miðvikudagur, 3. júlí 2013

Bóluferðalagið 2013

Um daginn var ég að fara yfir myndir úr Hringferðinni okkar og var alvarlega að spá í að breyta heiti þessarar ferðar í Bóluferðalagið 2013. Hversu óheppinn þarf maður að vera til að fá það stóra bólu að hún endist í 9 daga hringferð og leiki aðalhlutverk á öllum myndum úr ferðalaginu? Eftir nokkur ár þegar við skoðum myndir af fjölskyldunni úr þessari ferð munum við aldrei rugla þeim saman við myndir úr neinu öðru ferðalagi: "æjá, þetta er tekið árið 2013 þegar mamma fékk stóru bóluna..."

Bólan gerði samt ýmislegt skemmtilegt í ferðalaginu sínu af myndunum að dæma. Bólan synti til dæmis í jökulsá og í Stjórninni. Hún fór út að borða, skoðaði ótal fossa eins og Goðafoss, Dettifoss og svo á ég eina ansi góða af henni hjá Aldeyjarfossi. Hún heimsótti lundabyggð og handverkshús, fór í sund, heita potta og náttúrulaugar, fór út að hlaupa og í göngutúra. Bólan horfði samtímis á sólarlag og sólarupprás og naut þess í botn, hún borðaði nesti úti í guðsgrænni náttúrunni, hitti álfa í Þakgili, faðmaði tré í Hallormsstað, gekk um í Ásbyrgi, lá í sólbaði, spilaði kubb og yatsí, gerði krossgátur og las bækur. 

Þetta lítur reyndar út fyrir að hafa verið ansi skemmtilegt hjá henni. Og mér. Ég sé mig alveg líka, en meðan á ferðalaginu stóð virtist þessi fjandans bóla taka yfir líf mitt. Svo hjaðnaði hún og núna sést hún varla. En eftir standa myndirnar af okkur vinkonunum að upplifa eitt og annað og myndirnar eru ómetanlegar. Þrátt fyrir bóluna. Mér finnst meira segja að hún hafi dofnað aðeins á öllum myndunum líka. Undarlegt...
Frá vinstri: Sólin, Bólan, Boggan, Vinurinn

3 ummæli:

Árný Þóra Ágústsdóttir sagði...

Hvar er þessi bóla? hún hjaðnar greinilega á myndunum líka :-)

Björg sagði...

Já, kannski var hún líka stærri í huganum en í alvörunni bessunin. Maður má nefnilega ekki láta afvegaleiða sig svona með smáatriðunum :)

HelgaB sagði...

Haha, aldeilis heppin og hress á því þessi bóla að fá að upplifa svona margt með þér. Sé hana reyndar ekki á myndinni, bara ykkur þrjú yndislegu mín ;)