föstudagur, 1. mars 2013

Þorskastríð



Ég var að átta mig á því að það er frekar langt síðan ég hætti að halda utan um gullkornin hjá gullmolunum mínum. Hér koma því tvö glæný gullkorn í boði Sólarinnar.

Við vorum tvær að versla í matinn í gær og erum að ganga framhjá morgunkorninu þegar hún stoppar og biður mig undurfallega að kaupa Lucky Charms handa sér. Við leyfum okkur nú sjaldan þess háttar sykurbruðl nema hvað krakkarnir kaupa þetta stundum þegar þau mega velja sér afmælismorgunmat, svo ég segi við hana: "Við kaupum svona næst þegar þú átt afmæli" (afmælið hennar er sko í október...).
Hún verður voða leið á svipinn og svarar mæðulega og í´fúlustu alvöru: "Það verður örugglega búið að banna þetta þá..."
Þetta fannst mér bráðsniðugt hjá henni, enda er sífellt verið að taka vörur úr sölu sem gerst hafa sekar um að innihalda of mikinn sykur. Við keyptum auðvitað einn pakka í gær, svona til öryggis :)

Svo var hitt að yfir föstudagspizzunni áðan segir Sólin allt í einu: Við erum að læra um eitt í skólanum og þetta er bara fyndnasta orð sem ég hef heyrt... Þorskastríð!!!
Svo hló hún þessi lifandis ósköp. Og við auðvitað með :)

Yndislegt þetta líf, þetta líf :)

Engin ummæli: