föstudagur, 28. desember 2012

Nice Capture...

Eftir kvöldmatinn skelltum við fjölskyldan okkur í bíltúr. Ferðinni var heitið á Flugeldasölu Björgunarsveitanna þar sem við styrktum þá aðeins. Svo tókum við smávegis rúnt um bæinn alla leið niður á Breið. Þar var ógurlega fallegt í kolniðamyrkri þar sem hundslappadrífan sveif þétt til jarðar. Vitinn lýsti upp snjódrífuna svoleiðis að við urðum agndofa.
"Ég vildi að ég væri með myndavélina", stundi ljósmyndarinn, horfði upp til vitans og hugsaði til 20 kílóa flykkisins sem sat heima á skrifborði. Hann nennir ekki alltaf að taka með sér þvi hún er svo fyrirferðarmikil.
"Ég er með mína", sagði bloggarinn og teygði sig eftir smáræðis sýnishorni af myndavél sem er ávallt geymt í veskinu.

Bloggarinn tók þessa fínu mynd, ekkert flass, á tíma (ljósopið haft opið lengur en blablabla). Hahaaa! Hún er kannski ekki alveg í fókus og ég þarf klárlega að fá mér þrífót, en ég get eftir sem áður tekið myndir á tíma! Ekki hafði ég hugmynd um það :) Jæja, farin að sprengja smávegis.

Nice capture =)

2 ummæli:

Tóti sagði...

Þó ég vilji ekki gera lítið úr þessu afreki, sem er nú samt sem áður þó nokkuð miðað við að þessi myndavél vegur ekki meira en hálf brauðsneið með engu, þá finnst mér ég verði að minnast á hið svo kallaða gullinsniðsregluna sem við púritanarnir höfum í hávegi, eins ber að geta þess að myndin hallar og það mætti keyra hana í gegnum suðeyði.
Í 20 kg hlunknum mínum er hægt að sjá í viewfindernum snið fyrir gullinsnið sem hægt er að nota sem viðmið einnig er hægt að láta vélina keyra niður suð og síðast en ekki síst þá er hallamál í henni (lóðrétt og lárétt).
Nice capture engu að síður.

Björg sagði...

Þessi mynd er tekin í kolniðamyrkri, ég sá nú ekki fyrr en eftir að ég var búin að framkalla myndina hvað vitinn hallar rosalega mikið! Ég þarf að benda vitaverðinum á það, gæti verið hættulegt fyrir alla túristana og svoleiðis.

Takk fyrir ábendinguna um gullinsviðin mikli ljósmyndari, mig rámar í að þú hafir sagt mér frá þeim áður. Mér finnast svið mjög góð, sérstaklega augun. Ég skal googla þessari hugmynd þinni við tækifæri.

Suð er hljóðið sem heyrist í þér þegar þú vilt fá myndavélina mína lánaða. Sem þú mátt. Þegar þú vilt. Lovjú :*