Vinurinn missti tönn um helgina. Tannmissir er nú varla í frásögur færandi lengur hjá drengnum þar sem þetta var tönn nr. 4 sem þarna hvarf.
Já, ég segi hvarf.
Vinurinn fann nefnilega ekki tönnina og var því hálfsúr þegar hann vakti mömmuna árla sunnudagsmorguns og tilkynnti um hvarfið.
Eftir að hafa leitað um allt og velt þessu aðeins fyrir sér þá komst hann að þeirri niðurstöðu að hann hlyti að hafa gleypt tönnina! Hann er búinn að vera aðeins kvefaður og er mikið að ræskja sig og sjúga upp í nefið þessa dagana. Þess vegna var hann alveg handviss um að hann hlyti að hafa sogið svo duglega upp í nefið þá um nóttina... að tönnin hafi hreinlega sogast með horinu niður í maga! Mjög fúlt því tanndísin borgar náttúrulega ekkert fyrir gleypta tönn...
Þetta náttúrulega býður upp á glens og grín af ýmsu tagi:
"passaðu þig að hún bíti þig ekki í rassinn á leiðinni út!" og svoleiðis.
Hehe, við erum fyndið fólk.
Þetta er ágæt saga finnst mér. Henni lýkur samt þannig að mamman var að búa um Vininn kvöldið eftir meint tannát, hristi sængina og þar lá tönnin. Vininum til mikillar gleði. Pabbi hans bauð honum 300-kall fyrir tönnina. Ekki séns. Undir koddann fór hún og Vinurinn varð 100-kalli ríkari daginn eftir.
Eða 200-kalli fátækari... Það fer svona eftir því hvernig á málin er litið.
Mig langar ekkert að skrifa nema smásögur af öðrum. Frá mér fáið þið ekkert.
Ég gæti náttúrulega bullað e-ð um skólann, æfingakennslu eða verkefnavinnu, en hvar er fjörið í því?
Þess vegna ætla ég ekkert að skrifa af mér fyrr en það færist fjör í mig.
2 ummæli:
Takk fyrir ábendingu um nýja veðursíðu handa sjúklingnum :)
vesgú sæti minn:)
Skrifa ummæli