Olivia Pope er æði, svona þegar maður kemst yfir varirnar og angistarsvipinn... |
En alla vega, nú hef ég snúið aftur í heim hinna eðlilegu þar sem enginn svíkur, pyntar, myrðir, framhjáheldur eða notar leyndarmál sem gjaldmiðil. Úff, þetta verður erfið aðlögun!
Eitt af því sem beið skaða af þessu heilalausa tímabili var bókalestur, en aðeins ein bók lá í valnum eftir þennan mánuð (Kantata) svo ég þarf greinilega að taka mig á og keyra lestrarvélina í gang. Í morgun byrjaði ég á Bókaþjófnum eftir Markus Zusak, en svo vill til að þetta er fyrsta bókin eftir karlhöfund sem ég hef lesið í marga mánuði! Já, alveg ómeðvitað eru síðustu 13 bækur sem ég hef lesið eftir kvenhöfunda, þær hafa einhverra hluta vegna frekar kallað til mín þegar ég rölti um bókasafnið í lestrarleit.
Hjá þessari konu, sko mér, fylgir auknum lestri alltaf aukin skriftarþörf, svo væntanlega eru fleiri færslur í fæðingu (bara búin að glósa hjá mér þrjár hugmyndir að færslum á meðan ég skrifa þetta...). Að horfa á sjónvarp drepur einhvern veginn hverja einustu skapandi taug í mér, þótt auðvitað sé stundum gott að kúpla sig út. Þannig að nú tekur við tímabil sjónvarpsfráhalds og sköpunargleði. Í það minnsta þar til 24. september, en þá herma fréttir að fimmta serían af Scandal komi í sýningu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli