laugardagur, 29. október 2011

Grænir fingur

Mikil er gróskan á E9 þetta haustið.

Fyrir 11 mánuðum síðan gaf mamma mér tvo afleggjara af Hawai-rós. Annan stilkinn dró ég steindauðan upp úr pottinum í maí, þar sem hann var eiginlega orðinn að dufti. Hinn hefur líka litið út fyrir að vera dauður í 11 mánuði en ákvað um daginn að laufgast sisvona. Orðinn mjög hraustlegur og hnarreistur.


Síðan er það Engifer-rót sem ég var of sein að borða. Hún fór bara að laufgast þar sem hún lá í ávaxtakörfunni svo hún var drifin í pott og dafnar prýðisvel. Þetta er náttúrulega planta sem vex villt við miðbaug, veit ekki hvað hún var að hugsa þegar hún ákvað að laufgast (eða blaðgast??) hér á 64° breiddargráðu. En stilkurinn á henni er sterklegur og ég bíð spennt.


T.v. Hawai-rós - T.h. Engifer

Síðan er það svo furðulegt með útipott sem ég sáði í sumarblómum í fyrravor. Í fyrrasumar kom sáralítið upp og það sem þó kom var voða renglulegt eitthvað og bjálfalegt á að líta. Þess vegna reif ég það allt upp í vor og fjárfesti í litlu runnaskotti sem ég tróð bara ofan í pottinn í staðinn. Nema hvað, núna í október birtust þrjár sumarplöntur í pottinum, ákváðu bara að smella sér upp ári of seint. Flott hjá þeim.


Bjálfablóm og Runnaskott


Sumarblóm í október :o)
 Nú bíð ég bara eftir því að kvistirnir í parketinu fari að grænka og græðlingar spretti upp úr borðplötunni í eldhúsinu. Ég er bara svona ótrúlega flink í mínum grænu fingrum að ég hreinlega ræð ekki við mig!

Engin ummæli: