þriðjudagur, 17. september 2013

Skrifstofan

Þá er allt komið á sinn stað á nýju skrifstofunni minni og ekki úr vegi að setjast þar niður og smella inn nokkrum myndum af dýrðinni. Skrifstofan er í geymslunni sem er ansi þægilegt því hingað koma fáir gestir og hér ríkir mikill friður. Það eina sem heyrist er suðið í frystikistunni og það minnir mig á einn stærsta kost þess að sitja hér í geymslunni, í desember verður enginn nær Sörunum en ég! Held ég eigi pottþétt eftir að notfæra mér það þegar þar að kemur. 
...Nú langar mig að baka Sörur. Ég fæ mér þá bara súkkulaði í staðinn! Já, það er súkkulaði á skrifstofunni minni, allar alvöru skrifstofur eru með súkkulaði.
Skrifborðið mitt. Allt á sínum stað: kerti, súkkulaði, mynd af firðinum mínum fagra. Og nei, ég er ekki á Facebook í tölvunni. Uglan, innri vefur háskólans, er af óskiljanlegum ástæðum höfð í sama stíl og Facebook bara til að gera saklausum háskólanemum grikk!

Að gera sér skrifstofu inni í geymslu hljómar ekkert vel. Þessi geymsla er þó engri annarri lík, stórir gluggar sem hægt er að opna upp á gátt og fögur fjallasýn. Og já, þarna eru papriku- og chiliplönturnar að leggjast í vetrardvala. Smá tilraun, vona að þær taki við sér aftur í vor.

Sólin gaf mömmu sinni heilræði sem hún skrifaði niður og skreytti og hangir það auðvitað fyrir ofan skrifborðið. Hún er ansi lunkin við þetta :)

Fyrir ofan skrifborðið hangir líka skipulag haustannar, það er aldrei of mikið af skipulagi. Reyndar eru þarna bara þrjú námskeið af fjórum, þýskunámskeiðið mitt er sjálfsnám og ég treð verkefnunum þar bara inn á milli þegar ég get :)

3 ummæli:

Ragnheiður sagði...

Til hamingju með fallegu skrifstofuna þína, þarna á mikið gott eftir að gerast :)

Kristín Edda sagði...

MISE EN PLACE! Oui? Ég elska, elska, elska þessa skrifstofu frú Björg. Og verkefnalistann á veggnum...ásamt þessu frábæra heilræði frænku minnar :) Ég skil samt ekki alveg hvar í húsinu þessi skrifstofa er staðsett...? Suð í frystikistu gefur til kynna að þetta sé í herberginu sem var einu sinni Jökuls, að mig minnir,...við hliðina á bílskúrnum?... en svo sé ég Akrafjallið út um gluggann... er þetta í herberginu við hliðina á baðherberginu?

Björg sagði...

Takk, takk kæra systir. Þarna eiga nefnilega stórgóðir hlutir eftir að gerast :)
Og rétt til getið Kristín, MISE EN PLACE :)
Þetta er bílskúrsherbergið, piparsveinaherbergi bræðranna þegar þeir bjuggu þarna. Þau eru til margs nýtileg híbýlin á E9 ;)