sunnudagur, 30. júní 2013
Heima er bezt
föstudagur, 28. júní 2013
Ásbyrgi
Þar kom að því að við lentum í rigningu. Í vikunni fengum við þær fréttir að trampólínið héngi á snúrustaurnum heima, það gerði víst arfavitlaust veður á meðan við sóluðum okkur á Reyðarfirði. Og nú er komið að okkur, við vöknuðum í rigningu í Ásbyrgi og tókum því rólega í morgun. Það er nú samt líka notalegt hjá okkur í rigningu, kaffi og meððí og útsýnið út um "stofu"gluggann flott, grænn gróður sem fagnar bleytunni. Flottur dagur framundan, við ætlum að Mývatni og jafnvel að taka okkur sundsprett í Víti?!? Allavega í jarðböðunum, sjáum til með Vítið :-)
miðvikudagur, 26. júní 2013
Hlaupamynd dagsins
Hlaup dagsins var 5 km upp og niður allar brekkur sem ég fann á Reyðarfirði og meðal annars meðfram þessari fallegu á sem ég reyndi að festa á filmu. Nú er það ferskt sjávarfang í kvöldverð á Randulffssjóhúsi á Eskifirði. Við hugsum okkur til hreyfings á morgun, kannski Ásbyrgi eða bara eitthvað allt annað. Áframhaldandi hiti og veðurblíða, lífið gæti ekki verið betra hjá okkur hér fyrir austan.
þriðjudagur, 25. júní 2013
Austfiðringur
Hamingjuna er að finna nákvæmlega hér, í litlum árabáti úti á svölu vatni á heitum sólardegi á Austfjörðum.
mánudagur, 24. júní 2013
Austfirrðingur
![]() |
Nesti við Stjórnarfoss. Eftir nestistímann skelltum við okkur auðvitað í sundföt og svömluðum um í Stjórninni. Þetta er okkar leynistaður (sem þó er á allra vitorði...). |
sunnudagur, 23. júní 2013
Ferðalag
Verandi á ferð um landið með allt sem skiptir máli í farteskinu kemur þakklætið og auðmýktin ósjálfrátt til manns. Ég er eilíflega þakklát fyrir það hversu yndislega fjölskyldu ég á og hvað við erum samstillt og getum gert margt skemmtilegt saman. Auðmýktin læðist að manni við álfaborg í afskekktum fjallasal og fyllir sálina þvílíkum krafti að maður grípur andann á lofti og tárast aðeins. Það er bara þannig sem liggur í því!
Og áfram veginn höldum við, þjóðveg nr.1 með hæfilegum útúrdúrum og krókum. Nóg af nesti í kæliboxinu og svo tjöldum við þar sem við viljum sofa. Ekkert plan heldur okkur, nema þá það helst að njóta okkar og lifa lífinu. Reyndar eitt á dagskrá fljótlega, við nálgumst nú Stjórnina og Stjórnarfoss og þar ætlum við að stinga okkur til sunds. Þangað til ætla ég að hætta að pikka þetta á símann minn og taka undir þríradda söng með ukulele-undirspili úr aftursætinu: Gott er að geta talað við, einhvern sem að skilur mig, traustur vinur getur gert kraftaverk :-)
fimmtudagur, 13. júní 2013
miðvikudagur, 12. júní 2013
Farangurinn
Öll förum við í gegnum lífið með farangur. Sem betur fer, vil ég segja, því hver vill fara í langferð án alls sem mögulega gæti verið þörf á á leiðinni. Sumt er þetta reyndar ókræsilegt dót sem slæðist í töskurnar á langri leið, annað hvort vegna þess að því troðið upp á okkur eða þá við gleymum að velja og hafna. Annað er nauðsynlegt og þarft að hafa í farteskinu og gott er að velja af kostgæfni það sem hver og einn vill hafa með í sinni för.
Í dag var ég að ganga frá farangri og raða nýju dóti á sinn stað. Þetta er miklu meira en eins dags vinna, enda var þetta svo frábær og innihaldsrík ferð! Ég áttaði mig á því hvers ég sakna að vestan og kem ríkari heim því ég lærði svo margt og mikið um sjálfa mig og aðra. Ég á svo ótrúlega mikið af eigulegum gripum eftir þessa ferð að það eru allar hirslur orðnar stútfullar af gersemum.
![]() |
Ferðafélagar |
Una Björg að tjilla í Tálkafirði |
þriðjudagur, 11. júní 2013
Pollurinn í Tálknafirði
Lífið er yndislegt og einfalt. Sérstaklega þegar bloggarinn marinerast í heitri laug úti í sveit og engar áhyggjur svo langt sem augað eygir.
mánudagur, 10. júní 2013
Sundferð
sunnudagur, 9. júní 2013
Á heimaslóðum
Það eru bara stuttar færslur núna enda hrjáir bloggarann staðbundið netleysi. En þetta er staðurinn, upphaf alls sem ég er, hingað liggja mínar rætur og hingað er dásamlegt að komast loksins aftur. Í morgun vaknaði ég við fuglasöng og árnið sem ég kannaðist við og í kvöld mun ég sofna við sama söng. Yndislegt!
laugardagur, 8. júní 2013
föstudagur, 7. júní 2013
Útsýnið
Útsýnið úr strætó akkúrat núna er býsna bjart og á því vel við. Framundan er spennandi helgi og ævintýrin bíða mín fyrir vestan. En fyrst, deit með fögrum fljóðum í höfuðborginni. Lífið er yndislegt!
fimmtudagur, 6. júní 2013
Hafragrautslexíur
Nemendur og kennarar átu saman úr sínum skálum og hurfu svo til sinna starfa áður en allir hittust aftur í matsalnum í næstu máltíð. Í Holti lærði ég líka 7 ára gömul að drekka Melroses te með brauðinu mínu og finnast það gott. Í morgunkaffinu var smurt brauð með eggjum, tómötum og gúrkum á borðum og hitabrúsar með Melroses tei. Ég sé ennþá fyrir mér rauðu miðana dingla á brúsunum og það sem manni fannst þetta notalegt, sjóðandi heitt te með mjólk og miklum sykri á meðan veturinn gnauðaði á glugga. Ljúft er það í minningunni.

miðvikudagur, 5. júní 2013
Lasagna
Þegar ég byrjaði að búa gerði ég Lasagna alltaf úr pakka og fannst það fínt. Sem það var auðvitað ekki, en hei! Ég var bara krakki. Svo prófaði ég að fara eftir einhverri uppskrift sem ég fann og gerði þessa alræmdu "bechamel"-sósu sem á að vera svo svakalega fín, en fannst hún svo hræðilega vond að ég hef ekki reynt við hana aftur. Enda finnst mér í raun skrýtið að hræra uppstúf saman við nautakjöt og bera á borð fyrir mannfólk.
Svo smakkaði ég lasagna með kotasælu og þá fóru hjólin að snúast. Ég hef verið að prófa mig áfram í sirka 10 ár og er ennþá að prófa nýjar útfærslur og geri aldrei eins og síðast. En sirka svona geri ég s.s. Lasagna:
Lasagna
- Hvítlaukur - saxaður eða marinn, steiktur upp úr olíu. Ef ég á ekki hvítlauk set ég bara venjulegan, þetta getur ekki klikkað.
- Nautahakk - bætt á pönnuna og steikt. Út á pönnuna fer líka alls konar krydd: kjötkraftur, salt, pipar, paprikukrydd, laukduft, oregano. Ég á það líka til að setja vorlauk, koriander, sýrðan rjóma, Worchester-sósa eða bara það sem er til hverju sinni, þetta getur ekki klikkað!
- Kotasæla - stór dós, bætt út á hakkið
- Niðursoðnir tómatar - ein dós, gott að kaupa tómata með basiliku eða einhverju öðru góðu. Lasagnað verður bara betra fyrir vikið.
- Allt hrært vel saman og svo er botnfylli sett í eldfast mót, lasagna plötur yfir. Síðan fer meira kjötgums og annað lag af lasagna. Það fer eftir stærð fatsins og magni kjötgumsins hvað þetta er gert oft, en hjá mér eru þetta þrjú lög af lasagnaplötum. Alltaf að enda á lagi af kjötsósu, strá rifnum osti yfir og skella inn í 180-190°C ofn í 35-40 mínútur.
þriðjudagur, 4. júní 2013
Að vökva ræturnar

Á myndinni hér til hliðar erum við ferðafélagi minn í fangi móður hennar fyrir utan æskuheimili mitt, mikið sem það er nú fallegt og stórt hús í minningunni. Í dag er þar rekin bændagisting og um helgina mun ég mæta á svæðið og gista í þrjár nætur. Vonandi fæ ég gamla herbergið mitt, þá get ég vaknað á morgnana, litið út um gluggann og séð það sama og ég gerði sem barn, fjallið mitt sem hefur ekkert breyst.
Ég var þarna síðast árið 2009 svo það er orðið löngu tímabært að skreppa vestur og vökva ræturnar, ekki veitir þeim af því.
mánudagur, 3. júní 2013
Miðjubarnið
Miðjubarnið mitt er í sífelldu kappi um athygli, ást og umhyggju, hann eltir okkur út um allt, þolir ekki að vera skilinn útundann, vill alltaf vera hafður í ráðum en allra, allra helst vill hann bara fá að vera nálægt okkur svo hann geti gætt okkar. Því án hans vökula eftirlits myndum við sjálfsagt fara okkur að voða. Það segir hann alla vega.
Það er eins gott að við fimm hittum hvert annað og ákváðum að rugla saman reitum, ég segi nú ekki annað.
sunnudagur, 2. júní 2013
Endomondo hlaup
Áður en ég fór út að hlaupa sló ég garðinn, í fyrsta sinn í ár. Ilmurinn er yndislegur og það hefur verið opið út síðan þá svo húsið fyllist örugglega af þessu góða lofti. Það er mögulegt að næst þegar ég slæ garðinn taki ég Endomondo með mér og láti hann skrá niður kílómetrana og kortleggja þá, það ætti að verða frekar fyndið á skjá.
Unglambið
Í fyrsta lagi á ég nefnilega bágt með að labba rólega. Ég er svoddan krakki í mér að þegar ég er á ferðinni, labba út í búð eða heim
Í annan stað er ástandið á mér þannig að þótt ég sé nú orðin fullra 35 ára þá iða ég ennþá í skinninu þegar ég á von á pakka. Ég elska að fá pakka! Spennan og æsingurinn er þvílíkur að ég get mig vart hamið. Eins og krakki á jólunum. Þess vegna panta ég
Þriðja atriðið sem mig langar að nefna, köllum það C, er frekar í vandræðalegu deildinni. Það hefur í gegnum tíðina truflað mig talsvert þótt ég reyni að láta lítið fyrir því fara og komast hjá aðstæðum þar sem þetta getur gerst. T.d. reyni ég að fara ekki á pósthúsið þegar það er rok, því uppi á Smiðjuvöllum þar sem pósthúsið er verður sko ROK þegar hvessir aðeins. Og þegar hvessir þá gerist það, ég tek andköf og allt lokast, ég get ekki andað. Þarf að snúa mér undan eða komast inn einhvers staðar. Enginn sem telur 1, 2, 3 fyrir mig eða neitt. Fyrirvaralaust kviknar á þessu ungbarnaviðbragði sem eldist víst almennt af fólki á fyrstu árum ævinnar, en ég bý einhverra hluta vegna ennþá yfir. Vita gagnslaus eiginleiki náttúrulega, nema ef keppt væri í ungbarnasundi fyrir 35+, þá yrði ég náttúrulega beðin um að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum. Ég bíð spennt eftir símtalinu...
laugardagur, 1. júní 2013
Afstæðiskenningin
Vangavelturnar hófust um daginn þegar við hjónin ákváðum að fara á Pöbbinn hér í bæ, svona aðeins til að lyfta okkur upp. Við erum svo heppin að geta nú orðið skilið stóru börnin okkar eftir heima í nokkra klukkutíma án þess að þurfa að fá okkur barnapíu eða neitt svoleiðis vesen. Þau sofa bara á sínu græna og vita alveg hvað þau eiga að gera ef þau vakna og þurfa á foreldrunum að halda því við erum nú ekki langt undan. Við höfum þó ekki nýtt okkur þetta neitt að ráði hingað til, okkur finnst líklegast svona rosalega gott að vera heima hjá okkur.
En sem sagt, það var lifandi tónlist í boði á Pöbbnum, tveir trúbadorar áttu að stíga á stokk á miðnætti og gömlu hjónin ákváðu að skella sér. Við vorum mætt fjórar mínútur í tólf, bara til að missa nú ekki af neinu. Við vorum fyrst á svæðið...
Klukkan 12, þegar tónlistarmennirnir stigu á svið sátum við fjögur í salnum. Þeir spiluðu nokkur lög áður en þeir lögðu í það að tala við okkur. Þá kynntu þeir sig formlega: Góða kvöldið, ég heiti Alexander. Og ég heiti Óli. Auðvitað sagðist ég heita Bogga, hátt og skýrt. Það voru ekki aðrir þarna en við, og mér fannst eitthvað vandræðalegt að ég vissi hvað þeir hétu en þeir vissu ekkert um mig!
Alla vega. Þetta kvöld fannst mér eitt augnablik ég vera ævaforn. Hundgömul. Fullorðin.
Fyrir það fyrsta þá mætir fólk ekkert fyrir miðnætti á pöbbann, ekki nema gamla fólkið þá helst.
Í annan stað þá fylltist allt af tvítugum töffurum um hálftvö-leytið og samanburðurinn í hressheitum var ekki mér í hag, ég sat bara róleg og hlustaði á tónlist eins og maður sá gamla fólkið oft gera hérna í gamla daga. Þau tvítugu voru á stöðugu iði, töluðu hátt, sungu hástöfum allt annað lag en Alexander og Óli voru að syngja.
Í þriðja lagi þá sat ég þarna allt of mikið klædd, sötraði úr rauðvinsglasi og klappaði á eftir hverju lagi. Hipp og kúl hefði verið að mæta í snípsíðum kjól og á 12 cm hælum, panta fötu á borðið og láta ískra í mér eins og í biluðum hemlabúnaði á eftir hverju lagi. Má annars segja "hipp og kúl"?
Við hjónin vorum komin heim um hálfþrjú og ég var svo fegin að skríða upp í rúm, dauðþreytt eftir svona næturbrölt.
Eftir þetta kvöld hef ég verið að hugsa svolítið um aldur og hvernig upplifunin breytist eftir því sem æviskeiðin líða hjá. Þegar ég var tvítug fannst mér 35 ára konur vera gamlar. Núna, þegar ég er orðin 35, finnst mér ég illa geta haldið uppi fullorðnum samræðum við tvítugt fólk. Þetta eru óttaleg börn ennþá, þannig séð. Og svona hlýt ég líka að hafa verið á þessum aldri. Sem betur fer voru snípsíðir kjólar og 12 cm hælar ekki í tísku þá, en að öðru leyti hefur þetta sjálfsagt verið mjög svipað.
Eins og ég lít á þetta núna þá hefur það tekið mig þessi 15 ár frá því ég komst af barnsaldri að fullorðnast. Ég get litið til baka með þakklæti og verið sátt við fortíðina og allt það sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Síðasta árið hafa orðið nokkuð stór kaflaskil í mínu lífi, kaflaskil sem ég er að skilja betur og betur þessar vikurnar. Eftir róstursamt ár finnst mér ég standa á tímamótum og framundan eru bestu ár ævi minnar, miðbik lífsins, tilgangurinn með þessu öllu saman. Ég held að síðustu 35 ár hafi verið undirbúningur þess tíma sem nú er runninn upp og framundan er og ég hef einsett mér að njóta tímans til hins ítrasta.
Það þarf engan Einstein til að sjá að aldur er afstæður, hvert æviskeið háð afstöðu sinni við annað æviskeið. Þegar ég var tvítug fannst mér ég vera ósköp fullorðin. Það var mín afstaða þá enda var ég að miða við minn eigin litla reynsluheim sem afmarkaðist af þessum 20 árum. Núna hef ég fleiri ár að miða við, reynslubankinn orðinn troðfullur og afstaðan er önnur. Ég er hreint ekkert gömul, enda rétt að verða fullorðin núna og reyni að njóta hvers einasta augnabliks í núinu og hlakka líka endalaust til framtíðarinnar. Það er mín afstaða.