sunnudagur, 30. júní 2013

Heima er bezt

Og þá erum við komin heim. Eftir 8 nætur í fellihýsinu og 2.400 ekna kílómetra, með óteljandi minningar í farteskinu og nokkuð hundruð myndir, allsvakalega sátt og enginn alvarleg rifrildi þrátt fyrir ofsafengna samveru síðustu daga. Ég væri alveg til í að fara annan hring, er hvergi nærri komin með leið á þessu. Fegnastur heimkomunni held ég að sé hann Neró sem hefur staðið sig eins og hetja alla leiðina, enda orðinn alvanur útileguhundur. Hann var orðinn dáldið pirraður að þurfa í sífellu að merkja sér nýtt svæði þar sem við tjölduðum hverju sinni, og svo er hann orðinn hundleiður á skottinu. Bílskottinu nefnilega, hann er ennþá hrifinn af eigin skotti þetta hundspott. Held við fáum hann ekki inn í bíl næstu daga, hann lagðist á parketið þegar við komum heim og þefaði svo rosalega að það brakaði í því, svo svakalega feginn því að vera kominn heim til sín.

Og þá tekur við daglegt líf, þvo þvotta og skúra gólf og svoleiðis. Nei djók, bara mest að tana á pallinum held ég. Svo var ég víst búin að skrá mig í hálft maraþon í ágúst, best að fara að æfa eitthvað fyrir það! Hef sko ekki verið dugleg við að hlaupa, en hins vegar verið ansi dugleg við að borða góðan mat og stunda innhverfa íhugun. Sú iðja gerir öllum gott, en maður byggir víst ekki upp hlaupaþol með því... Þannig að á morgun set ég upp hlaupaprógram og fer fullkomlega eftir því næstu 7 vikurnar. Djóóók! Held ég joggi einn hring og fari svo í fjallgöngu og taki myndir. Massa þetta maraþon svo bara með gleðinni :)

Framundan er svo margt ofurskemmtilegt og spennandi, fleiri ferðalög, heimsóknir, háskólanám... segi ekki meir!

Ást og út.

(p.s. ég vil klappa mér á bakið fyrir að hafa sett inn heilar 20 færslur í júnímánuði, hef aldrei áður verið svona dugleg á mínum 11 ára bloggferli. Og það þrátt fyrir að hafa verið netlaus megnið af mánuðinum í Vesturferðinni og Hringferðinni. Ég tók mér líka það bessaleyfi að skrá nokkra eðal einstaklinga að þeim forspurðum á póstlista (hér efst til hægri), vona að það hafi ekki komið illa við neinn en ef svo er þá er lítið mál að segja sig úr áskriftinni (sjá leiðbeiningar í tölvupóstinum))

4 ummæli:

Árný Þóra Ágústsdóttir sagði...

Það er búið að vera virklega gaman að lesa færslurnar þínar af ferðalaginu. Okkur er farið að hlakka mikið til að komast í sumarfrí. :-) p.s. er ég á póstlistanum þínum ;-)

Björg sagði...

Takk, og vonandi getum við orðið eitthvað samferða í fríinu :)
Ég er bara með eitthvað vinnunetfang hjá þér, og vildi nú ekki bauna Feed-pósti þangað. En það er hægt að setja netfang inn í þar til gerðan reit hér efst til hægri og þá ertu komin á listann mín kæra!

Árný Þóra Ágústsdóttir sagði...

Já það er svo sannarlega góð hugmynd að drífa sig í eina útilegu. Tekur enginn í hugmyndina að taka eina fjölskylduútilegu ? Við erum til, bara að finna góða helgi :-)

Ingvar sagði...

Það er búið að vera gaman að ferðast með ykkur umhverfis landið :)