þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Hlaupadrama

Hlaupadagbókin hefur bara ekkert verið uppfærð undanfarið.

Ástæðan? Jú, ég hef bara ekki nennt þessu og hef látið Zumba tvisvar í viku nægja. Aukinheldur er færðin einstaklega leiðinleg þessa dagana og ég hef bara ekki hætt mér út á ísi lagðar gangstéttar bæjarins svona á ónegldum sólunum!

Í kvöld greip mig þó hlaupaórói mikill sem ég varð að finna farveg. Ekki var hægt að hlaupa úti vegna veðurs og mig langaði ekki inn í Höllina. Því átti ég þann kost vænstan að fara á bretti í þreksalnum, þangað sem ég hef ekki komið í hartnært ár.

Úff!

Þetta er bara ekki fyrir mig, alltof kaótískt og troðið af fólki á kafi í áramótaheitinu sínu (skil þetta ekki, það er komið fram í febrúar!). Svo eru allir salir í notkun fyrir einhverja lokaða tíma svo eini staðurinn til að teygja er frammi á gangi! Mjög flott, mjööög flott.

Annars ætlaði ég ekkert að skrifa um þetta, ég ætlaði nefnilega að skrifa um verurnar tvær sem ávalt eru meðíferð þegar ég fer að hlaupa. Aðra skulum við kalla Ofurkvendi. Ofurkvendið situr á hægri öxl minni og hvíslar í eyra mér dásamlegum hvatningarorðum, hún segir mér að ég geti allt sem ég ætli mér og að ég muni alveg ná að hlaupa þessa 5 km á undir 25 mínútum.
Á vinstri öxlinni situr önnur vera, Letipúkinn. Hann er feitur og pattaralegur og hvíslar líka að mér ljúfum orðum en inntakið er efnislega allt annað. Hann talar um hvað það væri nú notalegt að vera komin heim og í bað, gott væri að skríða upp í sófa og kúra aðeins. Ég eigi alveg skilið að komast upp í rúm og þetta hlaup sé nú ekki mikilvægt enda komi ég aldrei til með að verða góð í því. Letipúkinn er á þeirri skoðun að ég eigi að snúa við og labba heim (eða bara húkka far?).
Ofurkvendið og Letipúkinn berjast um athygli mína frá þeirri stundu sem mér dettur í hug að fara að hlaupa og þangað til ég er komin heim aftur. (Stundum erum við hér að tala um svona þriggja tíma stanslaust nöldur!). Þá loks er ég fæ þaggað niður í Letipúkanum og hleyp úti þá fer ég yfirleitt svipaðan hring sem er um 5 km langur. Galdurinn er sá að hunsa Letipúkann fyrstu 2,5 kílómetrana þegar hann þrábiður mig um að snúa við og beina athyglinni frekar að ofurkvendinu sem hughreystir mig og styður áfram. Seinni helming leiðarinnar hjálpast þau náttúrulega bæði að við að hvetja mig heim:

Já, hlauptu manneskja, sóóófiinn!
Já, duglega þú, þetta geturðu!
Komasvooo, fótabaðið og súkkulaðisjeikinn bíður ekki í allt kvöld! 
Vá hvað þú ert seig, er ekki bara maraþonið í sumar?!?
Þetta verður sko þitt síðast hlaup, sérðu ekki eftir að hafa lagt af stað?!?) 
:o)

Í þreksalnum er þetta öðruvísi, því þar er eins og gefur að skilja lítið hægt að hlaupa í hringi (!) og allt of auðvelt að ýta á einn takka og þá stoppar brettið! Ég verð að segja að í kvöld lét ég undan, var komin 4 km þegar Letipúkinn vann og brettið stöðvaðist (heheee, fyndið hvernig hægt er að beygja sagnir þannig að það virðist sem svo að brettið hafi sjálft séð um að stöðvast!).

Niðurstaðan er sú að þreksalurinn hentar okkur þremur engan veginn því hann er jú kaótískur, of fullur af fólki, of lítill og allt það. Í þreksalnum vinnur Letipúkinn líka alltaf, þannig að við ætlum ekkert að fara þangað aftur í bráð.

Vonum bara að ísa taki að leysa í bráð eða að naglaskór detti af himnum ofan :o)

1 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Ó! Hvað ég kannast við þetta mín kæra. En ég er svo heppin að letipúkinn minn er með félagsfælni á háu stigi því ef ég fer að hlaupa í hóp (tveir geta alveg flokkast sem hópur ef við teljum letipúkann og súpervóman með) þá hefur hann sig lítið í frammi allan tímann. Þessi elska. En ef ég fer ein þá nær hann yfirleitt að yfirgnæfa súpervóman þannig að ég stend mig að því hlaupa í gegnum einkagarða, príla yfir grindverk, slást við maís, stela hjólabrettum og allt hvað eina bara til þess eins að stytta leiðina um sirka 500 metra eða svo!
Svo lætur hann mig alltaf halda að ég þurfi að pissa, mér sé illt í hnénu, ég sé svo svöng að það geti ekki verið gott að ganga svona á orkubirgðir líkamans með því að hlaupa næringarlaus (ég gleymi á þeirri stundu glatt ristuðu brauði með osti og sultu (undir) og kakómalti sem rann ljúft niður kannski hálftíma fyrr).

Þannig að mitt ráð er: skráðu þig í hlaupahóp eða dragðu einhvern með þér, helst einhvern sem er pínu betri en þú (ef það er hægt!)svo þú pressir þig líka smá. Alls ekki Þórarinn, hann er soddan glæsimenni að öll orkan færi bara í að flissa og laga hárið.

Koma so! Koma so! ;)