Aldur er afstæður, eða því hef ég heyrt fleygt, og að undanförnu hef ég verið að velta ýmsu fyrir mér varðandi þetta fyrirbæri.
Vangavelturnar hófust um daginn þegar við hjónin ákváðum að fara á Pöbbinn hér í bæ, svona aðeins til að lyfta okkur upp. Við erum svo heppin að geta nú orðið skilið stóru börnin okkar eftir heima í nokkra klukkutíma án þess að þurfa að fá okkur barnapíu eða neitt svoleiðis vesen. Þau sofa bara á sínu græna og vita alveg hvað þau eiga að gera ef þau vakna og þurfa á foreldrunum að halda því við erum nú ekki langt undan. Við höfum þó ekki nýtt okkur þetta neitt að ráði hingað til, okkur finnst líklegast svona rosalega gott að vera heima hjá okkur.
En sem sagt, það var lifandi tónlist í boði á Pöbbnum, tveir trúbadorar áttu að stíga á stokk á miðnætti og gömlu hjónin ákváðu að skella sér. Við vorum mætt fjórar mínútur í tólf, bara til að missa nú ekki af neinu. Við vorum fyrst á svæðið...
Klukkan 12, þegar tónlistarmennirnir stigu á svið sátum við fjögur í salnum. Þeir spiluðu nokkur lög áður en þeir lögðu í það að tala við okkur. Þá kynntu þeir sig formlega: Góða kvöldið, ég heiti Alexander. Og ég heiti Óli. Auðvitað sagðist ég heita Bogga, hátt og skýrt. Það voru ekki aðrir þarna en við, og mér fannst eitthvað vandræðalegt að ég vissi hvað þeir hétu en þeir vissu ekkert um mig!
Alla vega. Þetta kvöld fannst mér eitt augnablik ég vera ævaforn. Hundgömul. Fullorðin.
Fyrir það fyrsta þá mætir fólk ekkert fyrir miðnætti á pöbbann, ekki nema gamla fólkið þá helst.
Í annan stað þá fylltist allt af tvítugum töffurum um hálftvö-leytið og samanburðurinn í hressheitum var ekki mér í hag, ég sat bara róleg og hlustaði á tónlist eins og maður sá gamla fólkið oft gera hérna í gamla daga. Þau tvítugu voru á stöðugu iði, töluðu hátt, sungu hástöfum allt annað lag en Alexander og Óli voru að syngja.
Í þriðja lagi þá sat ég þarna allt of mikið klædd, sötraði úr rauðvinsglasi og klappaði á eftir hverju lagi. Hipp og kúl hefði verið að mæta í snípsíðum kjól og á 12 cm hælum, panta fötu á borðið og láta ískra í mér eins og í biluðum hemlabúnaði á eftir hverju lagi. Má annars segja "hipp og kúl"?
Við hjónin vorum komin heim um hálfþrjú og ég var svo fegin að skríða upp í rúm, dauðþreytt eftir svona næturbrölt.
Eftir þetta kvöld hef ég verið að hugsa svolítið um aldur og hvernig upplifunin breytist eftir því sem æviskeiðin líða hjá. Þegar ég var tvítug fannst mér 35 ára konur vera gamlar. Núna, þegar ég er orðin 35, finnst mér ég illa geta haldið uppi fullorðnum samræðum við tvítugt fólk. Þetta eru óttaleg börn ennþá, þannig séð. Og svona hlýt ég líka að hafa verið á þessum aldri. Sem betur fer voru snípsíðir kjólar og 12 cm hælar ekki í tísku þá, en að öðru leyti hefur þetta sjálfsagt verið mjög svipað.
Eins og ég lít á þetta núna þá hefur það tekið mig þessi 15 ár frá því ég komst af barnsaldri að fullorðnast. Ég get litið til baka með þakklæti og verið sátt við fortíðina og allt það sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Síðasta árið hafa orðið nokkuð stór kaflaskil í mínu lífi, kaflaskil sem ég er að skilja betur og betur þessar vikurnar. Eftir róstursamt ár finnst mér ég standa á tímamótum og framundan eru bestu ár ævi minnar, miðbik lífsins, tilgangurinn með þessu öllu saman. Ég held að síðustu 35 ár hafi verið undirbúningur þess tíma sem nú er runninn upp og framundan er og ég hef einsett mér að njóta tímans til hins ítrasta.
Það þarf engan Einstein til að sjá að aldur er afstæður, hvert æviskeið háð afstöðu sinni við annað æviskeið. Þegar ég var tvítug fannst mér ég vera ósköp fullorðin. Það var mín afstaða þá enda var ég að miða við minn eigin litla reynsluheim sem afmarkaðist af þessum 20 árum. Núna hef ég fleiri ár að miða við, reynslubankinn orðinn troðfullur og afstaðan er önnur. Ég er hreint ekkert gömul, enda rétt að verða fullorðin núna og reyni að njóta hvers einasta augnabliks í núinu og hlakka líka endalaust til framtíðarinnar. Það er mín afstaða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli