þriðjudagur, 16. júlí 2013

Þriðjudagur

Frjósemin er að ná hámarki þessa dagana hér á E9. Við vorum í 20 vikna sónar í dag og það eru 12 paprikur og 18 chili á leiðinni eins og myndirnar hér að neðan bera með sér! Tóti er auðvitað hrikalega spenntur því eins og allir vita þá er hann brjálaður í paprikur. Og chili.
Annars er það helst í fréttum að yndislegu sumarfríi er nú lokið. Það er í góðu lagi því hversdagsleikinn tók mjúklega á móti mér í vinnunni í gær. Og áður en ég veit af þá er komið helgarfrí! Ég þarf að vinna aðeins betur í því að koma ekki heim úr vinnu klukkan fjögur og setjast við tölvuna eða í sófann því þá hverfur restin af deginum í tómið og ég veit ekkert hvað af honum varð. Ég hlýt að ná tökum á því fljótlega, þetta er nú bara dagur tvö :)

Hlaupaprógramið gengur vel, ég var reyndar einum of spennt á sunnudaginn og hljóp 11 kílómetra (var að hlusta á Tony Robbins og hann er svo hvetjandi að ég gat ekki hætt að hlaupa). Því til viðbótar fórum við Tóti á Háahnúk um kvöldmatarleytið þann sama dag, en þrátt fyrir fögur fyrirheit um tíðar ferðir á toppinn hef ég ekki farið á Hnúkinn síðan í janúar. Svo núna er ég með harðsperrur og gat varla klárað hlaup dagsins svo vel færi. Svo er það hálft maraþon eftir tæpar 6 vikur, í fyrra hljóp ég á 1:58, markmiðið núna er að vera ekki lengur en það! (Í fyrra var markmiðið að komast í mark, það náðist :) ). 

Annað var það ekki í bili. Það var komin heilmikil pressa á mig að setja inn færslu, en svona er það þegar maður hefur aðgang að FB. Ég fann fyrir breytingunni strax um mánaðarmótin þegar ég mátti logga mig inn á ný eftir mánaðarpásu, þá fann ég ekki eins mikla þörf fyrir að skrifa hérna inn. Mun reyna að bæta mig!

Engin ummæli: