Um daginn ýjaði ég að því að seinna myndi að skrifa nokkur orð á þessu síðu. Sá dagur er s.s. runninn upp, bjartur og fagur. Ég ýjaði einnig að því að ætla að útskýra það rask sem varð á hlaupaprógraminu og það er best að gera það.
Málið er að fyrir um tveimur mánuðum tók ég ansi laglega dýfu á leið minni heim úr vinnu. Seinnipart þess dags hafði snjóað alveg upp úr þurru, eins og það var nú autt og indælt fram að hádegi, og ekkert sérstaklega skemmtilegt færi fyrir svona hjólreiðamann eins og mig. Já, ég var sem sagt á hjóli...
Á leið minni hafði ég hjólað fram hjá ýmsum fáförnum og mannlausum stöðum sem hefðu nú alveg verið betur til þess fallnir að taka dýfu á, en einhverra hluta vegna var mér ætlað að komast klakklaust næstum því alla leiðina heim og það var ekki fyrr en akkúrat fyrir utan heimavist Fjölbrautarskólans að mér var ætlað fallið. Og það ekkert smá!
Ég ætlaði af götunni upp á gangstétt þegar hjólinu snerist hugur og ákvað að vera bara á götunni. Það rann undan mér í snjónum, svona til hliðar, undurhægt og blíðlega. Mér gafst auðvitað nægur tími til að hugsa um lífið og tilveruna og svo í kjölfarið ákveða hvernig ég ætlaði að taka þessu falli. Fyrst var ég að hugsa um að taka fallegan kollhnís með dýfu, en þegar ég sá að fyrir utan heimavistina stóðu nokkrir framhaldsskólanemar í hnapp fór ég að spá í hvort það væri nægilega hipp og kúl svo ég hætti við. Það var þá sem upp fyrir mér rifjaðist smá brella sem Vinurinn hafði lært í Parkour-tíma og séð ástæðu til að kenna mömmu sinni: Break-fall!!
Svo þarna tók ég Break-fall eins og hefði ég aldrei gert annað, í þeim tilgangi að dreifa fallinu á allan líkamann, nema hvað olnboginn var eitthvað fyrir og rakst á bólakaf í rifjakassann. Að öðru leyti tókst brellan fullkomlega. Framhaldsskólanemarnir klöppuðu og allt. Ég náttúrulega stökk á fætur, dustaði af mér snjóinn og hjólaði brosandi áfram eins og ekkert væri.
Ég var samt kvalin í mánuð á eftir. Vont að anda, sofa, hreyfa sig, keyra, lyfta hlutum, hósta, hnerra... og vonlaust að hlaupa. Læknirinn sagði að ég hefði annað hvort brákað eða brotið rifbein. Hún gæti tekið röntgen-mynd til að fá úr því skorið, en fyrst ég væri ekki með beinflís í lungunum (sem hún hlustaði vandlega eftir) væri meðferðin sú sama við báðum greiningunum: engin. Svo ég sparaði heilbrigðiskerfinu þann kostnað með glöðu geði og harkaði þetta af mér í mánuð. Síðan gerðist það einn góðan veðurdag að verkurinn hvarf að fullu og ég bara orðin ég sjálf aftur. Eða þannig, það hefur neikvæð áhrif á mig ef ég kemst ekki í hlaupin mín og var þeirri stund því fegnust þegar ég komst aftur á ról.
Þetta var sem sagt sagan af hlaupalausa marsmánuðinum. Nú er apríl að verða búinn, maraþonið náðist 25. apríl í 8 hlaupum. Og ég er búin að skrá mig í Reykjavíkurmaraþonið 18. ágúst. Reyndar bara í hálfmaraþon, en það nægir mér í bili.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli