Á ferð minni um Austfirði í dag hef ég í alvöru verið að spá í það hvort gerð hafi verið mistök á fæðingarheimilinu daginn sem ég fæddist. Annað eins hefur nú gert, börnum ruglað saman og svoleiðis. Þar sem ég horfi á þessu austfirsku fjöll og firði í fyrsta sinn hef ég nefnilega verið að spá í því hvort ég sé jafnvel Austfirðingur! Alla vega aftur í ættir, held að þetta með fæðingarheimilið sé of langsótt. Ég finn svo mikla gleði í mér við hvern þann fjörð sem við keyrum fyrir og hvert það fjall sem við sjáum að það er engu líkara en að ég sé komin heim. Allt er svo fallegt hérna. Og öfugsnúið. Hér er opið haf til austurs og sólin sest að fjallabaki en ekki í hafsauga. Undarleg hegðun náttúrunnar hérna megin á landinu.
Við erum búin að eiga yndislega daga, fulla af sól og sælu út í gegn. Við nestum okkur vel að morgni og keyrum út i óvissuna. Stoppum oft og alltaf þegar við sjáum eitthvað spennandi. Í morgun vildu krakkarnir stoppa í húsdýragarði á bænum Hólmi. Sko alvöru húsdýragarður með alvöru húsdýrum. Bóndinn leiddi okkur í allan sannleik um dýrin og krökkunum fannst hann alveg frábær. Og þessi bóndagarður miklu betri húsdýragarður en Húsdýragarðurinn í Laugardal. Enda var þessi alveg ekta. "Þú ert bara eins og leiðsöguhandbók!", sagði Sólin við bóndann á Hólmi þegar við röltum frá landnámshænunum að geitagerðinu. Honum þótti mjög vænt um þann titil, eða svo sagði hann alla vega. Geiturnar urðu algert uppáhald, kiðlingurinn hoppaði í kjöltu bloggarans og kreisti út knús, reyndi svo að naga skóreimarnar hjá okkur öllum. Á leiðinni út í bíl sneri Vinurinn við og sagðist ætla að fara að þakka fyrir sig. Hann gekk upp að bóndahjónunum og sagði takk. Þegar hann kom út til okkar kreppti hann hnefana og hoppaði upp og niður, beit saman jöxlum og hrópaði: "þetta var æði!!". Þegar maður er 12 ára og segir: "hérna... takk fyrir", þá meinar maður svo miklu, miklu meira. Bóndinn virtist vita það.
Í dag skelltum við okkur líka í heita ölkeldupotta við bæinn Hoffell. Þarna eru nokkrir pottar misheitir, smávegis búningsklefi og útisturta. Ef maður liggur á pottbarminum getur maður teygt sig blóðberg og ljónslappa sem sprettur þarna á pottbarminum. Mig langaði bara að sækja bolla út í fellihýsi, taka ölkelduvatn úr pottunum og búa mér til te! Meðan við lágum þarna í marineringu með ímyndaða tebollann kom amerískt par að forvitnast:
"Do we need a reservation?"
"Ha? Nei, just come on in, you´re welcome!"
Þeim fannst þetta eitthvað of fínt til að vera satt. Að hægt væri að stoppa þarna og hoppa ofan í heitan pott að vild. "So, how do you like Iceland?"
Ég gæti skrifað endalaust, en ég veit ekki hvað nettengingin mín hérna dugar. Ég sit í fellihýsinu á tjaldsvæðinu á Reyðarfirði og farsíminn minn sér mér fyrir nettengingu. Dreifir Wifi stuði eins og hann lifandi getur. Vonandi. Ef stuðið klikkar mun enginn lesa þetta, heldur mun þetta hverfa út í cosmosið og engin áhrif hafa. Þannig að ef þú lest þetta, þá hefur tæknin ekki klikkað, heldur verið bloggaranum í hag (aldrei þessu vant...).
Tóti situr hér með mér og skoðar kort, planar morgundaginn og næstu daga. Ég nenni því ekki, veit fyrir víst að þessi plön halda hvorki vatni né vindi, því um leið og við sjáum eitthvað sniðugt og spennandi á leið okkar þá eru öll plön fyrir róða. Við hjónin erum sem betur fer sammála um það :)
Seinna mun ég kannski skrifa um Þakgil, Stjórnina, Þvottárskriður eða aðra makalausa staði sem hafa heillað okkur á leiðinni. Núna ætla ég bara að hlusta á börnin mín hrjóta og Tóta tala um örnefni og annað merkilegt.
Ást og út!
Nesti við Stjórnarfoss. Eftir nestistímann skelltum við okkur auðvitað í sundföt og svömluðum um í Stjórninni. Þetta er okkar leynistaður (sem þó er á allra vitorði...). |
1 ummæli:
Nettengingin skilaði þessu alla leið, vúhú! Unun að lesa.
Skrifa ummæli