

Það er ekkert sem jafnast á við það að vera með fólkinu sínu úti í náttúrunni og ferska loftinu. Og allt þetta fengum við að upplifa í dag. Djók, það var verið að bera skít á túnin og dauði selurinn hefur verið steindauður dögum saman því stækjan af honum yfirgnæfði næstum því skítalyktina. Það fer ekki á milli mála að ég er Made-in-sveitin :)
Og eins og Melabakkarnir hefðu ekki verið nóg, þá bættum við úr betur og stoppuðum við Sjávarfoss; þar sem Langá á Mýrum rennur til sjávar. Ósinn var á að líta eins og Jökulsárlón, stíflaður af ís sem brakaði og brast í. Svei mér þá ef ég sá ekki borgarísjaka á reki þarna. Mjög tignarlegt að sjá. Tóti tók myndir og við vorum að ýta ísjökum út í á og fylgjast með þeim fara niður fossinn. Þessi ís verður svo farinn á næsta stórstraumi.

Eftir þetta mikla ferðalag var gott að komast inn í bústað hjá tengdó, ylja sér og borða grillmat. Á heimleiðinni komum við líka aðeins við í Sjávarholtinu hjá ömmu Ellu og afa Trausta og fengum kaffi og konfekt.
Og hér sitjum við hjónin, loksins komi heim og alveg dauðuppgefin eftir daginn. Krakkarnir löngu sofnaðir, þrátt fyrir stór orð um annað. Það er nefnilega páskadagur á morgun og ungarnir mínir voru hreinlega að springa úr spenningi. Ratleikurinn tilbúinn og allt klárt. Held ég fari bara snemma í háttinn líka. Verst að ég er aftur komin með hor í nös, kannski fullmikið af köldu lofti á þann sem er nýrisinn úr rekkju! Sjáum til :)
Gleðilega páska!