miðvikudagur, 12. júní 2013

Farangurinn

Í gær kom ég heim úr ferðalagi. Löngu þörfu og löngu þráðu ferðalagi heim í fjörðinn minn fagra þar sem ég náði að róta mig aðeins og njóta. Ég og Una mín yndislega rifjuðum upp minningar og sögur og bjuggum til nýjar. Og eins og alltaf þegar heim er komið úr svona langferð, þá þarf að ganga frá farangrinum.

Öll förum við í gegnum lífið með farangur. Sem betur fer, vil ég segja, því hver vill fara í langferð án alls sem mögulega gæti verið þörf á á leiðinni. Sumt er þetta reyndar ókræsilegt dót sem slæðist í töskurnar á langri leið, annað hvort vegna þess að því troðið upp á okkur eða þá við gleymum að velja og hafna. Annað er nauðsynlegt og þarft að hafa í farteskinu og gott er að velja af kostgæfni það sem hver og einn vill hafa með í sinni för.

Í dag var ég að ganga frá farangri og raða nýju dóti á sinn stað. Þetta er miklu meira en eins dags vinna, enda var þetta svo frábær og innihaldsrík ferð! Ég áttaði mig á því hvers ég sakna að vestan og kem ríkari heim því ég lærði svo margt og mikið um sjálfa mig og aðra. Ég á svo ótrúlega mikið af eigulegum gripum eftir þessa ferð að það eru allar hirslur orðnar stútfullar af gersemum.

Ferðafélagar

Una Björg að tjilla í Tálkafirði

2 ummæli:

Ragnheiður sagði...

Velkomin heim kæra systir. Hlakka til að sjá og heyra gersemarnar sem fá nýja rýmið í hillunum þínum. Vonandi gastu losað þig við eitthvað gamalt drasl á sama tíma :) Knús!

Björg sagði...

Og jú, ég notaði líka tækifærið og losaði mig við dót sem gagnast mér ekki lengur. Ómögulegt að burðast langar leiðir með dót sem þvælist bara fyrir :)
Knús á móti systir, hittumst vonandi sem fyrst. Á fjöllum kannski?