miðvikudagur, 17. ágúst 2011

Af hlaupum og öðrum tæknilegum stórvirkjum


Ansi hreint er maður langt leiddur þegar maður gefst upp á sumarfríinu og skellir sér bara í vinnu si sona, en það er þó einmitt það sem átti sér stað á mánudaginn. Sökin er að mínu mati sú að verulega hefur kólnað í veðri síðustu daga og ekki hægt að liggja neitt á pallinum. Þá liggur nú beint við að fara bara aftur í vinnu. Ég á nokkra daga eftir í frí sem ég geymi bara aðeins, það er bara gott og gaman.

"Mamma, ég bara verð að hætta að tana og fara að vinna" :-/

 Annað smellið sem gerðist nú í vikunni en hefur smá forsögu. Þannig er mál með vexti að í nokkur ár, eða þar til ég varð 31 árs, trúði ég því heitt og innilega að ég gæti ekki hlaupið. Það væri bara eitthvað sem aðrir gerðu og ég hlyti bara að vera öðruvísi en annað fólk. Ég tók jú reyndar árlega, örugglega tvö ár í röð, þátt í víðavangshlaupi á 17. júní á mínum sokkabandsárum, en þá erum við að tala um kannski kílómeter og ég var að drepast eftir það. Sjálf sveitastelpan...

Reyndar, svona þegar ég spái í því, þá gat ég heldur ekki synt eða spilað fótbolta svo vel færi, en reyni að lifa sem lengst á hinum ofurstutta blakferli mínum sem ég segi kannski frá síðar. Íþróttir hafa s.s. aldrei legið vel fyrir mér og ég því einbeitt mér að huglægri þjálfun og styrkingu andans svona eftir að ég áttaði mig á því að íþróttir væru fyrir aula :o)

Svo fyrir tveimur árum féll í fang mér vefslóð. Eigum við að segja að hún hafi fallið af himnum ofan? Já, höfum söguna bara þannig.

Á þessari vefslóð las ég um prógram fyrir þá sem ekkert geta hlaupið og því lofað að á tveimur mánuðum fengi ég þol hlauparans. Ég væri nefnilega ekkert öðru vísi en annað fólk (Myth busted...). Jú, á þessum tveimur mánuðum kæmist ég "From Couch to 5k", eða upp úr sófanum og í 5 km hlaup!


Undur og stórmerki!

Þetta gekk líka svona stórvel þrátt fyrir arfaslakan tónlistasmekk míns persónulega einkaþjálfara Roberts Ullrey sem talaði við mig í I-podinum mínum (við erum að tala um ömurlega techno-lyftutónlist í slow-motion...). Í dag sé ég að hægt er að fá alls konar podcast eins og hér, hér og hér fyrir þá sem hafa áhuga...

Síðan hef ég verið að hlaupa öðru hverju, tek svona skorpur og hleyp reglulega en dett svo í að hlaupa ekki neitt. Ég meira segja datt um tíma í prógramið "From 5k to Couch" og massaði það í nokkra mánuði. Þangað til nú í ágúst tókst mér aldrei að hlaupa meira en þessa 5 kílómetra sem Mr. Ullrey setti mér fyrir. Svo bara allt í einu kom það, mér tókst að hlaupa 6 km og síðan kemur að þessu smellna sem gerðist í vikunni, mér tókst að hlaupa 10 kílómetra án þess að stoppa eða labba neitt, whoop-whoop!

Um leið og ég var búin að hlaupa þessa 10 kílómetra áttaði ég mig líka á því að miðað við hvað ég er ógeðslega góð í að hlaupa þá ég ekkert dót við hæfi og úr því verður bætt hið snarasta. Í þessum töluðu orðum hleypur vinkona mín eins og vindurinn með Android símann sinn í Danzka og ég dauðöfunda hana. Mig langar líka í dót sem fylgist með lengd og mínútum og hækkun/lækkun og þannig :o/ Svo nú skoða ég snjallsíma og spekúlera mikið. Landslagið er aðeins öðruvísi en þegar ég var í "bransanum", en ég reyni að klóra mig fram úr þessu.

Málið er að þegar ég hljóp kílómeter í víðavangshlaupi í den (og var að drepast) þá var nóg að eiga vasadiskó. Fyrir tveimur árum þegar mér tókst að hlaupa 5 kílómetra hélt I-pod mér við efnið. Nú eru aðrir tímar og maður bara verður að fylgja. Ætli ég að eiga möguleika í þesum bransa, þá verð ég að eiga snjallsíma með Android-stýrikerfi og GPS staðsetningarmöguleika, annars á ég mér enga von, punktur og pasta!

4 ummæli:

Hörður og Árný sagði...

Til lukku með árangurinn. Ég vildi að ég nennti þessu, en mér leiðist alveg svakalega að spretta úr spori. Hjól er svo allt annað mál;-)

Hörður og Árný sagði...

Ég er ánægð með þig. Ekkert smá dugleg að hlaupa og snilldar tímar :-) Það er virkilega gaman að fylgjast með í nýja forritinu... mig langar í svona síma eða Garmin úr sem er hægt er að tengja við pedalan á hjólinu ;-)

Björg sagði...

Þetta er sko bara snilld, mæli alveg með svona tæki. Það er eitthvað svo hvetjandi við að hafa svona eftirfylgd og utanumhald á stafrænu formi, hreinasti unaður fyrir tækjanördinn í mér :o)

Kristín Edda sagði...

Þú ert endalaust dugleg mín kæra! Og sammála þér með tónlistarsmekk mr. Ullreys...ekki alveg minn tebolli heldur. En prógramm sem virkar vel.
Ég á einmitt svona síma og hef verið að hlaupa með runkeeper prógramminu. En mig langar samt í garmin úr. Verður hlaupaskónum ekki pakkað niður og teknir með í páskaferðina? Það er til dæmis sight seeing í Kbh sem heitir "running Copenhagen"...það ætla ég mér að prófa áður en langt um líður. Svo get ég tekið þig í prívat "running Skoedstrup city" thank you very nice :)