mánudagur, 23. september 2013

Fagrir haustdagar

Síðustu dagar hafa verið undurfagrir, litríkir og bjartir. Haustdagar eins og þeir gerast bestir. Ég er á kafi í lærdómi, en reyni samt að líta upp og njóta núsins þegar færi gefst.
Við Tóti fórum tvisvar á Háahnúk í vikunni. 45 mín á tindinn í fyrri ferðinni, 40 mín í þeirri seinni. Stefnt á hálftímann með tíð og tíma :)

Neró er hrifinn af fjallaferðum sambýlisfólks síns, þessi elska!

Snæfellsjökul ber við sjóndeildarhringinn. Ótrúlegir litir í sólsetrinu undanfarin kvöld.

Síðustu kvöld hafa verið óvenju litrík. Sólarlagið hér á Esjubrautinni er engu líkt!


þriðjudagur, 17. september 2013

Skrifstofan

Þá er allt komið á sinn stað á nýju skrifstofunni minni og ekki úr vegi að setjast þar niður og smella inn nokkrum myndum af dýrðinni. Skrifstofan er í geymslunni sem er ansi þægilegt því hingað koma fáir gestir og hér ríkir mikill friður. Það eina sem heyrist er suðið í frystikistunni og það minnir mig á einn stærsta kost þess að sitja hér í geymslunni, í desember verður enginn nær Sörunum en ég! Held ég eigi pottþétt eftir að notfæra mér það þegar þar að kemur. 
...Nú langar mig að baka Sörur. Ég fæ mér þá bara súkkulaði í staðinn! Já, það er súkkulaði á skrifstofunni minni, allar alvöru skrifstofur eru með súkkulaði.
Skrifborðið mitt. Allt á sínum stað: kerti, súkkulaði, mynd af firðinum mínum fagra. Og nei, ég er ekki á Facebook í tölvunni. Uglan, innri vefur háskólans, er af óskiljanlegum ástæðum höfð í sama stíl og Facebook bara til að gera saklausum háskólanemum grikk!

Að gera sér skrifstofu inni í geymslu hljómar ekkert vel. Þessi geymsla er þó engri annarri lík, stórir gluggar sem hægt er að opna upp á gátt og fögur fjallasýn. Og já, þarna eru papriku- og chiliplönturnar að leggjast í vetrardvala. Smá tilraun, vona að þær taki við sér aftur í vor.

Sólin gaf mömmu sinni heilræði sem hún skrifaði niður og skreytti og hangir það auðvitað fyrir ofan skrifborðið. Hún er ansi lunkin við þetta :)

Fyrir ofan skrifborðið hangir líka skipulag haustannar, það er aldrei of mikið af skipulagi. Reyndar eru þarna bara þrjú námskeið af fjórum, þýskunámskeiðið mitt er sjálfsnám og ég treð verkefnunum þar bara inn á milli þegar ég get :)

miðvikudagur, 4. september 2013

Morgunstund

Við Höfðavík kl. 6:39
Hin morgunsvæfa ég vaknaði óvenjusnemma þennan morguninn og úr varð morgunganga með Neró í björtu, svölu haustinu. Við vorum mjög hamingjusöm með það, eins og gefur að skilja. Vonandi verður það að vakna kl. 5:47 útsofin og últra hress nýr siður sem helst í einhvern tíma. Ég hef að undanförnu verið hugsi um siði og venjur og væntanlega verður það fljótlega að nýrri færslu sem skýrir það sem ég á við með þessu!

sunnudagur, 1. september 2013

Fyrsti í september

Og þá er kominn september. Næturnar orðnar dimmar og kvöldin rökkurfyllt. Ég verð að viðurkenna að það er langt síðan ég hef hlakkað svona mikið til haustsins. Ég er gersamlega stútfull af hugmyndum fyrir komandi mánuði og veit að þeir verða troðnir spennandi verkefnum, viðburðum, stefnumótum og bara gleði almennt. Svo finnst mér haustverkin alltaf skemmtileg en þessa dagana er ég haldin árlegri óstjórnlegri þörf fyrir að sulta allt mögulegt og safna mat í frystikistuna. Eða eins og máltækið segir: það er hægt að taka Boggu úr sveitinni, en það er vonlaust að taka sveitina úr Boggu!

Helgin sem nú er að líða var algerlega frábær, okkur var boðið að Hreðavatni með Snorra, Ínu og co í voðalega huggulegan bústað með arni og allt! Hef aldrei áður verið í bústað þar sem logar arineldur, mjög fátt sem toppar það. Annars var þetta mikil slökun, lestur, pottaferðir, göngutúrar, át og svona þetta hefðbundna. Alveg yndislegt.

Við fundum villt jarðaber rétt við bústaðinn!

Alltaf sólarmegin. Skömmu síðar sofnaði ég og náði svona "Flíspeysu-tani". Mjög flott.

Vinurinn fékk þeyttan rjóma út í berin sín

Sól og blíða og Hreðavatn þarna í fjarskanum
Göngutúr að Hreðavatni. Sólin er alltaf að búa til eitthvað fallegt sem gleður mömmuhjartað

Þessi ástarpungur grillaði glaður hamborgara fyrir okkur þegar við komum heim. Úrhellisrigning engin fyrirstaða!