Ég hef verið að skoða talnagögn á þessari síðu. Hún er kannski ekki víðlesin þessi elska, en þeir sem þó rekast hingað inn eiga að því er virðist sameiginlegt erindi: Uppskrifaleit!
Í alvöru, ég get alveg séð hvað var slegið inn í google þegar lesendum var vísað inn á þessa síðu og svo get ég líka séð hvaða færslur eru vinsælastar hverju sinni. Þetta er ALLT tengt mat. Færslur um hjartans málefni rykfalla og hverfa í gleymskunnar dá. Aldrei lesnar. Uppskriftir og myndir af mat fá alla athyglina og sumar færslur svo vel lesnar að þær eru orðnar snjáðar á hornunum.
Mig langar að taka það fram að ég tengi algjörlega við þetta, sjálfri finnst mér óhemju gaman að lesa mat og skoða mat og ímynda mér bragðið og lyktina. Hef reyndar stundum staðið mig að því að smjatta smávegis þegar ég les góðar uppskriftir. Þegar ég endurnýjaði tölvuna mína um daginn lagði ég aðeins fram eina kröfu: lyklaborðið verður að vera vatnsvarið (út af öllu slefinu skilurðu!).
Það er alveg dásamlegt að fylgjast með þróuninni hér á vefmiðlunum, síður um tísku, mat, hönnun og ýmsar ástríður af öðrum toga spretta upp og þeim fjölgar frá degi til dags. Þar sem svo fáir blogga um annað (takk Facebook!), þá inniheldur "uppáhalds"-mappan mín hér í vafranum núorðið mestmegnis matarblogg. Til dæmis eru Eldhússögur úr Kleifarselinu einstaklega vel heppnaðar sögur. Myndirnar eru vandaðar og textinn svo góður. Og uppskriftirnar maður, uppskriftirnar... Hef prófað nokkrar og mun prófa fleiri. Ljúfmeti og lekkerheit er önnur dásamleg síða, álíka góð, fallegar myndir, gott gums. GulurRauðurGrænn&salt er líka svakalega skemmtileg, meira gert úr myndunum og minna úr blogginu. Svo er auðvitað Eva Laufey með góða síðu sem ég skoða reglulega, snilldar myndir og uppskriftir með hæfilegum dash af væmni :)
Svona mætti lengi telja. En á þessari síðu eru tvær færslur sem hafa vinninginn þegar kemur að vinsældum. Það er Eggjakakan sem ég fékk í eftirminnilegri ferð í Skorradalinn (ekki mín uppskrift) og svo Rauðlaukssultan sem ég fann upphaflega á einhverri útlenskri síðu og breytti og endurbætti. Þessar tvær fá heimsóknir daglega. Frábært hjá þeim. Kannski ég skelli inn fleiri matarbloggum, hver veit :)
(Schííííí ég þarf að fara að hætta að enda allar setningar á broskalli! Þetta er orðinn þvílíkur Facebook-vani sem ég ætla að hrista af mér! Mun frekar enda allar setningar á upphrópunarmerki! Eða punkti, eins og fólk gerði hér á árum áður. (Og láta mér þá nægja einn...))
Engin ummæli:
Skrifa ummæli