En indæll dagur :o)
Það er nú ekki á hverjum degi að maður á afmæli en þó gerist það einu sinni á ári að maður tileinkar sér heilan dag af því tilefni.
Hápunktur dagsins var klárlega bókakynning sem ég fékk að halda fyrir bekkinn hennar Sólar í morgun. Ég mætti mjög spennt með bókina "Víst kann Lotta að hjóla", fékk að sitja í sögustólnum, sagði aðeins frá bókinni og las stuttan kafla úr henni fyrir 40 mjög áhugasöm 8 ára börn sem ég tel dóttur mína heppna að fá að eiga fyrir bekkjarfélaga, frábær hópur.
Það kom fljótlega í ljós að í bekknum eru eintómir bókmenntafræðingar sem hreinlega grilluðu mig þegar ég opnaði fyrir spurningar!
"Hver teiknaði myndirnar í bókinni?"
"Hvað eru margar blaðsíður í bókinni?"
"Hvernig finnst þér letrið vera?"
"Hvað gerðist svo?"
"Hvenær var bókin gefin út?"
"Af hverju valdir þú þessa bók?"
"Af hverju er bókin græn?"
"Átt þú þessa bók?"
"Hvar keyptir þú hana?"
"Hefur þú lesið hana fyrir Sól?"
"Hversu oft?"
"Hver er uppáhaldsblaðsíðan þín í bókinni?"
Ég náttúrulega reyndi að svara eftir bestu getu, en leið þarna um tíma eins og steik á grilli. Dásamlegir, gáfaðir og sniðugir krakkar alveg hreint!
Svo kom upp úr dúrnum að allir vissu að ég ætti afmæli og þau vildu syngja fyrir mig afmælissönginn. Flott mál :o)
Og þau byrjuðu: Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag. Hún á afmæli hún.....
...þegar hér var komið sögu rann upp fyrir sumum að þeir mundu ekki nafnið mitt og þögnuðu...
...aðrir mundu betur og sungu Bjööörg...
...enn aðrir sungu Guðrún... af því það var mamman sem var með bókakynningu í síðustu viku!
...ooog svo kom eitt hátt og skýrt Mammmmma!...
Og svo sameinuðust allir í síðustu línunni: Hún á afmæli í dag!!...
Hreint út sagt yndislegt. Ég hef aldrei fengið svona margradda flottan afmælissöng áður :o)
Ég get náttúrulega ekki látið ógert að minnast á elskulegan eiginmann minn sem sendi mér blómvönd í vinnuna í morgunsárið, stráði yfir mig gjöfum seinnipartinn, sansaði afmælistertu, eldaði afmæliskvöldverð og er nú að fara að gefa mér tásunudd yfir sjónvarpinu. Það er nú ekki hægt að hafa það betra :o)
Takk fyrir daginn, ég er sátt!
1 ummæli:
Yndislegt! Síðbúnar afmæliskveðjur mín kærasta Guðrún! Gaman að lesa síðustu færslur :) Þú ert að meika það í hlaupunum!
Skrifa ummæli