miðvikudagur, 5. júní 2013

Lasagna

Uppáhaldsmaturinn á þessu heimili er klárlega Lasagna. Allir hljóta að kannast við föstudagspizzurnar frægu. Hér á bæ tölum við alltaf um miðvikudags-lasagna, svo oft er þetta eldað...

Þegar ég byrjaði að búa gerði ég Lasagna alltaf úr pakka og fannst það fínt. Sem það var auðvitað ekki, en hei! Ég var bara krakki. Svo prófaði ég að fara eftir einhverri uppskrift sem ég fann og  gerði þessa alræmdu "bechamel"-sósu sem á að vera svo svakalega fín, en fannst hún svo hræðilega vond að ég hef ekki reynt við hana aftur. Enda finnst mér í raun skrýtið að hræra uppstúf saman við nautakjöt og bera á borð fyrir mannfólk.

Svo smakkaði ég lasagna með kotasælu og þá fóru hjólin að snúast. Ég hef verið að prófa mig áfram í sirka 10 ár og er ennþá að prófa nýjar útfærslur og geri aldrei eins og síðast. En sirka svona geri ég s.s. Lasagna:

Lasagna


  • Hvítlaukur - saxaður eða marinn, steiktur upp úr olíu. Ef ég á ekki hvítlauk set ég bara venjulegan, þetta getur ekki klikkað.
  • Nautahakk - bætt á pönnuna og steikt. Út á pönnuna fer líka alls konar krydd: kjötkraftur, salt, pipar, paprikukrydd, laukduft, oregano. Ég á það líka til að setja vorlauk, koriander, sýrðan rjóma, Worchester-sósa eða bara það sem er til hverju sinni, þetta getur ekki klikkað!
  • Kotasæla - stór dós, bætt út á hakkið
  • Niðursoðnir tómatar - ein dós, gott að kaupa tómata með basiliku eða einhverju öðru góðu. Lasagnað verður bara betra fyrir vikið.
    • Allt hrært vel saman og svo er botnfylli sett í eldfast mót, lasagna plötur yfir. Síðan fer meira kjötgums og annað lag af lasagna. Það fer eftir stærð fatsins og magni kjötgumsins hvað þetta er gert oft, en hjá mér eru þetta þrjú lög af lasagnaplötum. Alltaf að enda á lagi af kjötsósu, strá rifnum osti yfir og skella inn í 180-190°C ofn í 35-40 mínútur.

2 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Þegar ég byrjaði að búa og prófa mig áfram í eldhúsinu þá fékk ég lasagne-uppskrift frá ömmu úr einhverri bók sem hún á og það klikkar aldrei ;) Einmitt með kotasælu og ýmiskonar sælu. Grænmetislasagnað (?) hennar er líka það besta i hele verden. Pantaði mér eitt sinn svoleiðis á fínum veitingastað og það var ekki nærri því jafn gott og ömmu. Hvet þig til að prófa það næsta miðvikudag :)

Er ánægð með allar nýju færslurnar! Hvernig leggst facebook-fríið í þig? Er þetta nokkuð mál? ;)

Björg sagði...

Ég þarf greinilega að fá að kíkja á þessa uppskrift næst þegar í kíki til ömmu :)
Facebook-fríið er mjög róandi og það kviknaði strax á þeim hluta heilans sem ég hafði saknað, nú get ég aftur skrifað eitthvað meira en stöðuuppfærslu í einni setningu. Annars er þetta ekkert mál og ég mæli með þessu, skrýtið samt þegar Tóti færir mér skilaboð sem berast í gegnum hans FB, í staðinn fyrir að fólk sendi mér tölvupóst eða sms :)