem mér finnst vanta er spilakvöld, einhver sem vill spila um helgina?!?

Við Tóti vorum eins og fólkið í VR-auglýsingunni á aðfangadagskvöld ætluðum við sko að lesa frá okkur allt vit eins og venja er. Ég var svo uppgefin að ég komst á bls 22, og þá var ég sofnuð... Þetta er náttúrulega engin frammistaða, það er nú lágmark að lesa eins og eina bók á aðfangadagskvöld...
Krakkarnir hafa nefnilega verið dugleg að vakna snemma í desember, einum of dugleg finnst mér. Vinurinn fór samt gersamlega yfir strikið á aðfaranótt aðfangadags. Ég fór að sofa kl. 2, og hann var kominn kl. 3 til að spyrja hvort það væri kominn dagur... Svo núna er öllu snúið við, þau sofa til 10 á morgnana þar sem það er engin forvitni lengur um það sem er í skónum!!

mánudagur, 24. desember 2007

Aðfangadagur

Þá er þetta allt saman að bresta á.

Tréð stendur uppstrílað á stofugólfinu umvafið pakkaflóði, villibráðin er að marinerast inni í ískáp og maltið og appelsínið bíður síns tíma í búrinu. Börnin festa ekki hugann við neitt, rása um húsið og vita ekkert hvað þau eiga af sér að gera. Úti er hundslappadrífa eins og hún gerist best og trjágreinarnar í
garðinum svigna undan hvítum þungum snjó. Ekkert annað virkar eins vel
á jólaskapið :)


Mamman þurfti reyndar að setja í fjórhjóladrifið í morgun og redda jólagjöf á síðustu stundu. Þegar verið var að klára að pakka inn síðustu gjöfunum í gærkvöldi, kom nefnilega í ljós að það sem við höfðum keypt handa Sólinni var ónothæft!

Við höfðum keypt svona í Toys´R´us og ég var ekkert að lesa mikið á kassann, fannst þetta bara sniðugt svona teikniborð til að tengja við sjónvarpið og var handviss um að Sólin yrði alsæl með það. Svo þegar ég var að pakka þessu inn í gær og er að skoða kassann og dást að því hvað ég væri sniðug að finna svona sjónvarpsteikniborð fyrir Sólina mína þá rek ég augun í leiðbeiningar utan á kassanum. Í ljós kom að þetta teikniborð er viðbót við einhverja leikjatölvu sem heitir V tech og ég hef aldrei á ævinni heyrt um. Ég man ekki einu sinni eftir því að hafa séð þessa leikjatölvu í Toys´r´us og ég ætla sko að leita að henni þegar ég fer og skila þessum "tölvuleik" eftir jól.

Ég er auðvitað fegin því að hafa rekið augun í þetta í gær, og sloppið við að svekkja Sólin á þessu. Mér finnst samt glatað að þurfa að finna eitthvað handa henni á síðustu stundu og nú fær hún einhverja gjöf sem keypt var í flýti án mikillar umhugsunar. Fúlt.

Þrátt fyrir svona síðbúið jólastress, þá lítur dagurinn og kvöldið bara vel út hjá okkur.
Á matseðlinum er kvöld er svo innbakaður Camenbert í forrétt, marineruð önd og heiðagæs á steikarsteini í aðalrétt og svo blaut súkkulaðikaka með ís og rjóma í eftirrétt síðar í kvöld. Get varla beðið!

Ykkur öllum óska ég gleðilegra jóla með von um að þið fáið gott að borða og njótið ljóss og friðar með fjölskyldunni í kvöld!!

Jólakveðjur,
BoggaBlogged with Flock

föstudagur, 21. desember 2007

Lalli Balli og Lúkkúbei

Börnin mín eru mögnuð og ekki síst þegar kemur að veikindum.

Sólin er með streptókokka. Ég fór með hana til læknis á miðvikudag út af útbrotum, og hún fékk pensilín gegn streptókokkum í hálsi. Hún varð ekkert veik þannig, og útbrotin eru nánast horfin núna. Hún er s.s. veik, án þess að sýnast veik.

Svo í morgun fékk Vinurinn ælupest. Ældi í allan dag eins og múkki, greyið. Um kvöldmatarleytið fékk hann sér svo tvær grillaðar samlokur með skinku og osti, hámaði í sig melónubita og þambaði nokkur glös af kóki. Orðinn stálsleginn á ný.

Ég þori nú samt ekki annað en að segja 7-9-13 og banka aðeins í borðið.

Þau eru s.s. búin að vera heima í dag. Öðru hverju koma upp rifrildi eins og systkina er vandi. Oftast koma rifrildin áreynslulaust en stundum verða þau uppiskroppa með þrætuefni.
Það hlýtur að hafa gerst áðan þegar Sólin kom hlaupandi til mín: "Mammaaa! Björgvin er að stríða Lalla Balla"
Það getur enginn séð Lalla Balla nema Sólin, en samt er hægt að stríða honum...
Ég fæ stundum undarlegar sögur af Lalla Balla. Hann á víst bróður. Sem btw er álfur. Sólin spurði bróðirinn um daginn hvað hann héti og sá svaraði víst "Álfur"
"Og ég sagði honum sko að það gæti enginn heitið Álfur!"
Svo setti hún hendur á mitti og hristi hausinn eins og hún væri alveg hissa á því hvernig einn ímyndaður álfur gæti látið.

Var ég einhvern tímann búinn að segja frá Lúkkúbei Sepubeibí?
Það var undarlegt tímabil. Sólin var varla orðin talandi þegar hún benti út í loftið og galaði á hann. Eða sagði að hann biði úti og þyrfti að komast inn. Maður þurfti m.a.s. að passa sig á því að setjast ekki á hann. Þá er nú Lalli Balli betri finnst mér, hann er þó ekki að þvælast fyrir manni!

Jæja, farin að súkkulaðihúða Sörurnar mínar. Þetta er örugglega í fyrsta sinn sem mér tekst að fullklára þær á einu kvöldi! Kannski af því ég er "bara" með tvöfalda uppskrift núna en ekki fjórfalda ;)
Hófsemi er dyggð!!

föstudagur, 14. desember 2007

Jesús Kr. Jósefsson

Jæja, þá má jólaskapið koma.
Baggalútur búinn að hleypa jólalaginu 2007 af stokkunum, vúhú!

Jól á Kanarí

Annars er aðventulagið líka í lagi:

Jólafílingur

Hér er hægt að hlusta á fleiri lög með þessum snillingum. Tóti vill Föndurstund. Ég vil frekar fá Söguna af jesúsi. Já, ég kemst bara í réttu stemninguna við það lag held ég. Textinn tær snilld og Jesús Kr. Jósefsson alveg að gera sig bara held ég. Gamlárspartý kemur manni svo náttúrulega í réttu stemninguna líka.

Já, það er að koma... alveg að koma...

úff, neibb, ekkert jólaskap.

Kannski á morgun. Brjálað að gera þá, jólaball, syngja með kórnum og jólahlaðborð í þokkabót.

Eitt alveg ótengt þessu, þetta hefði ég viljað heyra í beinni!!! Átsj

sunnudagur, 9. desember 2007

Sleðaferð

Vorum að koma úr dásamlegri fjallaferð. Veðrið alveg hreint geggjað, stillt og frost. Snjór yfir öllu, ekkert mikið en samt nóg til að renna nokkrar ferðir. Það er ekki laust við að það læðist að manni smá jólaskap!?!
Svo má ég til með að minnast á afmælisbarn dagsins. Ágústa mín, til hamingju með daginn mín kæra!!

föstudagur, 7. desember 2007

Jólafrííí

Mikið var að þessi vika kláraðist! Búin að bíða lengi eftir því að henni ljúki.

Krakkarnir komu heim á miðvikudaginn og höfðu frá svo ótrúlega miklu að segja að þau töluðu stanslaust þar til þau sofnuðu. Afi þeirra og amma urðu því örugglega fegin að komast heim til að hvíla eyrun aðeins... Ferðin var þvílíkt ævintýri fyrir þeim og ég á eflaust eftir að heyra sögur svona eitthvað fram á nýárið. Dröfn er nýja ædolið þeirra, og Sigrún Lóa, Magnús og Geiri eru líka hrikalega sniðug eitthvað. Svo hittu þau Kristínu og Önnu Magnýju í Tívolí og það voru víst fagnaðarfundir þegar þær sómafrænkur hittust á ný.
Allir sáttir með þessa ferð, bæði börnin og við sem nutum þess að vera ein heima í heila v-i-k-u!

Dagurinn í dag byrjaði ekki vel. Fyrst vaknaði ég með ljótuna. Ferlegt. Þar að auki átti ég ekki góðan hárdag. OG ég fór í próf. Var allt of lengi í prófinu svo ég náði ekki nema lágmarksmeðferð á ljótuna áður en ég rauk í vinnuna. Ferlegt.

Það sem er ekki ferlegt við daginn er að það er ekki nema sjöundi des og skólinn búinn! Jahér.
Í Háskólanum var maður alltaf í prófum fram yfir 20. svo þetta er bara draumur fyrir mér.

Jább, nú taka við ljúfir dagar friðsældar og gleði. Ég á bara nánast ekkert eftir að gera fyrir jól. Af því ég ætla ekkert að gera meira en venjulega :) Er alls ekki vön því að standa á haus í þrifum eða þvílíku veseni bara af því það koma jól. Jú, jú, skrifa á nokkur jólakort, hvað er það? Kannski baka eitthvað, en bara ef mig langar til þess. Ætli það endi ekki með Sörum bara? Jú, ég held það: af því mig langar til þess.

Annars er stefnt á heimsókn til mömmu á morgun og jafnvel sleðaferð í Akrafjall á sunnudaginn, hver veit.
Alveg hreint dýrindis helgi framundan held ég, með tilheyrandi huggulegheitum.
Ahhhh

Að lokum, er þessi hér ekki að grínast? Þetta bara getur ekki verið í lagi! Ég hélt fyrst að hún væri drukkin, eða þroskaheft. Nei, það kom í ljós að hún er Bandaríkjamaður eins og þeir gerast bestir!fimmtudagur, 6. desember 2007

örstutt

Síðasta kvöld fyrir próf, börnin komin heim.
Eftir morgundaginn verður allt eðlilegt á ný.

Skrifa meira þá.
B

sunnudagur, 2. desember 2007

Sólaróður

Í sumar skrifaði ég nokkur orð um hvernig okkur myndi hefnast fyrir þetta yndislega sumar sem við fengum hér á Fróni:-16. júlí 2007-
Ég vaknaði viti mínu fjær af gleði í morgun.


Ha! Sól aftur??

Svo hló ég dátt og sló mér á lær, en ótrúlega skemmtilegt...eða hvað?

Er ég sú eina sem er að velta því fyrir sér hvað gæti búið að baki þessu veðurundri? Þessu samliggjandi sólskini sem fær Íslendinga til að brosa, fækka fötum og gera klikkaða hluti? Er mögulegt að á þessu skeri geti verið biluð blíða í 6 vikur án afleiðinga?

Ég held að annað af tvennu gerist í framhaldinu af þessum ofurskammti sólar:
1) Hér verður svartasti og versti vetur sem hugsast getur, arfavitlaust ævarandi myrkur hylur okkur frá október fram í mars svo allir þeir sem náðu ekki sólinni í sumarfríinu sínu eiga bágt með að halda hann út.
2) Hér verða náttúruhamfarir: eldgos og jarðskjálftar út í eitt sem umturna lífinu eins og við þekkjum það.

Ég er ekki bölsýnismannneskja heldur raunsæ. Mín kenning er sú að á undan hverri óbærilegri upplifun hefur alltaf verið yndislegur tími sem maður minnist með sól í hjarta og sinni. Því fæ ég alltaf hnút í hjartað þegar eitthvað gott verður á leið minni, hugsa: ókei, hvað er nú í gangi, hvað gerist næst?


Alla vega, 4 dagar í sumarfrí.
Það spáir rigningu.

Was I right or was I right?

Ef ég trúði ekki statt og stöðugt á þá hugmynd að sólin býr innra með mér, þá myndi ég hreinlega ekki nenna að vakna á morgun :)

Munið að veður er afstætt hugtak, ef maður bara dregur fyrir gluggana, kveikir á kertum og reynir af fremsta megni að hafa það huggulegt þá er lífið hreinlega ekki svo slæmt. Svo þarf bara að þrauka öööörlítið lengur, það er sól og sumarylur handan við hornið.


Sól úti,
sól inni,
sól í hjarta,
sól í sinni,
sól í sálu minni.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Barnalán

Það er stundum erfitt að átta sig á tilfinningum.
Maður er kannski viti sínu fjær, en ekki alveg viss hvort það er vegna óstjórnlegrar gleði, tilhlökkunar, kvíða eða hvað.

Ég veit alla vega að ég er viti mínu fjær.

Eins og er, þá held ég að tillhlökkun búi innra með mér því ég tel niður stundirnar þar til ég verð barnlaus á ný (21,5 eins og er). Ómæ ómæ, heil vika bara fyrir mig!!! Jú, jú, Tóti verður reyndar hérna líka því mamma hans vildi ekki hafa hann neitt með og ég skil hana ósköp vel. Neibb, þau sómahjónin tengdaforeldrar mínir ætla einungis að hirða af mér börnin og ferja þau til Danmerkur í viku.

Að hugsa sér, ég get vaknað á morgnana og þarf bara að hugsa um sjálfa mig! Ég get verið fyrst á klóið og þarf ekki að skeina tvo rassa áður en kemur að mér. Engin skapofsaköst morgunfúlra barna og rifrildi um fötin sem á að fara í (hei, ef það er ekki bleikt og ef það er ekki pils þá er það bara glatað!)

Ég get farið hvert sem ég vil eftir vinnu, í ræktina, göngutúr, fjallgöngu eða uppí sófa með bók og kertaljós.

Ef ég þarf að skreppa eitthvað, þá bara fer ég. Ekkert að athuga hvort einhver þurfi á klóið, hvort einhver sé svangur eða þyrstur, koma öllum í föt og troða þeim röflandi í bílinn.

Ég þarf ekkert að vera að elda, borða bara þegar ég er svöng. Og þegar ég er búin að borða get ég farið aftur upp sófa með bókina mína, ekkert fjöldabað, engin kvöldsaga, ekkert að sussa á óþekk kvikindi sem ekki vilja sofa.

Ég veit, hljómar eins og útópía hverrar úrvinda konu.

Eeeen, eins og ég sagði, það er stundum erfitt að átta sig á tilfinningum.

Ég hugsa nefnilega líka til þess að þurfa að sofa í sex nætur án þess að finna ylinn af litlum kroppum sitthvoru megin við mig, án þess að vera vakin með blíðri andfýlu í morgunsárið og mjúku hlýju knúsi í kjölfarið. Ég fæ ekki að fara inn til þeirra á kvöldin og horfa á þau sofa, strjúka þau og kyssa fyrir nóttina. Ég fæ ekki þessa stund sem við eyðum í mömmuholu eftir baðið með knúsi, kitli og innilegum hlátri sem hittir mig beint í hjartastað.

Og þegar ég hugsa um þetta lítur dæmið nú öðruvísi út.

Þau eru ekki enn farin (21,2!) en ég sem samt farin að telja niður dagana þar til þau koma heim.
Blogged with Flock

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Raunir aðþrengdrar eiginkonu

Ég er vön því að redda mér, gera bara hlutina sjálf.

Þess vegna dreif ég mig í drullugallann í síðustu viku þegar óhemju vond lykt gaus upp inni á baðherbergi. Grasekkjan ég var búin að útiloka óhreinatauskörfuna með því að taka hana út af baðinu, en fnykurinn hvarf ekki við það.


Þannig að ég fór niður á fjórar, með latexhanska á höndunum, plast undir mér og vasaljós í hönd. Reif sökkulinn af baðinnréttingunni og kafaði upp að olnbogum (ath. ath. vestfirskar ýkjur ) í niðurfall sem þar er staðsett. Þreifaði mig í gegnum bunka af hárhnyklum og grænan slímkenndan viðbjóð sem ég kann ekki nánari skýringar á. Hreinsaði vatnslásinn og skrúbbaði græna gumsið af yfirfallinu. Lyktin var slæm en ég var ánægð með útkomuna. Handviss um að hafa komist fyrir áframhaldandi fnyk gekk ég frá eftir mig og fór sátt í háttinn.

Næsta morgun var lyktin komin aftur, verri en nokkru sinni fyrr. Svona úldin skólpkennd fýla sem sveið nefið við hvern andardrátt. Ég var ákveðin í því að hætta ekki lífi mínu og limum frekar í þessu stríði og hafði bara lokað inn á bað og gluggann galopinn. Meðan þess var beðið að húsbóndi heimilisins sneri heim úr útlegð héldum við hin bara niðri í okkur andanum meðan tennur voru kraftburstaðar og allra nauðsynlegustu athöfnum sinnt þarna inni.

Svo birtist handlagni heimilsfaðirinn. Sá sem allt getur og kann.

Hann skundaði inn á bað.... (viðkvæmum er bent á að lesa ekki lengra...)

... og teygði hönd sína upp í gegnum loftadós sem staðsett er fyrir miðju baðherbergisloftinu. Hann rámaði nefnilega í að hafa sett músagildru þangað fyrir þónokkuð löngu síðan!!! Tvennt var greinilegt: gildran hafði skilað ágætis árangri og það fyrir lööööööngu síðan.

Ég sver það, mér sýndist drjúpa úr vel kæstu hræinu þegar hann hljóp með gildruna í gegnum húsið og út.

Ilmkertið fær að loga í nótt ef ég fæ að ráða.

Góða nótt kæra fólk, vonandi sofið þið rótt múhahahahaha!!!

laugardagur, 24. nóvember 2007

xmas craze

Ef ég kemst hjá því þá ætla ég ekki inn í eina einustu búð í Reykjavík fyrr en eftir jól.

Ég fór í dag, ein með krakkana, til borgar óttans... kaffilaus.
Hafði ekki nennt að hella uppá áður en ég fór af stað og gleymdi að kippa með mér bolla í Olís. Áhrif kaffileysisins komu fljótlega í ljós inni í miðri troðfullri RL-búð, með suðandi kvikindin í eftirdragi og lýstu sér með almennum pirringi og stingandi höfuðverk. Höfuðverkurinn fór ekki fyrr en að loknu brjálæðinu í Smáralind, geðveikinni í umferðinni og eftir stutt stopp á KFC. Þar sem ég var að renna úr umdæmi Mosó fann ég hvernig slaknaði á öllum vöðvum og höfuðverkurinn rann út í sandinn.

Ahhh, hvað það er gott að búa á Akranesi.

Þrátt fyrir líkamlegar og andlegar þjáningar tókst mér í dag að kaupa nokkrar jólagjafir og jólaföt á krakkana. Restina ætla ég að kaupa í heimabyggð, enda alger óþarfi að leggja á sig slíkar kvalræðisferðir þegar hægt er að klára dæmið hér.

Saumaði nýtt fyrir eldhúsgluggana þegar ég kom heim. Svona JólaJóla. Kemur bara vel út.

Það eru komin nokkur skammdegisljós upp hjá mér. Í stóra stofuglugganum er svona grýlukertasería (sem hefur hangið þarna síðan á síðustu jólum ehemm...) og þegar ég setti hana í samband í gær þá logaði á örfáum perum. Ég fór því og byrgði mig upp af aukaperum og upphófust miklar tilraunir til að komast að því hvaða perur væru sprungnar. Ef það er óþolandi þegar ein pera er sprunginn og maður þarf að skipta um þær allar til að komast að því hver sú sprungna er... þá vandast málið heldur betur þegar sprungnu perurnar eru fleiri. Ég var að verða vitlaus hérna í gær en þetta er næstum því komið. Bara þrjár "grýlukerta"lengjur sem ekki logar ennþá á. Þær bíða bara eftir Tóta.

Talandi um hann, hann er ekki enn kominn. Ég skelli bara í lás á miðnætti hahaha!
Jæja, farin að reyna að læra eitthvað, þetta gengur ekki lengur.
túrilú

föstudagur, 23. nóvember 2007

bojnk-voff

Þessa vikuna hef ég verið grasekkja.

Sú var tíðin að ég var oftast í því hlutverki með hléum þegar sjómaðurinn kom heim. Gott að það er búið. Nú er karlinn kominn í land.... en búinn að vera úti á landi að vinna síðan á mánudag.

Þannig að ég hef reytt hár mitt og grenjað alla vikuna. Er svo útbíuð í hori og slefi að ég sé varla á skjáinn. Á næturnar vakna ég og get ekki sofið, geng fram á klettana hér fyrir aftan hús, vef um mig rúmteppinu í nístandi frostinu, horfi út í sorta hafsins og öskra svo hátt að mig verkjar í lungun: Tótiiiii... Tóóóótiiiii

Eða nálægt þessu allavega. Hann kemur nú heim á morgun svo ég ætti að koma til sjálfrar mín fljótlega.

Hann er að smíða eitthvað þak á sumarbústað fyrir norðan. Sagði mér eitt bilað fyndið um daginn. Ég flissa alltaf inni í mér þegar ég hugsa um þetta. Á bænum er sem sagt hundur sem ekki er óalgengt í sveitinni. En þessi hundur hann geltir í hvert skipti sem hann heyrir hamarshögg....

Ókei, þarna eru þrír eða fjórir smiðir uppi á þaki að negla....allan daginn.... í sex daga... hljómar einhvern vegin svona: bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff, bojnk-voff..... vonandi eru þeir með svona steriophones á hausnum :)

mánudagur, 19. nóvember 2007

Upp er runninn skipulagsdagur... eða hvað?

Jámm, ég er búin að gera fullt í kvöld. Í lærdómi það er að segja. Ég er búin að gera svo mikið að ég er hreinasta hreint bara hætt við að hætta í þessum skóla og hananú.

Í gær var ég alveg á því að hætta bara, hreinlega nennti þessu ekki lengur. Hvers vegna í ósköpunum að pína sig áfram í námi sem tengist vinnunni manns ekki á nokkurn hátt og maður eyðir allt of miklum tíma í? Tíma sem gæti farið í að sinna þessum börnum manns, mála kofaskriflið, þrífa kofaskriflið, skreyta kofaskriflið, létta á byrði þvottakörfunnar, skrifa, lesa (sér til gamans) og njóta lífsins á hvern þann hátt sem manni sýnist? Stórar spurningar... og fátt um svör. Það er samt kominn hugur í mig núna, njáááw stórhugur meira að segja. Ég ætla að massa þetta. Hef aldrei á ævinni fallið á prófi og ekki heldur hætt í neinu sem ég byrja á (tja, nema tónlistarskólanum, en það var nú alls ekki mér að kenna heldur píanókennaraperonistanum) og ætla ekki að byrja á því núna.

Rosalega eru margir búnir að skreyta núna! Ég man bara ekki eftir svona miklum ljósum þetta snemma áður. Þeir sem eru á móti jólaskrauti í nóvember geta nú bara verið heima hjá sér, mér finnst frábært að fá smá ljós í bæinn á þessum árstíma. Auðvitað er fullsnemmt að setja upp einhverja sveinka og jesúbörn, en ljósin maður!!! Ljósin má setja upp í byrjun nóvember og taka niður í lok febrúar mín vegna :) Í mínum huga eru þetta skammdegisljós, sett upp til að lýsa upp lífið fram á vor. Ég meina, hér er myrkur frá október fram í mars, hvers vegna þarf að hnjóða í fólk sem leggur til ljós í líf okkar á þessum tíma?

Ég er nú reyndar ekki búin að setja upp stakt ljós sjálf, en stefni að því um næstu helgi :D

Umph, hvað það var gott í matinn hjá okkur í gær! Marineruð villbráð á steini...slúrp. Kofaskriflið angaði ennþá yndislega þegar ég fór á fætur í morgun, svo svakalega var steikt hér í gærkveldi. Jón og Steinunn komu með hreindýrasteik og Tóti átti gæsabringur og maður minn hvað þetta var gott. Svo kom Ragnheiður óvænt og ánægjulega í mat. Hún kom alveg af fjöllum (Hafnafjalli nánar tiltekið) og ætlaði sér einungis kaffibolla, en fékk steinasteik og rauðvín í staðinn. Hún virtist ekkert sár yfir skiptunum :)

Jæja, það er víst betra að fara að halla sér. Skipulagsdagur í skólanum hjá Björgvini á morgun og það er víst betra að vera vel sofinn fyrir þannig daga. Ég vaknaði reyndar í morgun haldandi það að upp væri runninn skipulagsdagur. Búin að fá frí í vinnunni, kúra aðeins lengur og var því hreinlega enn á náttbuxunum með stírur í augum þegar hringt var úr skólanum hans Björgvins og spurt eftir barninu....hvort hann ætlaði ekkert að mæta í skólann í dag? Ég var mjög fljót í föt og rak liðið út í bíl með harðri hendi. Mamman fór s.s. dagavillt og hinn opinberi skipulagsdagur er barasta á morgun. Hún ætlar samt að vera klár klukkan átta í fyrramálið... bara svona til öryggis :þ

laugardagur, 17. nóvember 2007

ókei, örlar á áhuga fyrir heimilstækjum hjá lesendum?

Nenni nú ekki að eyða dýrmætu síðuplássi í þvottavélamas svo hér er stutta útgáfan:

átti bilaða þvottavél - Tóti gerði við - hún bilaði aftur - keypti nýja vél - hún var biluð - sölumaðurinn mætti á svæðið - hún vildi barasta ekkert vera biluð fyrir framan hann - nýja vélin aftur biluð - fékk nýja vél sem lofar góðu

Vonandi þarf ekkert að ræða þetta mál meira :)Er ekki í bloggskapi, langar samt að segja frá einu sem datt út úr Sólinni í gær.
Við vorum eitthvað að ræða veikindi við matarborðið í gærkvöldi og ég segi í gríni við Sólina: Veistu, þegar ég var lítil þá fékk ég bæði ælupest og gubbupest í einu.
Sólin gapti af einskærrri undrun yfir þessari furðu. Spurði svo eftir smá umhugsun: Og þurftir þú þá að hafa tvær skálar?

Ein afmæliskveðja í lokin:
Mín kæra systir Helga á afmæli í dag! Innilega til hamingju með daginn :-*

mánudagur, 12. nóvember 2007


Þvottavélin mín er komin í lag!
Þetta leit ekki vel út á laugardagskvöld þegar ég ætlaði að hengja upp úr vélinni og ... þvotturinn var þurr. Við reyndum aftur en allt kom fyrir ekki neitt, þvottavélin tók ekkert vatn inn á sig og þvotturinn því jafn þurr og áður en honum var troðið í vélina.

Tóta datt í hug það snjallræði að opna bara Þurrhreinsun....

Ég var nú frekar á því að kaupa nýja vél. Ekkert verður nú úr því, þar sem Tóti fann áðan einhvern vír inni í henni sem var ekki í sambandi, tengdi hann ... og nú verður þvotturinn minn svo blautur og hreinn að draumar okkar um annað hvort Þurrhreinsun eða nýja þvottavél urðu að engu á augabragði.

Helgin var fín. Fór í bæinn, borðaði mömmumat, keypti EldhúsHjálpina mína, lærði, borðaði aftur mömmumat, fór á flugeldasýningu og brennu, fór á tónleika... og nú er ég bara að tala um laugardaginn!
Sunnudagurinn fór í löngu tímabær þrif á kofaskriflinu, fengum góða gesti og svo fékk ég að setja í eina vél hjá Dísu því það verður að þvo þvotta á þessu heimili þótt þvottavélin bili :-/
Æ, sorry, þetta átti ekki að verða upptalning, mér sem finnst upptalningar svo leiðinlegar...

EldhúsHjálpin er snilld. Áðan bakaði ég smákökur Á MEÐAN ég eldaði kvöldmatinn! Ekki gat ég það með handþeytaranum. Þannig að nú er ein sort komin á sinn stað. Ég spái því að líftíminn verði sólarhringur, þá verði kökurnar búnar!

Nóg í bili, ætla að bíða eftir þvottavélinni og fara svo snemma í háttinn. Alveg búin á því eftir ræktina skoh...

föstudagur, 9. nóvember 2007

Ahhhh, föstudagur og helgi framundan.
Ég er ekki frá því að föstudagar séu uppáhaldsdagarnir mínir því þá er allt helgarfríið eftir og ekki er það slæmt!

Þetta er búin að vera fínasta vika. Kórinn var með tónleika á miðvikudagskvöld sem tókust hrikalega vel. Ég meina það, áhorfendur réðu sér vart fyrir kæti þegar við stigum tignarlega á stokk og allt ætlaði um koll að keyra í fagnaðarlátum þegar við létum af söngnum....kannski aðeins fært í stílinn hjá mér en svona var þetta samt nokkurn veginn! Ég skemmti mér alla vega rosalega vel og til þess er nú leikurinn gerður ekki satt?

Við vorum að koma úr sundi. Það var bekkjarpartý í Bjarnarlaug hjá bekknum hans Björgvins, diskóljós og tónlist og allur pakkinn. Það var fínt og bónusinn er sá að mér sýnast litlu kvikindin ætli að fara snemma í háttinn í kvöld, þau virðast gersamlega yfirbuguð af þreytu (yesssss)

(Ég vil taka það fram að þegar ég kalla börnin mín kvikindi, þá meina ég það auðvitað á hinn besta mögulega hátt. Kvikindi þýðir náttúrulega eitthvað sem er kvikt, eitthvað sem hreyfist. Ef einhver leggur aðra merkingu í orðið þá er ekki við mig að sakast...)

Helgarplanið er á rólegri nótunum, Tóti er að vinna svo ég ætla að finna mér einhvers staðar frið til að læra. Spurning um að níðast á móður minni enn eina ferðina...

Nú og svo er ég að fara í smá verslunarferð í leiðinni. Jú, mamman er loksins að fara að eignast Kitchen Aid hrærivél. Mér finnst hrikalega gaman að baka og elda, eða mér fannst það alla vega. Ég er bara komin með leið á því. Ástæðuna tel ég vera þá að stórvirkasta vinnutækið mitt í þessum efnum er smávegis handþeytari sem ég keypti í Sjónvarpsmarkaðnum hér um árið. Hann er alveg búinn að gera sitt greyið, en það er bara svo hrikalega leiðinlegt að baka köku með handþeytara. Þar sem allsvakaleg kökuvertíð er framundan og ég á bæði inneign hjá Unik og í Smáralindinni þá ætlar mín að sækja eina Kithen Aid á morgun, nánast fríkeypis! Vei, ég get nú ekki annað sagt en að ég hlakki til að prufukeyra tryllitækið!!

Nóg í bili,
túrilú

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Ái, hvað ég vaknaði með miklar harðsperrur í morgun!
Reyndar byrjaði ég að finna fyrir þeim í gærkvöldi, þá komu Steinunn og Jón yfir og þar sem við sitjum yfir dvd-mynd fer ég að ókyrrast mjög... stífna upp í herðunum og fannst virkilega óþægilegt að sitja kyrr, haha!

Í tilefni af harðsperrunum fannst mér kjörið að fara bara aftur í ræktina í morgun, ójá! Þetta skiptið gekk miklu betur, gerði mig held ég ekkert að fífli í tækjunum eða neitt.

Fyrir utan brjálaða heilsurækt er búið að vera nóg annað að gera um helgina. Tóti er búinn að vera í skólanum alla helgina svo ég fór með krakkana á leiksýningu í gær eftir íþróttaskóla Sólarinnar. Við fórum að sjá Langafi Prakkari í Tónbergi. Þau skemmtu sér vel, en mér fannst nú ekki eins gaman. Einhver gutti í sætinu fyrir aftan mig sparkaði í sætisbakið hjá mér ALLAN tímann, þótt ég væri búin að snúa mér við og biðja hann að hætta þessu.

Ég fékk símaat um daginn! Jiii, hvað maður man eftir þeim. Símaat er náttúrulega ekkert fyndið þegar það beinist gegn manni sjálfum og þessir krakkar voru greinilega algerir viðvaningar í þessari algengu barnaskemmtan.
Í fyrsta lagi sögðu þau ekki neitt fyndið, sögðu raunar ekki neitt svo ég skellti bara á af leiðindum yfir þessu ófrumlega símaati.
Í öðru lagi er ég, eins og nánast allir aðrir, með númerabirti á símanum... og símaatarinn ekki með númeraleynd...hversu snjallt er það?
Ég fór því bara á ja.is, eftir annað símtalið, og fann eiganda númersins, einhver saklaus hjón sem voru skráð fyrir símanúmerinu. Í þriðja skipti sem hringt var þá spurði ég náttúrulega bara "Er Sonja heima?" Símaatarinn skellti snarlega á mig :)
Ekki lét ég mér það nægja og hringdi barasta beina leið aftur í þetta símanúmer, símaatarinn svaraði og skellti á mig þegar ég spurði aftur eftir Sonju! Auðvitað hringdi ég strax aftur og eftir nokkrar hringingar svarar húsbóndinn á heimilinu. Eftir að hafa fengið að heyra söguna sagðist hann ætla að tala við unga dóttur sína út af þessu og baðst barasta afsökunar. Síminn hjá mér hringdi ekki aftur það kvöldið :)

Jæja, farin að elda matinn. Lambalæri á matseðlinum í kvöld hér á bæ *slúrp*

föstudagur, 2. nóvember 2007

Miss Fitness 2012

Já, það er aldeilis búið að vera mikið í fréttum þessa vikuna:

  • meint verðsamráð og svindl gagnvart neytendum
  • Vítisenglar í haldi í Leifsstöð
  • Framhaldsserían um REI og Geysir Green málið
  • Stýrivextir hækkaðir

En ég veit að hingað kemur enginn til að fá slíkar fréttir, nóg er af þeim á öðrum miðlum!
Neibb, hér verða sagðar alvöru fréttir sem alla þyrstir í að fá.
Og af nógu er að taka í þeim efnum.

Það sem ber einna hæst er að Frú Björg er búin að kaupa sér árskort í þrek!
Neibb, þetta er ekki prentvilla. Ég steig síðast inn í líkamsræktarsal árið 2000 (!) og síðan þá hef ég látið allt milli himins og jarðar stöðva mig í því að láta sjá mig þar aftur. Nú duga engar afsakanir lengur, mín er búin að fjárfesta í íþróttaskóm, árskortið komið á sinn stað og ég á stefnumót í þreksalnum í fyrramálið :)
Ekki seinna vænna, maður er nú að nálgast fertugsaldurinn (ehemm) og æskuljóminn hefur ekki lengur roð við þyngdaraflinu. Ein spurning, veit einhver hvar Bingóið er á líkamanum?

Það kannast nú margir við það að þegar maður ætlar t.d. að hætta að reykja, þá segir maður sem flestum frá því svo það sé svoldill þrýstingur á mann að halda bindindið út. Nú er ég að gera það sama með þetta þrek-dæmi, hér með er það tilkynnt að ég er orðinn líkamsræktarkona og hana nú! Eða...ég mæti alla vega á morgun.Vona bara að ég endi ekki eins og þessi hér:Kannski frekar eins og þessi!!! Ekkert smá æðakerfi á manneskjunni!

Kannski maður setji Fitness-keppni á 5 ára planið?
Nei, verum nú bara róleg og missum okkur ekki alveg í framtíðaráætlunum, er ekki best að byrja á því að mæta á morgun bara, það er ágætt í bili :)

fimmtudagur, 25. október 2007

miðvikudagur, 24. október 2007

mánudagur, 22. október 2007

Mánudagur

Í gær steig ég stórt skref út úr þægindahringnum mínum.
Jú, ferðinni var heitið í hina víðfrægu Toys´R´us.

Tilgangurinn? Auðvitað sá að sparar stórar fjárhæðir og kaupa jólagjafir fyrir krakkana á niðursettu verði.

Afraksturinn? Jú, jólagjafirnar fengum við ásamt öllum þeim almennu óþægindum sem fylgja því að fara inn í svona stóra og litríka búð. Þarna var allt of mikið af fólki, allt of mikið af dóti, allt of mikið af hljóðum og skærum litum. Eins og ein frábær kona sem ég þekki minntist á: ekki fyrir flogaveika! Bleh, ég fer ekki þangað aftur í bráð. Svo var þetta ekkert ódýrt, tilboðin voru búin og dótið komið á sitt venjulega okurverð.

Þetta var ekki alveg minn tebolli

Restin af Reykjavíkur-ferðinni var frábær. Hittum skemmtilegt fólk og fengum alls staðar svo ríflegt og gott að borða að það tók því varla að elda þegar heim var komið.... gerðum það nú samt!

Ohhhh, get ekki beðið eftir að þessari viku ljúki, framundan er lærdómstörn dauðans og staðlota í lok vikunnar. Hlakka hrikalega til laugardags, þarf bara að redda pössun og !swing! þá verður farið út á lífið með öllu því sem það hefur upp á að bjóða :)

Lifið heil, og veriði góð við ykkur sjálf og aðra.
Ekki veitir af í þessu veðraklúðri sem er að ganga af allri gleði dauðri!

sunnudagur, 21. október 2007

Hvernig virkar heilinn þinn?THE Right Brain vs Left Brain test ... do you see the dancer turning clockwise or anti-clockwise?

If clockwise, then you use more of the right side of the brain and vice versa.

Most of us would see the dancer turning anti-clockwise though you can try to focus and change the direction; see if you can do it.

LEFT BRAIN FUNCTIONS
uses logic
detail oriented
facts rule
words and language
present and past
math and science
can comprehend
knowing
acknowledges
order/pattern perception
knows object name
reality based
forms strategies
practical
safe

RIGHT BRAIN FUNCTIONS
uses feeling
"big picture" oriented
imagination rules
symbols and images
present and future
philosophy & religion
can "get it" (i.e. meaning)
believes
appreciates
spatial perception
knows object function
fantasy based
presents possibilities
impetuous
risk takingföstudagur, 19. október 2007

Kona stóð út á svölum og öskraði

Kannski komst þessi ekki í ToysRus á opnunardaginn?!?
Hvað annað gæti valdið svona mikilli innbyrgðri reiði?

Mikið er ég glöð í hjarta mínu yfir því að vera í vinnu. Annars hefði ég örugglega farið ...
... nei, djók auðvitað ekki.

Margt betra hægt að gera við tíma sinn en að standa í biðröð í 3 tíma eftir leikföngum!!

fimmtudagur, 18. október 2007

Hvert er kjellingin nú farin?!?

Jæja, ég er komin í hring!


Þegar ég byrjaði að blogga fyrir svona 5 árum síðan þá var ég hér á Blogspot. Síðan tók við blog.central, heimasmíðuð Front-page síða, bloggar.is og síðast 123.is.

Þótt mér hafi fundist 123.is bera af í gæðum og þægindum þá er alveg óþarfi að borga fyrir það sem maður getur fengið frítt annars staðar og þess vegna hef ég ákveðið að færa mig aftur á þann stað sem er næstbestur (og fríkeypis)!


Ég veit, algert vesen að elta mig svona um víðáttur veraldarvefsins, en þið hljótið að hafa þetta af lesendur góðir. Allir hafa gott af því að breyta til öðru hverju :) Hver veit, kannski verður þetta vítamínsprauta á skrifin mín, ég tími alla vega ekki að hætta að blogga.


Sjáum til, sjáum til