Um síðustu helgi nutum við fjölskyldan fallegra haustdaga í sumarbústað í fullkominni afslöppun og notalegheitum. Jú, ég viðurkenni það að ég hlustaði reyndar á einn fyrirlestur um vefstjórnun, en lét þar við sitja hvað lærdóm varðar og sneri mér aftur að notalegheitum og afslöppun um leið og fyrirlestri lauk. Góður matur, heitur pottur, sófakúr, góðir gestir á sunnudeginum og aukafrídagur á mánudeginum, hvað er hægt að hafa það betra!
Laugardaginn notuðum við í bíltúr upp að Hveravöllum, við frekar dræmar undirtektir allra fjölskyldumeðlima sem eru undir 170 cm að hæð. Um tíma kvartaði ég sjálf meira að segja sáran við leiðsögumanninn okkar, sem brunaði með okkur upp á hálendi á þessum árstíma á þessum hræðilega holótta vegi með allt of lítið nesti meðíferð.
Hveravellir sjálfir voru algerlega dýrðlegir, þvílík vin í þeirri eyðimörk sem hálendið virðist vera þegar maður hossast um á vondum vegi og hvergi stingandi strá í augsýn.
|
Fólkið mitt við Strokk |
|
Þetta áhrifamikla verk stendur á Hveravöllum, tvö steinhjörtu innilokuð undir fargi á bak við rimla, þau komast hvergi en hvíla þarna saman. Fallegt verk í ljósi þess að á Hvervöllum áttu Eyvindur og Halla skjól um tíma. Var ég einhvern tímann búin að segja frá ást minni á þeim? Nei, ég á það sjálfsagt eftir :) |
|
Öskurhóll |
|
Á slóðum Eyvindar og Höllu |
|
Taraaa! Fundum Eyvindarhelli og skriðum ofan í hann, auðvitað. |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli